133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breyting á lögum um vörugjald og virðisaukaskatt af ýmsum vörum. Í dag hefur farið fram allítarleg umræða um ýmsa þætti þessa máls. Tilgangur þess er eins og komið hefur fram er að lækka matvælaverð með því að lækka ýmis gjöld.

Það er vert að lækka matarverð og ýmsar af aðgerðunum í þessu frumvarpi eru góðra gjalda verðar. En þetta er ekki einhlítt. Í umsögn fjármálaráðuneytisins um þetta frumvarp segir, með leyfi forseta:

„Megintilgangur frumvarpsins er að lögfesta ákvæði sem nauðsynleg eru til að áform um aðgerðir til að lækka matvælaverð o.fl. nái fram að ganga í samræmi við tillögur ríkisstjórnarinnar frá 9. október 2006. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á lögum um vörugjald sem miðar að því að frá og með 1. mars 2007 falli niður að fullu vörugjöld af matvælum, öðrum en sykri og sætindum. Í öðru lagi er lögð til breyting á lögum um virðisaukaskatt sem miðar að því að lægra skattþrep í virðisaukaskatti fari úr 14% niður í 7% og að öll matvara og önnur vara til manneldis verði í lægra skattþrepinu. Breytingin hefur einnig í för með sér að virðisaukaskattur af annarri þjónustu og vörum sem nú eru í 14% þrepi lækkar í 7%, ásamt því að virðisaukaskattur af veitingaþjónustu, geisladiskum, hljómplötum og segulböndum og öðrum sambærilegum miðlum lækkar úr 24,5% í 7%. Í þriðja lagi er lögð til hækkun á áfengisgjaldi til að vega upp tekjumissi af lækkun virðisaukaskatts á áfengi úr 24,5% í 7%. Hækkun áfengisgjaldsins er 58% og miðar að því að tekjur ríkissjóðs af áfengi verði sem næst óbreyttar.“

Hér er lögð til viðamikil breyting varðandi skattlagningu á þessum vöruflokkum sem tvímælalaust mun hafa áhrif til lækkunar vöruverðs og einnig á tekjur ríkissjóðs. Í þriðja lagi felst í þessum breytingum á sköttum á matvöru ákveðin neyslustýring. Gegnum skattlagningu á matvörum má hafa áhrif á neyslu og neysluvenjur, sem ég kem aðeins að síðar.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarpið segir enn fremur:

„Til viðbótar því sem hér hefur verið rakið eru í frumvarpinu lagðar til tvær breytingar á lögum um virðisaukaskatt, … Annars vegar að heimild til samskráningar á virðisaukaskattsskrá nái einnig til sparisjóða og dótturfélaga þeirra, og hins vegar að heimild til endurgreiðslu á tveimur þriðju hlutum virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu á hópferðabifreiðum framlengist um tvö ár, …“

Sé litið á hvaða þættir hafa áhrif á kostnað við framfærslu á landinu þá er það náttúrlega fleira en matarverð, m.a. kostnaður almenningssamgöngur. Í gegnum niðurfellingu skatta og gjalda getum við stýrt því hvers konar neysla nýtur forgangs. Hér eru hópferðabifreiðar teknar fyrir. Það framlengist um tvö ár, þ.e. endurgreiðsla á tveimur þriðju hlutum virðisaukaskatts.

En varðandi þetta viljum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ganga nokkru lengra. Við höfum, ásamt Álfheiði Ingadóttur sem var á þingi fyrir skömmu sem varaþingmaður, flutt tillögu til breytinga á lögum um virðisaukaskatt þar sem við allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru meðflutningsmenn að. Hún lýtur að almenningssamgöngum, sem ég tel að ættu að koma inn í þetta frumvarp. Í greinargerð með frumvarpi okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta var flutt á 130. og 131. löggjafarþingi en varð í hvorugt skiptið útrætt. … Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að kaupendur almenningsvagna sitji við sama borð og kaupendur annarra hópferðabifreiða og njóti endurgreiðslu á tveimur þriðju hlutum virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2006.“ — Með þessu viljum við ná því fram að almenningsvagnar, strætisvagnar, njóti sömu kjara hvað endurgreiðslu á virðisaukaskatti varðar og hópferðabifreiðar.

„Með lögum nr. 57/2001 var bundin í lög heimild til að endurgreiða þeim sem hafa leyfi til fólksflutninga í atvinnuskyni tvo þriðju hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2003. Með lögum nr. 72/2005 var heimildin framlengd til 31. desember 2006.“ — Það er sú gamla heimild sem hér yrði framlengd í tvö ár í viðbót. En hún nær eingöngu til hópferðabifreiða sem reknar eru í atvinnuskyni.

En í greinargerð með tillögunni sem Álfheiður Ingadóttir er fyrsti flutningsmaður að segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Niðurfelling virðisaukaskatts vegna kaupa á almenningsvögnum er hins vegar óheimil samkvæmt lögum nr. 50/1988 og hafa þeir sem reka almenningssamgöngur, en það eru einkum sveitarfélög og fyrirtæki þeirra, engrar endurgreiðslu notið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fyrirtæki sem reka almenningssamgöngur sitji við sama borð og þeir sem reka hópferðabifreiðar í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Jafngild rök liggja að baki nauðsynlegrar endurnýjunar á flota almenningsvagna og flota hópferðabifreiða. Stærsta fyrirtækið á þessu sviði er Strætó bs., sem er byggðasamlag í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þjónustusvæði þess er dreifbýli á Kjalarnesi og í Mosfellsdal, þéttbýli í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ, á Seltjarnarnesi, Álftanesi og í Reykjanesbæ. Í ársbyrjun var þjónustusvæðið útvíkkað til Akraness í tilraunaskyni í tvö ár. Þá hafa Árborg, Hveragerði og Reykjanesbær lýst áhuga á samstarfi við Strætó bs. þannig að svipuð þjónusta verði veitt þessum sveitarfélögum og Akranesi.“

Mér er spurn, og vildi gjarnan heyra svar við því frá hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna mega þessir aðilar, sem kaupa og reka almenningsvagna, ekki njóta slíkrar lækkunar á virðisaukaskatti? Fólkið sem nýtir sér slíkar samgöngur er oft ekki með háar tekjur fyrir utan það að með því yrði komið á stýringu þar sem hvatt yrði til að nota einkabílinn minna og nota fremur almenningssamgöngur, sem væri líka pólitísk stefnubreyting.

Í hinni ágætu greinargerð með tillögu okkar um að endurgreiðsla virðisaukaskatts nái líka til almenningsvagna segir að þetta sé ekki svo há upphæð, að þarna sé kannski um 60–70 millj. kr. að ræða.

Ég ítreka að ég vil fá að heyra hjá hæstv. fjármálaráðherra hvers vegna ekki var stuðlað að jafnræði að þessu leyti varðandi endurgreiðslu virðisaukaskatts til almenningssamgangna. Hvers eiga almenningssamgöngur að gjalda? Er hæstv. ráðherra á móti almenningssamgöngum? Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að verið sé að refsa almenningssamgöngum, þeim sem reka almenningsvagna, samanborið við aðila, t.d. eigendur hópferðabifreiða. Ég er ekki að setja út á að þeim sé veittur afsláttur af virðisaukaskatti en þarna hefur ríkið tæki til að létta undir og lýsa pólitískum vilja sínum til almenningssamgangna.

Inn í málið fléttast einnig umhverfissjónarmið. Að vísu er ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins ekki talin sú umhverfissinnaðasta og heldur á hinn veginn. Það er varla hægt að hugsa sér ríkisstjórn sem gengið hefur harðar og grimmar gagnvart öllum meginreglum umhverfismála heldur en ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Í greinargerð okkar með þessu máli segir einmitt, með leyfi forseta:

„Loftmengun, svifryk og sót af völdum samgangna er helsta umhverfisvandamálið á höfuðborgarsvæðinu enda byggjast samgöngur nær allar á notkun innflutts jarðefnaeldsneytis. Jafnframt því að styðja við þróun vistvænna orkugjafa í samgöngum er nauðsynlegt að auka hlut almenningssamgangna stórlega til að draga úr loftmengun. Fyrsta skrefið er að tryggja að almenningssamgöngur sitji a.m.k. við sama borð og hópferðaakstur við innkaup á nýjum farartækjum til fólksflutninga.“

Fyrir mér er þetta ekki smámál, herra forseti. Fyrir mér er þetta stórmál, bæði peningalegt gagnvart þeim sem reka almenningssamgöngur í landinu og einnig stórpólitískt mál. Við vitum að almenningssamgöngur eru mun vistvænni, þetta er hluti af því að byggja upp grunnþjónustukerfi fyrir íbúana. Mér er spurn: Er þessari ríkisstjórn illa við almenningssamgöngur? Það er ekki hægt að lesa annað út úr þessu máli en að ríkisstjórninni sé illa við almenningssamgöngur með því að þeim er refsað, séu aðstæður þeirra bornar saman við aðstöðu eigenda hópferðabifreiða. Ég hvet til þess að nefndin sem fær þetta frumvarp til skoðunar skoði hlut almenningsvagna í því máli sem hér er til umræðu.

Herra forseti. Ég ætla að minnast á ýmis önnur atriði varðandi þetta frumvarp. Það er gott, svo langt sem það nær, að lækka matarverð. En þetta er bara svo lítill hluti af verðmyndun matvæla. Ég hefði viljað sjá að svokölluð matarnefnd fyrrverandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, sem hann setti á stofn og þetta frumvarp er að hluta til afsprengi af, hefði fengið víðtækara verksvið og gera úttekt á því hvernig mætti í raun lækka matarverð í landinu. En þá voru nefndarmenn og jafnvel þáverandi forsætisráðherra sjálfur, Halldór Ásgrímsson, svo samansúrraðir um að þetta snerti bara landbúnað og sérstaklega landbúnaðarvörur sem væru framleiddar innan lands. Störf nefndarinnar snerust því að meginhluta, a.m.k. þegar tillögurnar birtust, um það hvernig mætti helst þrengja að, kreista og kremja innlendan landbúnað. Ég bendi á flutningskostnaðinn, ekki síst flutningskostnaðinn út á land. Þar eru líka neytendur. Það eru ekki bara neytendur á höfuðborgarsvæðinu. Það eru líka neytendur um allt land og matvöruverð skiptir þá ekki síður máli en neytendur á þessu svæði.

Á sínum tíma var gerð heilmikil úttekt á flutningskostnaði í landinu. Við þekkjum, a.m.k. við sem búum úti á landi, hvað flutningskostnaðurinn er gríðarlegur og hefur mikil áhrif og skerðir samkeppnishæfni landsbyggðarinnar, atvinnurekstur og stórhækkar vöruverð. Ég er með skýrslu nefndar um flutningskostnað sem samgönguráðuneytið lét vinna og kom út í janúar 2003. Þar er rakið að flutningar, hvort sem eru á landi eða sjó, hafa færst á hendur að mestu leyti tveggja aðila. Því má heita að þar sé um einokun eða fákeppni að ræða. Þar er líka rakið mjög ítarlega hvernig flutningskostnaður hefur blásið út eins og blaðra. Talað er um að flutningskostnaður á nokkurra ára tímabili hafi hækkað um 100–200% á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar þrátt fyrir að menn teldu að orðið hefði mikil hagræðing við að þetta var komið á hendur eins eða tveggja aðila.

Niðurstöður þeirra sem tóku saman þessa skýrslu í janúar 2003 eru að það sé fullkomlega óeðlilegt hve mikið flutningskostnaður hefur hækkað og í öðru lagi að komin sé fákeppni eða einokun á þennan markað, sem geri það að verkum að menn geta nánast skammtað sér verð fyrir flutninginn. Eins þykja gjaldskrár ógagnsæjar og engin leið að sjá hvaða gjaldskrá er í gangi eða eftir hvaða reglum flutningskostnaðurinn er innheimtur. Þeir telja þetta mjög samkeppnishamlandi.

Það er líka merkilegt að þessi skýrsla kom út á kosningaári, í janúar 2003 og var til umfjöllunar í þinginu. Henni var eftir umfjöllun vísað til þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, og til Byggðastofnunar. Þetta varð eitt af kosningamálum Framsóknarflokksins, þ.e. lækkun flutningskostnaðar. Að kosningum loknum gerist ekki nokkur skapaður hlutur og í umræðum á Alþingi 19. október 2005 var flutningskostnaðurinn til umræðu. Þá var ráðherra spurð hvers vegna hafi ekki verið tekið á flutningskostnaði til milli landsbyggðarinnar og Reykjavíkur og þá segir í ræðu hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Málið var svo á ný til umfjöllunar í ríkisstjórn 9. júlí 2004 og það varð að samkomulagi milli iðnaðarráðherra, samgönguráðherra og fjármálaráðherra að það yrði tekið til nánari umfjöllunar embættismanna þessara ráðuneyta. Til þess að gera langa sögu stutta þá hefur ekki náðst samstaða um framgang málsins milli þessara þriggja ráðuneyta eins og ég upplýsti ríkisstjórn um á fundi í lok ágúst síðastliðinn og þannig stendur málið.“

Þrátt fyrir alla umræðuna á þingi, þrátt fyrir yfirlýsingar um að taka á flutningskostnaðinum sem hefði verið nær að leggja fyrir þessa nefnd líka því að flutningskostnaðurinn hefur gríðarleg áhrif á vöruverð úti á landi, þá hefur ekkert gerst. En þetta var eitt aðalkosningamálið. Ég man eftir því á fundum á Vestfjörðum að þá riðu frambjóðendur Framsóknarflokksins um héruð, á vordögum 2003, og töluðu um þá miklu baráttu sem þeir ætluðu að leggja í fyrir lækkun flutningskostnaðar. Hver var svo niðurstaðan? Hérna í Bæjarins besta 14. júní stendur, með leyfi forseta:

„Það er 25% dýrara að flytja eitt tonn til Ísafjarðar en Hornafjarðar þrátt fyrir að vegalengdin sé sú sama. Flutningskostnaður er hæstur til og frá Ísafirði samkvæmt niðurstöðu skýrslu sem unnin var fyrir sjávarútvegsklasa Vestfjarða.

Þuríður Gísladóttir viðskiptafræðingur gerði skýrsluna að beiðni sjávarútvegsklasa Vestfjarða og er skýrslan hluti af lokaritgerð hennar við Viðskiptaháskólann á Bifröst.“

Hér eru fleiri fréttir frá Vestfjörðum sem sýna að ekki hefur orðið nein breyting heldur er flutningskostnaðurinn eitt stærsta vandamálið þar, bæði hvað varðar vöruverð en líka út af samkeppnishæfni framleiðslu frá Vestfjörðum. En það verður fróðlegt að vita hvort Framsóknarflokkurinn leggur aftur af stað með þetta sem eitt af sínum stærstu kosningaloforðum, að lækka flutningskostnað. Ég tel að þetta sé eitt af hinum brýnu málum að taka á til að jafna vöruverð í landinu og jafna samkeppnisaðstöðu fólks, bæði hvað varðar vöruverð og framleiðslu, þ.e. samkeppnishæfni í atvinnurekstri. Þetta er eitt brýnasta málið og nefndin hefði líka átt að taka á þessu.