133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2006 kemur nú hér til lokaatkvæðagreiðslu. Ég hef áður lagt áherslu á það í umræðum um fjárlagavinnuna af hálfu Alþingis að brýna nauðsyn beri til að breyta um aðferð. Við þurfum að hefja fjárlagavinnuna mun fyrr og Alþingi þarf að koma að henni og ef þörf er á á að vinna fjáraukalög að vori og svo aftur að hausti. Sá háttur sem hér er hafður á, að Alþingi fái fjáraukalög fyrir árið undir lok ársins og að það sé í rauninni bara formsatriði að stimpla og afgreiða þær ákvarðanir sem framkvæmdarvaldið hefur tekið á árinu eru ólíðandi vinnubrögð.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og reyndar þingmenn Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins lögðum við afgreiðslu fjárlaga fyrir ári síðan til fjölmargar breytingartillögur, sérstaklega hvað viðvék velferðarkerfinu. Þær tillögur voru felldar þá, m.a. varðandi Háskólann á Akureyri. Þær voru felldar þá en nú koma leiðréttingar inn við fjáraukalög. Gott og vel, gott að fá þær en þetta var allt saman fyrirsjáanlegt við fjárlagagerð fyrir ári og þessi vinnubrögð eru þess vegna ekki Alþingi sæmandi.

Frú forseti. Það eru ýmis atriði sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum gert miklar athugasemdir við. Við 2. umr. kom inn heimild til þess að ríkið keypti hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Alveg án skýringa og án umfjöllunar er það komið inn að varið skuli um 30 milljörðum kr. til að kaupa Landsvirkjun. Það mál allt er enn í uppnámi. Nýverið var meira að segja kærður til félagsmálaráðuneytisins sá bráðabirgðagjörningur sem gerður var milli ríkisvaldsins og Reykjavíkurborgar. Fleiri atriði þar eru í uppnámi þannig að það er algjörlega ótímabært að taka þá afgreiðslu hér inn, enda mótmæltum við því.

Annað atriði sem hér er líka inni er 5 milljarða ríkisábyrgð vegna framkvæmda Landsvirkjunar við Kárahnjúkavirkjun á árinu 2006. Hvorki hefur komið skýring á því til hvers þessi upphæð þarf að koma inn né hefur verið gerð grein fyrir því hvort Reykjavíkurborg eða Akureyri komi með tilsvarandi ábyrgð á móti, engin svör hafa fengist. Svoleiðis er það með allt of mörg atriði hér að ekki fást svör við mörgum þeim spurningum sem lagðar hafa verið fram.

Frú forseti. Þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram og mig langar að greiða atkvæði um sérstaklega eru margar til bóta en þegar litið er á frumvarpið í heild sinni (Forseti hringir.) er það á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar hér þannig að við þingmenn (Forseti hringir.) Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sitjum hjá, frú forseti.