133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

408. mál
[20:28]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Hv. þingmaður vék hér að nokkrum atriðum og ég skal reyna að svara þeim eftir bestu getu. Það er alveg rétt að hér á að skjóta lagastoð undir tiltekið bráðabirgðaástand sem við vonum öll að vari sem styst.

Ástæðan fyrir því að gert er ráð fyrir þeim möguleika að Þróunarfélagið yfirtaki tilteknar eignir á svæðum A og B er sú að gert er ráð fyrir að að fenginni reynslu gæti komið í ljós að það sé einfaldlega heppilegri ráðstöfun. Í ljós gæti komið að eignir á svæðinu, eins og það er núna skilgreint, væri betra að leigja eða selja með þeim hætti sem Þróunarfélagið mun gera.

Við höfum tekið frá tilteknar eignir, t.d. varðandi svokallað öryggissvæði, íbúðarblokkir. Það er ekki alveg víst að full not verði fyrir allt það húsnæði. Þá finnst mér einboðið að gera megi ráð fyrir því að því verði afsalað til Þróunarfélagsins.

Varðandi stjórnsýslumálin vék hv. þingmaður að því að í 2. gr. er talað um nefnd sérfræðinga sem skuli undirbúa yfirfærslu … (SJS: Snurðulausa.) snurðulausa yfirfærslu á stjórnun og rekstri flugvallarins milli ráðuneyta. Það er mikilvægt að það gangi vel og greiðlega fyrir sig.

Stefnan hefur verið mörkuð. Hún er sú að á fyrrverandi varnarsvæði falli stjórnsýslan í sömu skorður og annars staðar í landinu almennt séð. Það þýðir að flugstarfsemin, það sem henni tilheyrir, mun flytjast frá utanríkisráðuneyti yfir í samgönguráðuneyti. Tollgæslan mun flytjast frá utanríkisráðuneyti yfir í fjármálaráðuneyti. Það er þegar búið að gera ráðstafanir til að löggæslan flytjist milli utanríkis- og dómsmálaráðuneytis. Svo eru önnur mál eins og heilbrigðismál og skipulagsmál sem á endanum munu rata til sinna almennu heimkynna í samræmi við það sem almennt gerist í landinu.

Hér er hins vegar gert ráð fyrir því að utanríkisráðherra fari með skipulagsmálin þar til annað verður ákveðið. Það kann vel að vera, þótt ég hafi ekki nefnt það hér, að á endanum verði þetta svæði, Suðurnesin öll og sveitarfélögin sem þar eru, plús fyrrverandi varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli, eitt skipulagssvæði. Að mörgu leyti held ég að það væri mjög heppilegt. Það mundi þá lúta hinum almennu lagareglum um þau mál undir yfirstjórn félagsmálaráðherra.

Það segir sig sjálft að þegar Bandaríkjamenn hafa yfirgefið varnarsvæðið eru þær skuldbindingar sem gengist var undir varðandi flugstöðina brott fallnar. En flugstöðin sem slík heyrir nú samkvæmt sérstökum lögum undir utanríkisráðherra. Ég tel að það sé þá næsta sjálfgefið að breyta því forræði með lögum þegar það þykir tímabært og færa yfir til samgönguráðherrans.

Þessi stefna er í raun mörkuð í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í september en jafnframt eru menn ásáttir um að hraða þessu ekki um of, en að slík heildaryfirfærsla á flugvellinum, rekstrinum og stjórnsýslunni þar auk Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar geti orðið með vorinu. Þar með held ég að þeim spurningum sé svarað.

Þingmaðurinn spurði síðan aðeins meira um Þróunarfélagið, hvort það væri ekki opinber aðili. Þróunarfélagið er einkahlutafélag í eigu ríkisins. Það er ekki heimilt að fela slíku félagi, sem er í einkaréttarlegum skilningi eins og hvert annað hlutafélag, eignir ríkisins nema með lagaheimild. Þeirrar lagaheimildar er aflað með breytingartillögu sem lögð hefur verið fram við fjáraukalög. Því þar er lagt til að við 4. gr. bætist nýr liður, 4.61, um að heimilt sé að selja, leigja eða ráðstafa með öðrum hætti fasteignum og landsvæðum á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem koma á í borgaraleg not.

Þarna er heimildin fengin sem væntanlega verður framlengd í fjárlagafrumvarpinu til að fela þessu félagi að annast þau verkefni sem því er ætlað að sinna. Slíkur þjónustusamningur sem þingmaðurinn spurði um yrði gerður á grundvelli, að mig minnir, 30. gr. laganna um fjárreiður ríkisins. En þetta þarf að gerast með þeim hætti til að öllum formsatriðum sé haldið til haga.

Hins vegar er félaginu ætlað að starfa á viðskiptalegum forsendum. Þess vegna er eðlilegt að gera þá kröfu til félagsins að það afli sér tekna með leigu húsnæðis eða eftir atvikum sölu þess, m.a. til að fjármagna hreinsun á svæðinu. Það er eitt af því sem tiltekið er í stofnsamþykktum félagsins, að það hafi það verkefni, eftir atvikum, að leigja, selja, hreinsa eða rífa mannvirki á landsvæði innan þess vébanda.

Þetta eru náttúrlega heilmikið verkefni. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði. Þetta er mikið mál og þetta verður eflaust fjárfrekt. En það er líka rétt sem hann sagði, að þarna eru miklar eignir sem eiga að geta gefið af sér fjármagn til að standa undir þessum verkefnum.