133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:14]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar við erum að lækka skatta þá er ekki mjög gott að það sé gert of hratt, sérstaklega ekki á þenslutímum. Á þetta hefur hv. þingmaður margsinnis bent. Þess vegna hefur ríkisstjórnin reynt að dreifa skattalækkununum á kjörtímabilið.

Ríkisstjórnin hefur lækkað skatta á hverju einasta ári kjörtímabilsins og núna er gerð tillaga um þessa skattalækkun, ekki vegna þess að það hafi ekki staðið til heldur vegna þess að það var talið rétt að lækka aðra skatta á undan. Ef hv. þingmenn muna eftir því þá sagði ég fyrir ári síðan að nægur tími væri eftir af kjörtímabilinu til að koma fram með þessar lækkanir.

Tollalækkanirnar eru hins vegar flóknara mál en lækkun á virðisaukaskatti. Við erum að reyna að semja um þá hluti við aðra aðila líka til að bæta stöðu okkar annars staðar í því sambandi. Það er hins vegar ekki líklegt að við sjáum mikil áhrif af þeim tollalækkunum á tekjur eða gjöld ríkissjóðs (Forseti hringir.) þótt að vonandi komi þær til með að lækka verð.