133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

eldi og heilbrigði sláturdýra o.fl.

377. mál
[21:32]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 411. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum.

Í núgildandi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum, er kveðið á um með hvaða hætti gjald fyrir þá heilbrigðisskoðun sem fram fer í sláturhúsum samkvæmt ákvæðum III. kafla laganna er innheimt. Eftirlitsgjaldið er innheimt sem ákveðin krónutala á hvert kíló kjöts, nánar sundurgreint eftir tegundum, og rennur það í sjóð í vörslu landbúnaðarráðherra. Einnig kemur fram í sömu málsgrein að eftirlitsgjaldinu sé ætlað að standa straum af heilbrigðiseftirliti kjötskoðunarlækna og að miðað sé við raunkostnað. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að í stað þess að Alþingi ákveði með lögum þá krónutölu sem greiða á fyrir hvert kíló kjöts vegna heilbrigðiseftirlits verði ráðherra falið með heimild í 2. mgr. 11. gr. laganna að setja gjaldskrá fyrir heilbrigðiseftirlitið sem byggð skal á raunkostnaði við það.

Að festa gjald til heilbrigðiseftirlitsins í lög, líkt og nú er gert, hefur þann ókost að lagabreytingar er þörf í hvert sinn sem kostnaður eykst eða minnkar við eftirlitið og því tryggja gildandi lög ekki að eftirlitsgjaldið geti staðið straum af raunverulegum kostnaði við eftirlitið.

Sú aðferð að heimila ráðherra að setja gjaldskrá sem byggist á raunkostnaði við eftirlitið á sér hliðstæður víða í almennri löggjöf og tryggir það að auðveldara er að bregðast við hækkunum og lækkunum á eftirlitskostnaði en þegar fjárhæð gjalds er lögákveðin. Ráðherra er einnig falið að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits, en sams konar heimild er að finna í núgildandi lögum.

Frumvarpið byggist á reglugerð Evrópusambandsins, nr. 882/2004 frá 29. apríl 2004, um opinbert eftirlit til að tryggja að uppfylltar séu kröfur laga um fóður og matvæli og um reglur varðandi dýraheilbrigði og dýravernd. Reglugerðin er hluti af viðauka I við EES-samninginn um heilbrigði dýra og plantna sem landbúnaðar-, sjávarútvegs-, umhverfis- og utanríkisráðuneytið eru nú í viðræðum um upptöku í íslenskan rétt. Mikilvægt er að frumvarpið verði að lögum enda mun það leiða til þess að útflutningur íslenskra sláturafurða til okkar helstu viðskiptalanda verður bæði öruggari og greiðari. Í frumvarpinu er afmarkað til hvaða þátta nauðsynlegt heilbrigðiseftirlit tekur og skýrt er kveðið á um að eftirlitsgjaldið taki ekki til greiðslu á öðrum kostnaði en nauðsynlegum kostnaði af þeim verkefnum sem fram koma í frumvarpinu.

Í frumvarpinu er það nýmæli að ef þörf er á viðbótareftirliti, eða sértæku eftirliti, með sláturafurðum skuli viðkomandi sláturleyfishafi eða framleiðandi greiða fyrir slíkt eftirlit sérstaklega en kostnaður af því verði ekki innifalinn í hinu almenna eftirliti.

Sértækt eftirlit með sláturafurðum er nauðsynlegt þegar tiltekin starfsemi sláturleyfishafa eða framleiðanda uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til sláturafurða vegna gruns um smitefni, mengun og þess háttar. Þetta eftirlit getur því hvort sem er beinst að sláturleyfishafanum vegna sýkingar í sláturhúsi eða að einstaka framleiðendum vegna sýkingar á búum þeirra.

Á síðustu árum hafa komið upp allnokkur tilvik þar sem greinst hafa á búum smitefni sem ógna matvælaöryggi og þörf hefur skapast á að taka aukalega sýni úr afurðum búsins. Af frumvarpinu leiðir að þar sem greinast smitefni verður framleiðandinn eða sláturleyfishafi sjálfur að bera þann kostnað sem af viðbótarsýnatökum og prófunum hlýst. Þetta er í anda þess að þeir sem þarfnast nánara eftirlits, e.t.v. vegna verri aðstöðu eða lélegrar heilbrigðisaðstöðu, beri af því kostnað. Með þessu eru framleiðendur hvattir til að tryggja eftir fremsta megni gott heilbrigðisástand svo ekki þurfi að koma til sérstakra prófana vegna smitefna hjá þeim. Með þessu er jafnframt tryggt að kostnaði vegna sýnatöku hjá einstökum framleiðendum sé ekki velt yfir á stéttina í heild sem eykur kostnað allra framleiðenda og getur leitt til hækkunar afurðaverðs.

Í frumvarpinu er kveðið á um að heilbrigðiseftirlitsgjald með sláturafurðum megi innheimta með fjárnámi án undanfarins dóms eða sáttar. Með þessu er mælt fyrir um réttarfarshagræði við innheimtu sem á sér margar hliðstæður í löggjöfinni.

Að lokum er kveðið á um að endurskoða skuli ákvæðið um eftirlitið í síðasta lagi að fimm árum liðnum.

Í fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið og læt ég nægja að vísa í það. Að öðru leyti vísa ég til þeirra athugasemda er fylgja frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.