133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar.

[15:32]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra þá afdráttarlausu skoðun hæstv. samgönguráðherra, sem er ný fyrir mér og er ný hér.

Í frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar segir þann 15. nóvember 2006, fyrir hálfum mánuði síðan:

„Forhönnun og verkhönnun fyrsta áfanga vegarins lýkur nú um áramótin 2006 og er stefnt að því að bjóða út framkvæmdir við fyrsta áfanga í framhaldi af því.“ — Fyrr í fréttinni kom fram að um var að ræða 2+1 veg.

Auðvitað er þetta stefnubreyting hjá hæstv. ráðherra og þá hlýtur þetta að verða blásið út af borðinu. 2+1 vegur sem er búið að hanna, stendur til að bjóða út og á að hefja framkvæmdir við núna um áramótin hlýtur þá að heyra sögunni til. Við heyrum það í viðtölum við sveitarstjórnarmenn og forustumenn á Suðurlandi og langt út fyrir það að það er þverpólitísk krafa að Suðurlandsvegur verði tvöfaldaður tafarlaust. 2+1 vegur er ónóg framkvæmd. Hæstv. samgönguráðherra tekur undir það hér og fullyrðir að hann hafi aldrei haldið því fram. Hann hlýtur þá að hafa samband við Vegagerðina og kalla til baka forhönnun og verkhönnun fyrsta áfanga af 2+1 sem á að hefjast um áramótin, eftir eins og 25 daga.

Auðvitað er það stefnubreyting, hæstv. ráðherra, og hún er mjög ánægjuleg og henni hlýtur hann að fylgja eftir af fullum pólitískum þunga.