133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

eldi og heilbrigði sláturdýra o.fl.

377. mál
[21:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. landbúnaðarráðherra um að mikilvægt er að hafa þetta eftirlit sem öruggast og best og líka ódýrast.

Ég velti hins vegar fyrir mér hinni lögformlegu stöðu þessarar gjaldtöku, að hægt sé að fela það í hendur landbúnaðarráðuneytinu að búa til gjaldskrá sem byggist á einhverjum raunkostnaði. Við fyrirtækjarekstur er náttúrlega hægt að reikna út hver er raunkostnaður einhverra þátta en hér er um opinbert stjórnsýsluverkefni að ræða sem landbúnaðarráðuneytið verður ábyrgt fyrir hvort sem það innheimtir tekjur fyrir það eða ekki, það breytir engu um ábyrgðina.

Hver á þá að staðfesta það að gjaldskrá byggist á raunkostnaði og gefa einu ráðuneyti heimild til að leggja á gjaldskrá eftir raunkostnaði? Við fáum iðulega ákvarðanir um tekjur ríkissjóðs vegna ákveðinna verkefna, gott og vel með það, en það breytir ekkert stjórnsýslulegri ábyrgð. Ég held að þegar verið er að binda slíkt í krónutölu sé það hin almenna regla að það verði að ákveða þetta fyrir hvert ár í senn á grundvelli staðfestra útreikninga. Mér finnst það vera nokkuð rúm heimild sem ráðherra fær þarna til að reka starfsemi sem á að standa undir sér, opinbera stjórnsýslu- og eftirlitsstarfsemi.

Í öðru lagi vil ég spyrja um kostnaðinn. Hvaða forsendur liggja núna fyrir um kostnaðinn af þessu máli og hvaða áhrif hefur þetta t.d. á afurðaverð til bænda eða rekstur sláturhúsa, því að einhver á að bera hann? Hér stendur í 1. gr.: „Kostnað af eftirlitinu ber sá sem ber ábyrgð á þeirri starfsemi sem er undir hinu aukna eftirliti.“ — Það eru væntanlega sláturhúsin.

Í þriðja lagi hefur stöðugt verið beðið eftir lögum eða reglum sem tækju til heimavinnslu afurða. (Forseti hringir.) Það er ekki verið að koma til móts við þá aðila í þessu eftirliti. Ég spyr ráðherra um það því að mér finnst þetta vera býsna opin og sérstök heimild sem þarna er verið að festa í lög varðandi gjaldheimtu af opinberu stjórnsýsluverkefni.