133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

eldi og heilbrigði sláturdýra o.fl.

377. mál
[21:45]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fór rækilega yfir það í ræðu minni að sú aðferð sem lögð er til, að heimila ráðherra að setja gjaldskrá sem byggist á raunkostnaði við eftirlitið, á sér hliðstæður víða í almennri löggjöf og ég bið hv. þingmann að fara vel yfir það þegar málið kemur til landbúnaðarnefndar. Ég veit að hv. þingmaður situr þar og hann getur kynnt sér að það á sér fyrirmyndir í löggjöfinni og þetta er því grandskoðað af okkur og talið eðlilegt.

Hvað varðar hækkunina á sláturkostnaði liggur þetta auðvitað fyrir og við vitum báðir að þetta snýr ekki síst að svínum og kjúklingum. Við glímum við mjög litla sjúkdóma í landbúnaðinum, við fáum þó upp og höfum fengið upp salmonellu í svínum og kjúklingum. Það hefur stundum verið töluverð glíma en mikill árangur Íslendinga einstakur, og við höfum náð að taka á því. En til að fylgja því eftir að búin séu hrein getur þurft að taka stroksýni áfram og þá er talið eðlilegt að þau bú sem búa við þennan vanda beri sérstaklega þennan eftirlitskostnað og auk þess, eins og önnur, almennan kostnað.

Ég hygg því að þetta sé á margan hátt sanngjarnt en ég bið hv. þingmann að fara vel yfir málið (Forseti hringir.) þegar það kemur til landbúnaðarnefndar.