133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:43]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum lagt fram sameiginlegt framhaldsnefndarálit fyrir 3. umr. um fjáraukalagafrumvarp það sem greidd eru atkvæði um hér. Þar förum við ítarlega yfir gagnrýni okkar á þetta frumvarp.

Virðulegi forseti. Það hefur margoft komið fram í áliti minni hluta fjárlaganefndar í gegnum árin að hvergi meðal hinna vestrænu ríkja þekkist að framkvæmdarvaldið komist upp með það að umgangast fjárlög með þeim hætti sem hér tíðkast. Lítil sem engin virðing er borin fyrir fjárlögum og sú ábyrgð og sú vandvirkni sem nauðsynleg er við framkvæmd þeirra er ekki til.

Þess vegna hafa öll fjárlög þessarar ríkisstjórnar verið marklaus plögg, málamyndagerningar. Sitjandi ríkisstjórnarmeirihluti á Alþingi hefur ekki viljað, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli þess efnis, gera bót á þeim slælegu vinnubrögðum sem meiri hlutinn hefur vanið sig á. Það verður því verkefni, frú forseti, nýrrar ríkisstjórnar að skapa þann aga og þá festu sem nauðsynleg er í ríkisfjármálum. Gjöldin nú eru áætluð um 6,2% meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Það má gera ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs verði meiri en hér er áætlað vegna þess að fjölmargar stofnanir eiga í rekstrarvanda sem ekki hefur verið tekið á á hv. Alþingi og benda bráðabirgðatölur til þess að mun fleiri stofnanir hafi um mitt ár 2006 verið komnar 10% fram úr fjárheimild en voru í lok árs 2005.

Það er líka mjög sérkennilegt að þurfa að horfa upp á það ár eftir ár hvernig fjáraukalögin eru notuð til að bæta tilteknum stofnunum uppsafnaðan rekstrarhalla en ekki er bætt úr rekstrarhalla annarra. Sumar stofnanir virðast eiga mun greiðari aðgang að fjáraukalögum en aðrar. Leiðréttingarnar eru því tilviljanakenndar og ekki að sjá að fylgt sé neinum reglum í þeim efnum.

Í greinargerð með frumvarpi til fjárreiðulaga þegar það lá hér fyrir þinginu var sérstaklega fjallað um tilgang fjáraukalaga. Sagði þar m.a. að með frumvarpinu og fjárreiðulögunum eigi að marka skýra stefnu um efni fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga. Þannig sé gert ráð fyrir því að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir komi fram í fjárlögum.

Virðulegi forseti. Ef litið er til síðustu ára kemur í ljós að aldrei hefur verið gengið um lokafjárlög og fjárlög á þann hátt sem fjárreiðulögin gera ráð fyrir. Það er ómögulegt að meta ágæti fjárlaga út frá umfangi fjáraukalaganna einna og sér. Til þess þarf mun meiri upplýsingar. Án þeirra upplýsinga verða bæði fjárlög og fjáraukalög hálfgerð eylönd án innbyrðis tengingar, án upphafs og endis. Virðulegi forseti. Við munum sitja hjá við afgreiðslu þessara fjáraukalaga og vísa ábyrgð á þeim (Forseti hringir.) algjörlega til stjórnarflokkanna.