133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[17:19]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek sérstaklega undir það sem fram kom í máli hv. þingmanns varðandi stöðu landbúnaðarins og þátt hans í útgjöldum heimilanna. Það er alveg rétt sem þingmaðurinn bendir á, hlutfall innlendra matvæla í útgjöldum heimila hefur lækkað verulega á síðustu árum og það er einmitt nauðsynlegt að beina athyglinni að því til þess að beina umræðunni um lækkun matarverðs frá landbúnaðarkerfinu sjálfu. Of margir hafa viljað tengja þetta tvennt saman og telja nauðsynlegt að gera kerfisbreytingar á íslensku landbúnaðarkerfi ef ná eigi lækkun á landbúnaðarverði. Það held ég að séu ekki réttar ályktanir og nauðsynlegt einmitt að halda á lofti upplýsingum sem sýna annað.

Ég held að aðalatriðið sé það að við búum í markaðskerfi sem þýðir að þegar ríkisvaldið grípur til aðgerða eins og þessara, að lækka tekjur sínar með því að lækka tiltekinn skatt, virðisaukaskatt í þessu tilviki, er ekkert víst að sú skattalækkun skili sér til þeirra sem eiga að fá hana, þ.e. neytenda, vegna þess að sá sem selur vöruna hefur frelsi til verðlagningar. Fyrir því er reynsla, m.a. frá Svíþjóð, að það er hætta á því að aðgerð af þessu tagi mistakist ef ekki fylgir samhliða einhver aukin samkeppni á þeim markaði sem lækkunin nær til. Ég bendi einmitt til þeirrar reynslu árið 1995 í Svíþjóð. Því miður sé ég ekki neina nýja samkeppnisaðila inni á þessum markaði þannig að við verðum þá að skoða það í þinglegri meðferð þessa máls til hvaða aðgerða menn geta gripið til að tryggja að verðið lækki og skattalækkunin skili sér þangað sem hún á að fara en endi ekki í vasa þeirra sem selja vöruna.