133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

ummæli formanns Samfylkingarinnar á fundi í Keflavík – förgun fugla í Húsdýragarðinum.

[10:41]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég hef svo sem fullan skilning á því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vilji fjalla um förgun fugla í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum en þannig vill til, frú forseti, að ég hef áhuga á því að ræða um förgun annarra fugla hér í þjóðfélaginu, nefnilega þeirra sem sitja í þingflokki Samfylkingarinnar vegna þess að ég gat ekki betur séð á forsíðu Morgunblaðsins á sunnudaginn en að hv. þm. og formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefði í ræðu sinni í Keflavík slegið heilan þingflokk af og lýst því yfir að kjósendur þyrðu ekki að treysta þingflokknum. Þetta eru auðvitað kaldar kveðjur til þeirra þingmanna sem sitja í þingflokki Samfylkingarinnar, blaut tuska í andlitið á þeim og söguleg yfirlýsing frá formanni stjórnmálaflokks sem vill láta taka sig alvarlega og ekki björgulegt upphaf á kosningabaráttu flokksins.

Maður veltir því fyrir sér hvað sé eiginlega hægt að gera í stöðunni. Hvað á að gera í málinu? Við sem erum lýðræðissinnar gerum okkur grein fyrir mikilvægi stjórnarandstöðu, sérstaklega stærsta stjórnarandstöðuflokksins hér á Alþingi fyrir lýðræðislega umræðu. En svo kemur formaður stærsta stjórnmálaflokksins og lýsir því yfir að þingflokkurinn sé uppfullur af handónýtum þingmönnum sem enginn þorir að treysta [Hlátrasköll í þingsal.] og kemur síðan upp í ræðustól Alþingis á þriðjudegi og heldur því fram að þingflokkurinn sé öflugur. Hún hélt ræðuna á laugardegi. Ég veit ekki hvort maður á að sitja eða standa eða hlæja eða gráta. Staðan í Samfylkingunni er orðin þannig að maður veit ekki hvað snýr upp og hvað snýr niður.

Frú forseti. Ég hef lokið máli mínu en verð þó að segja að lokum að ég hef miklar áhyggjur af stöðu Samfylkingarinnar, stöðu þingflokks hennar.