133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

umferðarlög.

388. mál
[21:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér nægir andsvar til að koma að athugasemdum mínum við þetta frumvarp við 1. umr. Ég held að við séum öll sammála um að það er nauðsynlegt að grípa til markvissra aðgerða til að reyna að draga úr því mikla manntjóni, dauðsföllum og slysum sem verða í umferðinni. Þar náum við því miður enn ekki þeim árangri sem skyldi, það verður bara að horfast í augu við það. Það gengur seint og í rauninni ekki neitt að ná dauðaslysum niður úr þeim 2–3 tugum á ári sem þau hafa verið í að jafnaði að undanförnu.

Í þessu frumvarpi er ýmiss konar viðleitni sem er góðra gjalda verð, eins og að herða eftirlit og hækka sektarmörk og fleira í þeim dúr, auk tiltekinna aðgerða sem tengjast ungum ökumönnum. Þar er þó ekkert sagt um það, sem mér kemur að sjálfsögðu fyrst í hug og væntanlega mörgum fleirum, að einfaldlega hækka aldursmörk fyrir útgáfu ökuskírteinis. Þegar breytingar voru gerðar á umferðarlögum á sínum tíma og innleidd var heimild til æfingaaksturs flutti ég hér á þingi breytingartillögu við það frumvarp um að æfingaaksturstímabilið væri 17–18 ára aldursmörkin þannig að í reynd færðist útgáfa ökuréttindanna upp um ár. Ég er sannfærður um að það hefði þá verið sársaukalítil breyting, menn hefðu sæst á það að í reynd yrði fyrsta árið æfingaár undir þeim formerkjum að það væri æfingaakstur á ábyrgð reyndari ökumanns. Þessa braut mætti vel hugsa sér að feta í áföngum, taka einhverja mánuði eða hálft ár í einu til að mýkja þá aðlögun að hærri aldursmörkum sem við vitum svo sem að ýmsir eru ekki hrifnir af. Ég held að við getum ekki annað en horfst í augu við reynslu margra annarra þjóða og hún er sú að það hefur skilað miklum árangri að vera með hærri aldursmörk en þau sem við notum.