133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[18:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað þvættingur og útúrsnúningur að ég hafi talað af lítilsvirðingu um þær framkvæmdir sem hafa verið í gangi. Hefur hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson heyrt mig tala niðrandi um einhverjar framkvæmdir sem hafa verið í gangi? Ég er að gagnrýna hringlið með þessi mál. Ég er að gagnrýna niðurskurðinn frá kosningasamgönguáætluninni árið 2003. Ég vakti athygli á þeirri óþægilegu staðreynd sem það greinilega er fyrir hæstv. samgönguráðherra að hann hefur tætt niður sína eigin samgönguáætlun og skorið hana niður um 5,5–6 milljarða. kr. á kjörtímabilinu og því hefur hæstv. ráðherra ekki treyst sér til að mótmæla. Hann má vel halda því fram að ég hafi verið ónýtur samgönguráðherra og hvorki komist lönd né strönd. En ég bendi þá hæstv. samgönguráðherra á að draga sig norður á Vestfirði og spyrja heimamenn að því hvort ég hafi verið þeim verri samgönguráðherra en aðrir menn, Vestfirðingum. Ég held að hæstv. samgönguráðherra ætti að gera það.

Ég endurtek svo að það eru mönnum mikil vonbrigði að sjá að verið er að hringla með framkvæmdir og fjárveitingar til framkvæmda eins og Hófaskarðsleiðarinnar, sérstaklega vegna þess menn eru búnir að verða fyrir miklum vonbrigðum með að verkið hefur tafist. Ég þekki það allt saman eins og handarbakið á mér, hæstv. samgönguráðherra. Ég veit hvernig það hefur gengið til og veit að það eru á því skýringar sem að flestu leyti eru alveg fullgildar. Það verður ekki við það ráðist að ágreiningur var um vegarstæðið og átök ýmis. En mér var sagt fyrir mörgum vikum síðan að loksins væri þeirri þrautagöngu lokið og lögformlega ekkert lengur í vegi fyrir því að fara af stað með útboðsgögnin. Þess vegna eru mér það nýjar fréttir frá samgönguráðherra og mikil vonbrigði að nú verði verkið ekki boðið út fyrr en undir vor. Það bætir ekki úr skák að síðan eigi að hringla með fjárveitingar sem búið var þó seint og um síðir að ákveða inn á þetta verk, eins og þessa hlutdeild í söluandvirði Landssímans.