133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

Þjóðhátíðarsjóður.

356. mál
[20:42]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að leggja niður Þjóðhátíðarsjóð. Eins og margir eflaust muna var Þjóðhátíðarsjóði komið á laggirnar í tilefni af 1100 ára búsetu á Íslandi árið 1974. Hefur sjóðurinn starfað frá árinu 1977 samkvæmt staðfestri skipulagsskrá sem sett var samkvæmt ályktun Alþingis.

Tilgangur sjóðsins hefur, eins og segir í samþykktum hans, verið að veita styrki til stofnana og annarra aðila sem hafa það verkefni að vinna að varðveislu og vernd þeirra verðmæta lands og menningar sem núlifandi kynslóðir hafa tekið í arf. Gert hefur verið ráð fyrir að styrkir úr sjóðnum séu viðbótarframlög til þeirra verkefna sem styrkt eru en verði ekki til þess að lækka önnur opinber framlög til þeirra eða draga úr stuðningi annarra við þau.

Veruleg umskipti hafa orðið á fjárhagsstöðu sjóðsins og skemmst er frá því að segja að fjármunir hans hafa dregist mjög saman. Á sama tíma hafa ýmsir aðrir aðilar orðið atkvæðameiri í styrkveitingum á þessu sviði, bæði opinberir aðilar og einkafyrirtæki.

Upphaflega var stofnfé sjóðsins 300 milljónir gamalla króna sem var ágóði Seðlabanka Íslands af útgáfu þjóðhátíðarmyntar í tilefni af 1100 ára búsetu hér á landi. Reiknað var með að til sjóðsins rynni ágóði af sölu á svokallaðri tilefnismynt. Það hefur á hinn bóginn ekki gengið eftir. Hefur stjórn sjóðsins leitast við að bæta fjárhagsstöðu hans og m.a. kannað aðra tekjumöguleika á sviði myntútgáfu, en þrátt fyrir þessar tilraunir stjórnar sjóðsins hafa ráðstöfunartekjur hans dregist verulega saman. Sjóðstjórnin hefur gert forsætisráðuneytinu grein fyrir stöðu málsins og tillögum sínum sem þessi þingsályktunartillaga byggir á.

Sé upphafleg fjárhæð sjóðsins framreiknuð með lánskjaravísitölu mundi hún jafngilda um 345 millj. kr. Eignir sjóðsins í lok síðasta árs voru aftur á móti aðeins um 88 millj. kr. enda tekjum sjóðsins, þar á meðal verðbótum af verðbréfaeign, verið ráðstafað í styrki á umliðnum árum.

Með því að ekki hafa fundist aðrir tekjumöguleikar fyrir sjóðinn og stjórn hans telur ólíklegt að þeir muni finnast á næstunni, hvort sem er á sviði myntútgáfu eða með öðrum hætti, er í samræmi við fyrirmæli 11. gr. skipulagsskrár sjóðsins lagt til að heimilað verði í sérstöku bráðabirgðaákvæði eða sólarlagsákvæði að leggja niður starfsemi sjóðsins og að úthlutun styrkja ljúki árið 2011.

Gangi tillagan eftir munu árlegir fjármunir sjóðsins til styrkveitinga á næstu fimm árum verða um 20 millj. kr. sem er verulega hærri fjárhæð en verið hefur til ráðstöfunar á undanförnum árum. Til samanburðar úthlutaði stjórn sjóðsins á árinu 2006 samtals 2,6 millj. kr. í styrki. Allir sjá að úthlutun af þeirri stærðargráðu stendur vart undir því virðulega nafni sem Þjóðhátíðarsjóður ber.

Með þeim hætti sem hér er lagt til verður unnt að styrkja betur áhugaverð verkefni þar sem óskað er eftir hærri fjárhæðum en sjóðurinn hefur bolmagn til að veita nú.

Frú forseti. Ég legg til að tillögunni verði að umræðu lokinni vísað til síðari umræðu og hv. allsherjarnefndar.