133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

ummæli formanns Samfylkingarinnar á fundi í Keflavík – förgun fugla í Húsdýragarðinum.

[10:50]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fer fram á að ég fái tíma frá því að hlátrasköllum lýkur (Gripið fram í.) til að mæla það sem ég vil segja. (Gripið fram í.)

(Forseti (SP): Hv. þingmaður hefur sama tíma og aðrir hér en það er ekki hægt að breyta klukkunni þó að hlátrasköll dynji í salnum.)

Hæstv. forseti. Hér er mikil íþrótt að nota orðhengilshátt af ýmsu tagi og við það hafa menn sannarlega skemmt sér núna þegar þeir hafa rætt um ræðu formanns Samfylkingarinnar frá því á laugardaginn. Ég hafði efasemdir þegar ég hlustaði á þessa ræðu að það væri skynsamlegt að setja þetta svona fram. En ég hef eiginlega skipt um skoðun. [Hlátrasköll í þingsal.] Ég er eiginlega að skipta um skoðun vegna þess að hún dregur athygli að því sem skiptir máli og það sem skiptir máli er að í kosningunum í vor mun það ráða úrslitum um það hvort ríkisstjórnin falli að menn hafi traust á þingflokki Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) og það er til umræðu hér (Gripið fram í.) og það er ekki það sem formaður Samfylkingarinnar sagði að hún treysti ekki þingflokknum. (Gripið fram í: Nú?) (Gripið fram í.) Nei, þið skuluð þá bara lesa ræðuna, hv. þingmenn, (Gripið fram í.) og skemmta ykkur við orðhengilsháttinn þegar þið eruð búnir að því. Þetta skiptir máli. Ég held að þeir sem fylla þá flokka sem hafa 8% um þessar mundir í skoðanakönnunum ættu ekki að ganga fram og tala um að aðrir séu rúnir trausti. (Gripið fram í.) Ég held að flokkur sem þrátt fyrir allt hefur aldrei farið niður fyrir 25% svona almennt í skoðanakönnunum á kjörtímabilinu geti bærilega við unað og hafi nú þótt bara ágætlega stór flokkur í gegnum tíðina (Gripið fram í: Er þetta ...?) á hinum pólitíska vettvangi.

Ég endurtek, hæstv. forseti, að það er þetta sem skiptir máli og það vita hv. stjórnarsinnar að það er traustið á þingflokki Samfylkingarinnar sem mun ráða úrslitum í vor.