133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[17:25]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er að vísu svo að inni í þessu kerfi eru enn þá vissir þættir sem lúta að verðlagsákvörðunum, eins og heildsöluverðlagning á mjólkurvörum ef ég man rétt, þannig að það er kannski ekki alveg svo að verðlagið ráðist alfarið af framboði og eftirspurn á markaði í þessu tilviki.

Það er hins vegar hárrétt sem hv. þingmaður segir að þegar upp er staðið ræðst það af kaupgetu almennings hvort varan selst á einhverju tilteknu verði. Það er alveg vitað að innflutningsverslunin lagði sig ekkert sérstaklega fram um að lækka verð vörunnar í takt við sterkara gengi krónunnar á meðan það var á uppleið á síðasta ári og fram í byrjun þessa árs. Þegar maður spurði búðareigendur og innflytjendur af hverju þeir skiluðu ekki lægra verði í takt við sterkari krónu svöruðu þeir bara: Hvers vegna á maður að lækka verðið meðan allt selst? Það er að sjálfsögðu þarna áfram til staðar.

Sem sagt, öflugt eftirlit með því að þessar aðgerðir skili sér er mjög mikilvægt.