133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:59]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum í samræmi við tillögur ríkisstjórnarinnar frá 9. október 2006 um aðgerðir til að lækka matvælaverð og fleira. Með frumvarpi þessu eru tillögurnar útfærðar að því er varðar vörugjald og virðisaukaskatt auk þess sem lagðar eru til örfáar breytingar til viðbótar.

Í fyrsta lagi er lagt til að vörugjöld verði felld niður af innlendum og innfluttum matvælum, öðrum en sykri og sætindum. Með sykri og sætindum er fyrst og fremst átt við vörur sem er að finna í 17. kafla tollskrárinnar, sem ber heitið „Sykur og sætindi“. Einnig er gert ráð fyrir að vörugjöld muni hvíla áfram á ýmiss konar súkkulaði sem er að finna í 18. kafla tollskrárinnar og sírópi í 21. kafla. Hins vegar er lagt til að vörugjöld verði felld niður af öllum öðrum matvælum.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Meginbreytingin felst í því að gert er ráð fyrir að lægra skattþrepið í virðisaukaskatti fari úr 14% niður í 7% og að öll matvara og önnur vara til manneldis verði í lægra skattþrepi. Í dag ber eingöngu ákveðinn hluti matvörur 14% virðisaukaskatt en önnur matvara ber 24,5% virðisaukaskatt. Verði frumvarp þetta að lögum mun öll vara til manneldis bera 7% virðisaukaskatt. Breyting þessi hefur þannig í för með sér að virðisaukaskattur af annarri þjónustu og vörum í 14% þrepi, svo sem bókum, tímaritum, blöðum, húshitun, afnotagjöldum útvarpsstöðva og hótelgistingu, verður lækkaður í 7%. Lagt er og til að virðisaukaskattur af veitingaþjónustu verði lækkaður úr 24,5% niður í 7%. Fyrir utan augljósan ávinning fyrir almenning af því að virðisaukaskatturinn sé lækkaður mun þetta einnig verða til mikils hagræðis fyrir aðila í veitingarekstri. Endurgreiðslukerfi á virðisaukaskatti hefur verið við lýði fyrir þá sem selja tilreiddan mat sem hefur skapað talsverða vinnu og umsýslu fyrir þá. Með þessari breytingu verður þetta kerfi óþarft og hefur hún því mikla einföldun í för með sér. Þá er lagt til að virðisaukaskattur af geisladiskum, hljómplötum og segulböndum með tónlist verði 7%, en það er gert til að jafna samkeppnisstöðu tónlistarútgefenda við bókaútgefendur.

Með frumvarpinu eru einnig lagðar til tvær aðrar breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Lagt er til að heimild skv. 5. gr. A til samskráningar á virðisaukaskattsskrá nái einnig til sparisjóða og dótturfélaga þeirra. Hlutafélög og einkahlutafélög hafa heimild samkvæmt ákvæðinu til samskráningar. Bent hefur verið á að sparisjóðir geti haft hagsmuni af því að njóta samskráningar eins og hlutafélög og einkahlutafélög. Ekki verður séð að nein rök standi gegn því að sparisjóðir njóti sama réttar til samskráningar og er því lögð til þessi breyting. Að lokum er lagt til að heimild í lögum um virðisaukaskatt um endurgreiðslu tveggja þriðju hluta virðisaukaskatts af nýjum hópferðabifreiðum verði framlengd til 31. desember 2008. Það er gert í samræmi við tillögu starfshóps sem samgönguráðherra skipaði til að fjalla um rekstraraðstæður þeirra sem reka hópferðabifreiðar með hliðsjón af hlutverki þeirra í almenningssamgöngukerfinu.

Samræmis vegna og til einföldunar í framkvæmd er í frumvarpinu gert ráð fyrir að lækkun á virðisaukaskatti af matvöru nái einnig til áfengis, en samkvæmt núgildandi lögum er áfengi í efra þrepi virðisaukaskatts. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar um lækkun matvælaverðs miðuðu hins vegar ekki að því að lækka verð á áfengi. Af þeim sökum er með frumvarpi þessu lagt til að áfengisgjald verði hækkað til mótvægis við þá verðlækkun sem verður vegna lækkunar virðisaukaskatts af áfengi, eða sem nemur 58%. Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting leiði til breytingar á tekjum ríkissjóðs af áfengi.

Frá því að frumvarpið kom fram í þingsölum hefur orðið talsverð umræða um hvaða áhrif frumvarpið hafi á verð á áfengi. Komið hefur fram að þeir sem eiga viðskipti með áfengi telji að þetta leiði til umtalsverðrar hækkunar á tekjum ríkissjóðs. Jafnframt hefur komið fram, sem er rétt, að þetta hafi í för með sér mismunandi breytingar á verði áfengis eftir tegundum vegna þess að munur er á að leggja krónutölugjald á lítra af vínanda og virðisaukaskatt á endanlegt söluverð áfengis. Hugsanlegt er líka að þetta hafi í för með sér talsverðar breytingar á innheimtu tekna ríkissjóðs, annars vegar af áfengi sem selt er á veitingahúsum og hins vegar áfengi sem selt er í útsölum ÁTVR. Ljóst er að þessar breytingar geta verið umtalsverðar. Þær hafa greinilega valdið talsverðri ólgu og gætu orðið mjög umdeildar og tímafrekt að fara yfir þær og sannreyna hvað er rétt í þeim útreikningum sem lagðir hafa verið fram, útreikningum sem sumir hverjir byggja sjálfsagt á mismunandi og misvísandi forsendum.

Ég tel þess vegna að þar sem alltaf hefur legið fyrir að þessi breyting ætti ekki að hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs eða breyta forsendum fjárlaga og vegna þess að nokkuð skammur tími er til að ljúka þingstörfum þá væri skynsamlegt að fresta því að taka afstöðu til þessara greina. Ég vildi því með fullri virðingu fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd leggja til að nefndin frestaði því að taka afstöðu til greina um að lækka virðisaukaskattinn á áfengi og hins vegar að hækka áfengisgjald. Þannig gefst tími til að fara betur yfir þessi mál með hagsmunaaðilum og þeim sem komið hafa fram með athugasemdir og kanna hvort þær eigi við rök að styðjast. En sé svo þá leiti menn annarra leiða til þess að ná því markmiði að lækka virðisaukaskatt á áfengi án þess að ríkissjóður tapi tekjum ef mögulegt er.

Ég tel hins vegar nauðsynlegt að aðrar greinar sem ég hef farið yfir, sem lúta að því að lækka virðisaukaskatt á matvælum og öðru nái fram að ganga á þinginu fyrir jólahlé vegna þess að þær hafa áhrif á fjárlögin og tekjugrundvöll fjárlaga.

Verði þetta frumvarp óbreytt að lögum er áætlað að á árinu 2007 lækki tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum um 465 millj. kr. og tekjur af virðisaukaskatti um 12 milljarða kr. Heildarlækkun tekna ríkissjóðs á árinu 2007 er þannig áætluð 8.765 millj. kr. og á heilsársgrundvelli nemur tekjulækkunin rúmlega 10,5 milljörðum. Inn í þessar tölur verður að taka að samkvæmt frumvarpinu mundu tekjur af áfengisgjaldi hækka um 3,7 milljarða kr. en þar sem virðisaukaskatturinn af áfengi og áfengisgjaldið ættu að standast á hafa tölurnar um áfengisgjaldið ekki áhrif á niðurstöðutöluna sem ég fór með á undan.

Hvaða áhrif, frú forseti, mun þetta frumvarp hafa á vöruverð? Útreikningar um það geta auðvitað aldrei orðið hárnákvæmir enda hægt að gefa sér mismunandi forsendur. En gera má ráð fyrir því að áhrif á matvörur, aðrar en kjöt og mjólkurvörur, verði á bilinu 10–12%. Auk þess munu mjólkurvörur ekki hækka og verður í raun um verðstöðvun að ræða hvað mjólkurvörur varðar á næsta ári. Verð á mjólkurvörum mun því standa í stað í tvö ár og tollar á kjötvörum munu lækka í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þannig má gera ráð fyrir að áhrifin verði á bilinu 12–13%. Þegar síðan áhrif á verð veitinga er tekið með má gera ráð fyrir að áhrifin verði á bilinu 14–16% eins og talað var um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Hér er alls staðar miðað við matvælaverðsvísitöluna.

Bein áhrif, t.d. á reikninginn í veitingahúsunum, gætu orðið á bilinu 12–13% án áfengis. Þegar síðan áhrif á verð vöru sem er í lægra þrepinu en ekki telst til matvöru eru tekin með má gera ráð fyrir því að áhrifin á neysluverðsvísitöluna verði á bilinu 2,6–2,7%. Að sjálfsögðu er um umtalsverðar breytingar að ræða sem hljótast munu beint af þessu frumvarpi. Inn í spilar annað sem er að gerast í efnahagsumhverfinu sem vonandi hefur jákvæð áhrif og bætir mjög hag heimilanna.

Ég legg því til, frú forseti, að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.