133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[17:13]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í yfirgripsmikilli ræðu sinni kom hv. þingmaður inn á matarútgjöld og sagði matarútgjöld vega þyngra hjá lágtekjufólki en hátekjufólki. Þetta er eitthvað sem ég lengi vel trúði sjálfur og mjög margir. Síðan rakst ég á könnun, sem ég held að Háskólinn á Bifröst hafi gert þar sem hann kannaði þessa fullyrðingu, og það kom í ljós að matarútgjöld eru háð tekjum fólks og meira að segja línulega, þannig að maður sem er með tvöfalt hærri tekjur eyðir að jafnaði tvöfalt meira í mat. Forsenda hv. þingmanns er því ekki rétt samkvæmt þessari könnun. Og þá mundi ég allt í einu eftir því að í þau skipti á ævinni þegar ég hef orðið blankur, sparaði ég aðallega í matarinnkaupum því að þar er hægt að spara heilmikið. Ef maður kaupir ódýran mat, pasta og því um líkt í staðinn fyrir nautasteikur, eða fer minna út að borða, getur maður sparað umtalsvert í matarútgjöldum.

Þess vegna held að menn þurfi að vita, eða a.m.k. að gera sér grein fyrir því eða átta sig á því, að þessi könnun liggur fyrir og að sú fullyrðing er ekki rétt að lágtekjufólk eyði jafnmiklu í krónutölu og hátekjufólk og þar af leiðandi hlutfallslega miklu meira miðað við tekjur.