133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[18:36]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kippi mér ekkert upp við það þó að hv. þingmaður tali af lítilsvirðingu um þær framkvæmdir sem hafa verið í gangi á vettvangi samgöngumála á undanförnum árum. Ég held að þær skýri sig náttúrlega fyrst og fremst í því ljósi að þar talar fyrrverandi samgönguráðherra sem komst hvorki lönd né strönd í þeim framkvæmdaáformum, hvað þá að uppfylla þær þarfir sem voru uppi í samgöngumálum á þeim tíma. Þann samanburð get ég alveg þolað.

Aðeins um framkvæmdir við norðausturveginn þá liggur það fyrir, og hv. þingmaður veit það mætavel, að það er ekki vegna þess að slegið hafi verið slöku við varðandi undirbúning framkvæmda af hálfu Vegagerðarinnar að hann hefur tafist. Það er vegna deilna um skipulagsmál, vegna deilna við landeigendur. Ég verð að viðurkenna að það veldur mér vonbrigðum að hv. þingmaður skuli tala eins og hann gerir hér.

Það hefur ekki staðið á vegagerðarmönnum og hönnuðum að leggja sig fram um að leysa þá þraut sem er að koma framkvæmdum af stað. En við þekkjum það að vegna skipulagsmála og vegna umhverfismats regluverksins, sem ég tel mjög mikilvægt, hafa framkvæmdir tafist.

Við vitum líka að framkvæmdir hafa tafist um allt land vegna deilna við landeigendur og deilna um skipulagsmál. Ég held að þingmenn þurfi að kynna sér þetta betur og jafnvel í kjördæmum sínum til að þeir tali ekki með þeim hætti sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerir hér. Það er staðreynd að við höfum sett af stað stórframkvæmdir í vegamálum á Íslandi og við eigum að vera stolt af því.