133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

boð lyfjafyrirtækja.

[15:23]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin. Þetta mál lýtur auðvitað að siðferðilegum spurningum. Það lýtur líka að fjárhagslegum spurningum því að þegar upp er staðið snertir þetta ekki bara útlát ríkissjóðs, heldur snertir lyfjaverð vasa neytenda, ekki síst sjúklinga.

Þess vegna er mjög mikilvægt að línur séu hreinar í þessu máli og við hljótum að spyrja: Er þetta meinta jólaboð hið fyrsta jólaboð sem haldið er sameiginlega af félagi geðlækna og lyfjaframleiðendum eða lyfsölum? Eru fleiri sambærileg dæmi þá hjá öðrum læknahópum og öðrum lyfjaframleiðendum eða lyfjadreifingaraðilum?

Við hljótum líka að spyrja: Með hvaða hætti er eftirlit af hálfu hins opinbera með þessu sambandi lækna og lyfjaframleiðenda? Það eru læknar sem gefa út ávísanir á lyf og það eru lyfsalar sem afgreiða þau. Þess vegna er þarna um mjög mikla hagsmuni að ræða. Það er um milljarða króna hagsmuni að ræða og mikilvægt að eftirlitið og línur séu skýrar (Forseti hringir.) í þessum efnum.