133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

eldi og heilbrigði sláturdýra o.fl.

377. mál
[21:48]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hv. þm. Jón Bjarnason er nú það vel að sér að hann veit að komi upp faraldur er alveg sérstaklega á því tekið. Við höfum verið það miklir gæfumenn, Íslendingar, að við höfum ekki búið við slíkt og ég held að það sé ástæðulaust að reyna að vekja þann ótta upp. Innflutningur á kjötafurðum er undir mjög strangri löggjöf og fylgt mjög eftir að það sé gert eftir settum og virtum reglum sem bæði Evrópusambandið og alþjóðasamfélagið hefur sett sér. Þar er allrar varúðar gætt þó að ég taki undir það með hv. þingmanni að vissulega er mikil þörf á að vaka vel yfir því.

Innflutningur hefur svo sem ekki verið í neinni aukningu sem nemur. Einhver innflutningur hefur verið, frá því að opnað var í gegnum GATS-samninga frá 1995, á bæði nautakjöti og kjúklingum og svínum undir þeirri ströngu löggjöf. Ég held því að þetta sé allt saman í öruggri höfn og snýr ekkert að þessu máli sem slíku, það er allt annað mál.

Hvað hvalkjötið varðar verður hv. þingmaður að spyrja Heilbrigðiseftirlit Vesturlands. Yfirdýralæknir hefur einnig farið yfir það mál og Landbúnaðarstofnun. Ég vona að það sé í góðu horfi, þó að ég taki undir með hv. þingmanni að (Forseti hringir.) það er vissulega gert á allt annan hátti en í sláturhúsum og er þess vegna að mínu mati líka umhugsunarefni.