133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

forsendur fyrir stuðningi við innrásina í Írak.

[15:08]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að ef við höldum áfram að tala um þetta mál nokkuð lengur í þingsalnum munum við á endanum geta fengið hæstv. forsætisráðherra til að viðurkenna að þessi ákvörðun hafi verið röng, hún hafi byggt á röngum forsendum og hún hafi verið mistök af hálfu ríkisstjórnarinnar. Að sjálfsögðu á því ríkisstjórnin að biðja þing og þjóð afsökunar á því að hafa afvegaleitt þjóðina í þessu máli.

Ég held að ef við tölum svolítið lengur um þetta, fram að jólum, fáum við þessa yfirlýsingu fram. Hún væri auðvitað gríðarlega mikilvæg og það mundi breyta heilmiklu í stöðu þessa máls ef hún næðist fram. Ég held að það sé ástæða til að við höldum áfram aðeins að klappa þennan stein, hæstv. forsætisráðherra, þannig að við fáum fram yfirlýsinguna um það að ákvörðunin hafi verið röng, byggð á röngum forsendum allan tímann og ákvarðanaferlinu ábótavant.