133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

408. mál
[20:39]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir greinargóð svör og ég tel að það hafi ýmislegt verið upplýst um þetta mál sem mér lék hugur á að vita og ef til vill fleirum.

Það er ekki bókstafurinn sem fer í taugarnar á mér í sambandi við B-svæðin, heldur einfaldlega eðli þeirra. Ég hefði fagnað því enn meir að samhliða brottför hersins og í beinu framhaldi henni hefði farið fram hreint, endanlegt og tæmandi uppgjör á þessum málum. Þar með talið að öllu landsvæði yrði skilað yfir til borgaralegra nota. Menguð svæði hreinsuð upp og eðlileg stjórnsýsla kæmist á á öllu því svæði.

Ég spyr um Helguvík vegna þess að þar er lítill reitur merktur áfram sem svæði B, sem öryggissvæði. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra um að það er ákaflega mikilvægt að ná Helguvík og koma henni til fullra nota, af því að þá opnast möguleikar, eins og hann benti réttilega á, að þessir miklu eldsneytisflutningar á vegunum heyri sögunni til.

Varðandi síðan starfsemi Þróunarfélagsins er ég ekki þeirrar skoðunar að mestu máli skipti að það fari að afla tekna til að geta svo aftur borið kostnaðinn af menguðum svæðum, hreinsun mengaðra svæða. Mér finnst aðalatriðið vera að Þróunarfélagið verði vel í stakk búið og hafi bolmagn til þess að koma mannvirkjunum og svæðunum í not, að þarna komi starfsemi og arðurinn verði óbeint leiddur af því að mannvirki og svæði komist þarna til nota. En ekki að pressan sé á því að Þróunarfélagið fái strax inn fjármuni vegna þess að annars verði ekki hægt að fara að hreinsa menguð svæði o.s.frv.

Ég er tortrygginn út í það fyrirkomulag sem þarna er sett upp að þessu leyti og hefði talið að menn hefðu átt að láta Þróunarfélagið fá talsverðan heimanmund, tannfé, og það sakaði þá ekki ef hann skilaði sér margfalt (Forseti hringir.) til baka í gegnum arð af starfseminni og verðmæti fyrirtækisins.