133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[17:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get t.d. vitnað í útreikninga sem Þjóðhagsstofnun gerði á breytingartillögum sem ég flutti við mál af þessu tagi á 10. áratugnum, og Þjóðhagsstofnun reiknaði út í samstarfi við Hagstofuna tekjujöfnunaráhrif mismunandi tillagna sem fluttar voru við afgreiðslu þess þingmáls. Ég held að það hafi verið þrjár tillögur, ríkisstjórnarinnar, Framsóknarflokksins og tillögur sem Alþýðubandalagið flutti þá. Þá staðfesti Þjóðhagsstofnun að tekjujöfnunargildi þeirra tillagna sem við fluttum var mest. Inn í það komu tekjujafnandi áhrif aðgerða af því tagi að lækka sérstaklega matarverð. Útkoman varð ósköp einföld og rökrétt, það kom stórum, tekjulágum fjölskyldum mest til góða.

Nú kann að vera nokkuð til í því sem hv. þingmaður var með, að tekjuhátt fólk getur að sjálfsögðu líka eytt miklu í mat og náð sama hlutfalli í útgjöldum að þessu leyti og aðrir ef það svo kýs og bruðlar, en það á val. Munurinn á því og lágtekjufólkinu er að þar eiga menn ekkert val, menn verða náttúrlega með einhverjum ráðum að eiga fyrir lífsnauðsynlegum matarútgjöldum. Því miður er það veruleikinn að þúsundir fjölskyldna í þessu landi hafa svo lítið handa á milli að þegar hinn fasti kostnaður er kominn, þ.e. útgjöld vegna húsnæðis og kannski skólagöngu barna og aðrir slíkir hlutir, ég tala nú ekki um ef menn eru að reyna að láta eftir sér að reka heimilisbíl, fer afgangurinn í mat. Við þekkjum örugglega öll svona fólk — ef svo er ekki legg ég til að menn nái sambandi við einhverja — sem veltir fyrir sér hverri krónu þegar líður á mánuðinn, og þær krónur eru eftir til matarkaupa fram að næstu mánaðamótum. Það er þetta fólk sem fær sérstaka kjarabót með aðgerðum af þessu tagi. Ég held því alveg blákalt fram að það sé mikið á sig leggjandi til að gera ráðstafanir sem bæta stöðu þess.