133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

ummæli formanns Samfylkingarinnar á fundi í Keflavík – förgun fugla í Húsdýragarðinum.

[10:36]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni fyrir að vekja athygli á merkri ræðu minni sem ég flutti á flokksstjórnarfundi flokksins í Keflavík og þá ræðu má m.a. finna á heimasíðu Samfylkingarinnar fyrir þá sem ekki höfðu tækifæri til að hlusta á hana sem ég hygg að séu allmargir í þessum sal. Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir það að taka upp þykkjuna fyrir þingmenn Samfylkingarinnar og vilja slá um þá skjaldborg í þingsal. Það er fallega gert af hv. þingmanni (Gripið fram í: Það veitir ekki af.) að mæta svona til leiks og vilja styðja okkar ágæta þingflokk.

Um ræðu þingmannsins hef ég í sjálfu sér að öðru leyti ekkert að segja. Hann veit auðvitað að þingflokkur Samfylkingarinnar er öflugur þingflokkur, til alls líklegur á næstu mánuðum og Framsóknarflokkurinn á hér verulega í vök að verjast, er að tapa miðjunni í íslenskum stjórnmálum vegna þess að þangað sækir Samfylkingin auðvitað aukið fylgi sitt og þess vegna kemur þingmaðurinn hingað upp í örvæntingarfullri tilraun til að kasta rýrð á Samfylkinguna og reyna að lyfta sjálfum sér. Ég held að það þurfi meira til og það væri kannski ráð fyrir Framsóknarflokkinn að vera svolítið heiðarlegur og einlægur og skoða sjálfan sig svolítið gagnrýnið og þá væri kannski einhver leið til að Framsóknarflokkurinn gæti orðið fyrir einhverjum viðsnúningi. En sjálfumgleði og andvaraleysi er ekki farsælt veganesti þegar flokkar eru komnir við pilsnermörk í fylgi og þurfa að sækja inn á markaðinn.