133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[18:09]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á gildandi lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands frá síðasta ári sem finna má á þskj. 410.

Í frumvarpinu er lagt til að samtals 3.400 millj. kr. af fyrirhugaðri ráðstöfun söluandvirðisins verði færðar milli ára. Frumvarpið er að sjálfsögðu nátengt fjárlagafrumvarpi næsta árs og skarast einnig við fjáraukalagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár. Markmiðið með frumvarpinu er að jafna framkvæmdum á milli ára og draga úr fyrri áformum um framkvæmdir á næsta ári í ljósi þess að umsvif þá verða almennt meiri í þjóðarbúskapnum en áður var áætlað. Má m.a. rekja þessi auknu umsvif til þess að enn eru miklar framkvæmir í gangi og verða á næsta ári á vegum einstaklinga og fyrirtækja þótt yfirstandandi framkvæmdum í tengslum við stóriðju ljúki að mestu á næsta ári.

Í frumvarpinu er ýmist um að ræða flýtingu fjárveitinga yfir á þetta ár, árið 2006, eða frestun fram á árið 2008, eftir stöðu einstakra verkefna. Þannig er með frumvarpinu lagt til að verkefnum er nema 1 milljarði kr. af fyrirhugaðri ráðstöfun á næsta ári verði flýtt og að þau færist yfir á þetta ár. Þau skiptast til jafns, annars vegar á smíði nýs varðskips og hins vegar á aukið framlag í Fjarskiptasjóð. Er þar um að ræða verkefni sem stefnir í að verði fyrr á ferðinni en áður var áætlað. Er því lagt til að þau flytjist fram og hefur þegar verið gert ráð fyrir þeim breytingum í frumvarpi til fjáraukalaga sem nú er útrætt hér í þinginu, samanber þær umræður sem var að ljúka rétt í þessu.

Gerð er grein fyrir þessum atriðum í athugasemdum við frumvarp til fjáraukalaga.

Helsta breytingin með því frumvarpi sem ég mæli nú fyrir er sú að lagt er til að framkvæmdir sem nema 2,4 milljörðum kr. færist frá árinu 2007 til ársins 2008. Er þar að stærstum hluta um að ræða verkefni í vegamálum sem af ýmsum ástæðum er ólíklegt að unnt verði að ráðast í á næsta ári. Þrátt fyrir frestun verkefna er áætlað að framlög til vegaframkvæmda aukist um 3,5 milljarða á næsta ári, í tæplega 10,5 milljarða.

Við ákvörðun um frestun fjárveitinga hefur að sjálfsögðu verið stuðst og miðað við stöðu einstakra verkefna og lagt til að þeim verði frestað sem styst eru á veg komin eða fyrirsjáanlegt er að muni hvort sem er tefjast af öðrum ástæðum, t.d. skipulagslegum. Þær fjárveitingar sem lagt er til að frestað verði til ársins 2008 eru í fyrsta lagi fjárveitingar vegna Sundabrautar en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að í það verkefni fari 100 millj. á næsta ári í stað 1.500 millj. Þessi fjárveiting, ásamt þeim heimildum sem fyrir hendi eru, mun eigi að síður nægja til að eðlilegur undirbúningur verksins geti haldið áfram á næsta ári en þá mun hin frestaða fjárveiting koma af fullum þunga inn í verkið.

Í öðru lagi er lagt til að fjárveiting við gatnamót við Nesbraut dreifist á tvö ár og verið 400 millj. kr. á næsta ári í stað 600.

Í þriðja lagi er lagt til að fjárveiting í Tröllatunguveg um Arnkötludal verði lægri en áður var áformað og til verkefnisins verði varið 200 millj. kr. á næsta ári í stað 400 en á móti hækki framlagið að sama skapi árið 2008. Ekki er gert ráð fyrir að það hafi í för með sér töf á því að verkinu ljúki.

Í fjórða lagi er lagt til að 300 millj. kr. framlag til Norðausturvegar færist yfir á árið 2008 en það mun lítil sem engin áhrif hafa á framgang verkefnisins eins og horfur eru nú.

Loks er lagt til að 300 millj. kr. vegna nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða færist yfir á árið 2008. Frumathugun á verkefninu er að hefjast og í framhaldi af henni er áformað að efna til samkeppni um hönnun byggingarinnar sem á að rísa við Suðurgötu eins og kunnugt er. Þegar niðurstaða úr samkeppninni liggur fyrir verða gerð útboðsgögn og er miðað við að takist að bjóða verkið út seinni hluta árs 2008.

Ég vil að lokinni þessari framsögu, virðulegi forseti, leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og í ljósi efnis þessa máls legg ég til að því verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.