133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:01]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007 við 3. umr., lokaumræðu þingsins við meðferð og afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2007. Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur gert grein fyrir framhaldsnefndaráliti okkar, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, í fjárlaganefnd en fulltrúar þeirra flokka standa sameiginlega að nefndaráliti og einnig að flutningi þeirra breytingartillagna sem við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Frjálslynda flokksins og Samfylkingar, leggjum megináherslu á í fjárlagaumræðunni.

Ég vil byrja á að vísa til eins fyrsta þingmálsins sem flutt var á þessu þingi, þ.e. tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála. Það var tillaga sem allir þingmenn þessara þriggja flokka, velferðarflokkanna, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, stóðu saman að í upphafi þings og markaði í raun þær áherslur, þær stefnur og þá forgangsröðun sem þessir flokkar vildu og vilja hafa og undirstrika í samfélaginu.

Á grundvelli þeirrar tillögu sem við fluttum þá, um framtíðarskipan lífeyrismála, flytjum við tillögu í samræmi við þá stefnu okkar nú við afgreiðslu fjárlaga. Í tillögu til þingsályktunar á þskj. 3, 3. máli á dagskrá þingsins, sem flutt var af þingmönnum þessara þriggja flokka, segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða lífeyriskafla laga um almannatryggingar. Endurskoðunin verði unnin í fullu samráði við samtök aldraðra og öryrkja. Skoðað verði samspil almannatrygginga og lífeyriskerfisins með það að markmiði að einfalda tryggingakerfið, draga úr skerðingaráhrifum tekna og auka möguleika lífeyrisþega til að bæta kjör sín. Þá verði komið á afkomutryggingu sem tryggi viðunandi lífeyri. Til undirbúnings afkomutryggingar verði þegar í stað gerð úttekt á framfærslukostnaði lífeyrisþega sem grunnlífeyrir og tekjutrygging byggist á. Eftirfarandi atriði verði m.a. lögð til grundvallar í nýrri framtíðarskipan lífeyrismála“ og síðan eru talin upp í tillögunni:

„1. Ný tekjutrygging aldraðra verði“ — miðað við verðlag eins og það var 1. október sl. — „85 þús. kr. og öryrkja 86 þús. kr.“ — á mánuði — „frá 1. janúar 2007 að viðbættum vísitölubreytingum sem orðið hafa. Frá sama tíma verði dregið úr skerðingaráhrifum tekna þannig að í stað þess að skattskyldar tekjur yfir frítekjumarki skerði tekjutryggingu um 45% þeirra tekna sem umfram eru, verði hlutfallið 35%.

2. Frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2007 og skerði ekki tekjutryggingu. Skoðað verði hvort nýta megi hluta þessa frítekjumarks fyrir tekjur úr lífeyrissjóði. Öryrkjar hafi val um þetta nýja frítekjumark eða eldri reglu eftir því hvort er þeim hagstæðara.“

Það er ein af meginstoðum í íslensku samfélagi, og reyndar í hvaða samfélagi sem er, að innbyggður hvati sé til þess að fólk leggi sitt af mörkum eins og það hefur aldur og þrek til. Þess vegna er mikilvægt að lífeyriskerfið sé byggt þannig upp að það virki ekki hamlandi á atvinnuþátttöku fólks. Því höfum við sett þetta sem eitt af grunnbaráttumálum í skipan lífeyrismála, að fólk sem er komið á lífeyri, hvort sem er ellilífeyri eða örorkulífeyri, geti stundað vinnu og haft atvinnutekjur upp að ákveðnu marki án þess að það skerði grunnlífeyri. Hið sama ætti reyndar einnig að gilda um greiðslur úr ýmsum lífeyrissjóðum sem greiða mjög lágar upphæðir, fólk á mjög lítinn rétt og fær lágar upphæðir, tökum t.d. Lífeyrissjóð bænda. Fólk sem hefur oft verið heimavinnandi eða ekki verið með launatekjur í gegnum ævina en greitt í lífeyrissjóði á yfirleitt mjög takmarkaðan rétt úr þeim lífeyrissjóðum. Tökum dæmi af húsfreyjum í sveitum sem hafa mjög lítinn lífeyrissjóð að ganga í, þá er mjög ósanngjarnt að þær lágu upphæðir verði kannski til þess að skerða annan grunnlífeyri sem viðkomandi fólk á rétt á. Allt þetta leggjum við áherslu á að verði tekið inn í fyrirhugaðri endurskoðun til að tryggja sem best lágmarksréttindi og kjör þessa fólks.

Við 2. umr. fluttum við tillögu um einmitt þessi atriði sem ég hef talið upp, um að tekjutrygging aldraðra yrði 85 þús. kr. frá 1. janúar 2007, verðbætt, og 86 þús. kr. hjá öryrkjum og einnig að frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega yrðu 75 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2007. Þær tillögur voru báðar felldar af ríkisstjórnarmeirihlutanum, af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum sem á hátíðastundum berja sér á brjóst og segjast ætla að berjast fyrir kjörum þessa fólks en svo þegar á reynir er raunin önnur.

Vissulega hefur orðið þrýstingur, bæði frá samtökum aldraðra og einnig frá þingmönnum og þingflokkum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins með tillöguflutningi hér. Það varð þó til þess að ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu að flýta gildistöku þess sem áður hafði verið ákveðið af þeirra hálfu, að frítekjur vegna atvinnutekna yrðu 300 þús. kr. á ári frá og með næstu áramótum en áttu annars að taka gildi árið 2009 og 2010. Ljóst er að ríkisstjórnarflokkarnir kunnu aðeins að skammast sín þótt bara að hluta sé í þessum efnum. Betur má ef duga skal.

Þess vegna flytjum við þessa tillögu við 3. umr. í örlítið breyttu formi til að gefa ríkisstjórnarflokkunum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, enn á ný tækifæri til að sýna hug sinn í verki, hvort þeir vilji greiða götu þess að við stígum enn stærri, betri og markvissari skref til að rétta kjör aldraðra og örorkulífeyrisþega. Við fluttum áður tillögu um 75 þús. kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna en hafi það verið of stór biti í háls ríkisstjórnarflokkanna flytjum við tillögu um 70 þús. kr. á mánuði, að fólk geti haft atvinnutekjur upp á 70 þús. kr. á mánuði án þess að það skerði grunnlífeyrisréttinn.

Einnig flytjum við, sem er kannski þá megintillaga okkar og ég mæli fyrir, tillögu um Framkvæmdasjóð aldraðra. Í umræðum í samfélaginu hefur komið fram á síðustu dögum að Framkvæmdasjóður aldraðra hefur verið hlunnfarinn á nokkrum undanförnum árum um samtals 5 milljarða kr., þ.e. Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður um ákveðið verkefni með ákveðinn tekjustofn, tekjurnar voru innheimtar en þeim var ekki skilað til verkefnanna. Ég legg því til að þeim 5 milljörðum verið skilað til Framkvæmdasjóðs aldraðra sem hann hefur verið svikinn um á undanförnum árum. Það er síðan Framkvæmdasjóðsins að ákveða hve hratt og hvernig þeim 5 milljörðum verði varið. Við gerum náttúrlega ráð fyrir að þeim verði varið til úrbóta í búsetu- og umönnunarmálum aldraðra.

Ég held að fátt hafi verið óréttlátar gert gagnvart þessum hópum, gagnvart öldruðum, en að skerða Framkvæmdasjóð aldraðra, taka frá honum fé, í rauninni hálfstela því. Framkvæmdasjóður aldraðra er með markaðan tekjustofn en fékk ekki féð. Við skulum aðeins rifja upp hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra. Samkvæmt lögum nr. 125/1999 er kveðið á um Framkvæmdasjóð aldraðra, með leyfi forseta:

„Framkvæmdasjóður aldraðra skal stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt.

Fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra skal varið til:

1. Byggingar þjónustumiðstöðva og dagvista, sbr. 2. og 3. tölul. 13. gr., og byggingar stofnana fyrir aldraða, sbr. 14. gr., en þó ekki til byggingar íbúða í eigu einstaklinga, félagasamtaka og sveitarfélaga.

2. Að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða, sbr. 2. og 3. tölul. 13. gr. og 14. gr., að frátöldum íbúðum í eigu einstaklinga, félagasamtaka og sveitarfélaga.

3. Viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila.

4. Reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum, sbr. 14. gr.

5. Annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.“

...

„Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skal gjaldið nema 6.075 kr.“ — þetta er miðað við árið 2004 — „á hvern gjaldanda og kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs.“

Þetta gjald hefur verið innheimt allar götur síðan lögin um sjóðinn voru sett en því hefur ekki verið skilað til sjóðsins, til þeirra verkefna sem lögin kveða á um. Samþykkt hafa verið sérlög á Alþingi hverju sinni síðan þá af þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem hafa heimilað þeim að skila ekki því fjármagni til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Í raun eru þetta svik við það fólk sem greiðir þetta fjármagn til Framkvæmdasjóðs aldraðra — það greiða allir, þetta er nefskattur, óháður tekjum, lagður á alla sem eru skattskyldir, eins og ég minntist á áðan. Þegar þessir peningar eru innheimtir af hálfu ríkisins héldum við að þarna væri tryggt að þessir peningar rynnu til Framkvæmdasjóðs aldraðra en svo er ekki, sjóðurinn hefur verið snuðaður um 5 milljarða kr. á þessu tímabili, frá 1999.

Það er ágætt að vitna til fréttaskýringar í Morgunblaðinu frá 27. nóvember 2006. Þar segir undir fyrirsögninni Ríkið skili fimm milljörðum, með leyfi forseta:

„Ríkisvaldið hefur frá árinu 2007 tekið samtals tæpa fimm milljarða króna úr framkvæmdasjóði aldraðra og nýtt til reksturs og viðhalds á hjúkrunarheimilum í stað nýbygginga. Þetta segir Reynir Ingibjartsson, formaður Aðstandendafélags aldraðra, AFA, en félagið stóð fyrir fjölmennum baráttufundi í Háskólabíói á laugardag. Að sögn Reynis eru lög um sjóðinn 25 ára gömul en samkvæmt þeim greiðir hver Íslendingur árlegan nefskatt sem nú nemur um sex þúsund krónum á mann. „Framkvæmdasjóðurinn heitir framkvæmdasjóður, ekki rekstrarsjóður og þess vegna eiga peningarnir úr honum að fara til nýrra bygginga. Þetta er forgangsskattur og átti að standa undir því að byggja hér hjúkrunar- og dvalarheimili,“ segir Reynir en sem kunnugt er bíða hundruð aldraðra eftir vist á slíkum heimilum.“

Fundurinn sem var gríðarlega fjölmennur og magnaður í Háskólabíói „samþykkti samhljóða áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar Íslands um að leggja stóraukið fjármagn til uppbyggingar hjúkrunarheimila á fjárlögum fyrir árið 2007. Biðlistum skuli eytt, heimaþjónusta stórefld og öldruðum ekki lengur boðið upp á að deila herbergi með öðru fólki, oft ókunnugu. Þá er þess krafist að ríkið skili milljörðunum fimm sem voru nýttir til reksturs og viðhalds í stað nýbygginga. „Hjúkrunarheimili eru rekin fyrir daggjöld sem ríkið greiðir en þegar þau hafa ekki dugað til hefur verið gengið í framkvæmdasjóðinn,“ segir Reynir.“

Í þessu viðtali eru þær kröfur sem bæði aldraðir og Aðstandendafélag aldraðra hafa lagt áherslu á raktar ítarlega, þ.e. að Framkvæmdasjóðurinn rynni óskertur til þeirra verkefna sem ætlað var í upphafi en ekki til annarra almennra rekstrarverkefna sem ríkið ber á annan hátt ábyrgð á. Þess vegna leggjum við til, herra forseti, að þessum 5 milljörðum verði skilað til Framkvæmdasjóðs aldraðra eins og sjálfsagt og eðlilegt er.

Þetta eru aðaltillögur okkar varðandi útgjöld. Við teljum að þeir hópar sem ég hef nefnt eigi að njóta sérstaks forgangs, ekki síst þegar menn guma af góðri stöðu ríkissjóðs. Hvort sem það stenst allt eða ekki þá eru þetta einmitt hóparnir, aldraðir og öryrkjar, sem nýta á svigrúmið til að aðstoða. Þess vegna leggjum við til, herra forseti, annars vegar að frítekjumark vegna atvinnutekna sem skerði ekki grunnlífeyrisréttindi, örorkulífeyrisréttindi, verði 70 þús. kr. á mánuði, og hins vegar að 5 milljarðar kr. komi aftur í Framkvæmdasjóð aldraðra eins og lög kveða á um en verði ekki stungið undan og settir í önnur almenn rekstrarverkefni á vegum ríkisins.

Víkjum aðeins að fjárlagafrumvarpinu. Það hefur verið leikur stjórnvalda, sem aldrei fyrr, að leggja fram frumvarp að hausti þar sem skorið hefur verið niður fjármagn til ýmissa verkefna stofnana, sérstaklega á velferðarsviðinu og menntasviði. Við munum eftir umræðunni í haust þegar frumvarpið var lagt fram. Þá höfðu verið skornar niður fjárveitingar til framhaldsskólanna um 300 millj. kr. Þó var þörfin reiknuð út samkvæmt reiknilíkani sem stjórnvöld sjálf höfðu búið til, sem skammtar í mörgum tilfellum algjört lágmarksfé til framhaldsskólanna. Samt þótti ástæða til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að skerða það framlag um 300 millj. kr. Menn vissu að það bitnaði á minni skólum, verknámsskólum og starfsnámsskólum. Stjórnarandstaðan tók mjög hart á þessu máli og kennarar, starfsmenn framhaldsskólanna vítt og breitt um landið, sendu ákall um að framhaldsskólarnir yrðu ekki skornir niður. Ég minnist bréfa frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, Menntaskólans á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki — þetta voru skólarnir sem harðast áttu að verða úti í niðurskurði ríkisstjórnarinnar, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Starfsmennirnir brugðust við og bentu á að þetta gæti ekki gengið upp, hvort menn ætluðu virkilega að skera niður nám hjá þessum skólum um allt land.

Lyktir urðu þær að eftir harðvítuga baráttu lét ríkisstjórnarmeirihlutinn undan. Það var reyndar sterkur áhugi á því líka innan allrar fjárlaganefndar að mótmæla þessari aðför framkvæmdarvaldsins að framhaldsskólunum. Engu að síður voru þar fulltrúar viðkomandi flokka í ríkisstjórn. Þá var fjárhagur framhaldsskólanna bættur um 250 millj. kr. þótt lágmarksfjárþörfin væri 300 millj. Áfram munum við standa frammi fyrir því á næsta ári, að óbreyttu, að beita eigi niðurskurði á þessa skóla, a.m.k. upp á þessar 50 millj. kr. og voru þeir þó ekki ofsælir fyrir, sérstaklega ekki verknámsskólarnir, starfsnámsskólar og minni skólar á landsbyggðinni. Svo koma sömu þingmenn, þingmenn þessara sömu ríkisstjórnarflokka, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, og hæla sér af því sérstaklega að tekist hafi að draga hluta af niðurskurði ríkisstjórnarflokkanna til baka með baráttu, m.a. stjórnarandstöðunnar á Alþingi, í staðinn fyrir að leggja fjármagnið strax til í frumvarpinu, eins og átti að gera.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson gumaði á sama hátt af að hækkun á fjárveitingum til Landspítala – háskólasjúkrahúss upp á 1 milljarð kr. Já, það er hægt að leika sér svona með hlutina, byrja á því að sparka fjárveitingunum út úr fjárlagafrumvarpinu sjálfu þegar það kemur frá ríkisstjórnarflokkunum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, skera fyrst niður og koma svo eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson og hæla sér af því að þessum milljarði hafi aftur verið bætt inn sem var skorinn niður í frumvarpinu. Öllum var ljóst að þær fjárveitingar sem voru ætlaðar til Landspítala – háskólasjúkrahúss voru allt of naumar. Þetta var það sama og gerðist í fyrra, því sem vantaði var bætt inn á fjáraukalögum. Svo halda menn að þeir sýni mikla góðmennsku með svona leik.

Ég get nefnt fleiri atriði, breytingartillögur við 2. og 3. umr. fjárlaga, þar aðeins er verið að leiðrétta það sem ríkisstjórnarflokkarnir höfðu áður sparkað úr fjárlögum. Þeim finnst síðan óskaplega góðmannlegt að taka aftur inn í fjárlög það sem þeir höfðu sparkað út mánuði áður.

Einn er þó sá málaflokkur, herra forseti, sem mér finnst standa einna alvarlegast út af. Það eru sjúkrahúsin á landsbyggðinni, t.d. sjúkrahúsið á Akranesi. Þar er vel rekið sjúkrahús sem búið var að gera samning við um sérstök verkefni, liðskiptaverkefni. Vegna rangs reiknigrunns fyrir heilbrigðisstofnanirnar vantar fjármuni í rekstur þess. Það er alveg sjálfsagt að bæta nauðsynlegu fjármagni inn í Landspítala – háskólasjúkrahús, eins og ég hef hér áður sagt, og einnig til sjúkrahússins á Akureyri en það réttlætir ekki að önnur sjúkrahús séu látin sitja á hakanum og fái ekki úrlausn sinna mála, bæði hvað varðar rekstrarkostnað og verkefni.

Ég vil nefna sérstaklega sjúkrahúsið á Akranesi vegna þess að það hefur fengið verðlaun fyrir góðan rekstur og fyrir að halda vel um fjármuni. En eins og oft áður er slíkum aðilum refsað, þegar ljóst er að ýmsir rekstrarrammar sem mótast af ákvörðunum ríkisstjórnar eða utanaðkomandi aðila skekkja rekstrargrunn, t.d. heilbrigðisstofnana, á að láta það bitna á þeim? Í rekstrargrunn sjúkrahússins á Akranesi, til að það geti haldið óbreyttri starfsemi á næsta ári, vantar eitthvað á milli 40 og 50 millj. kr. Þetta sjúkrahús er látið fara inn í árið 2007 án þess að komið sé til móts við það á nokkurn hátt. Þetta sjúkrahús nýtur mikillar velvildar íbúanna og samtök eins og Lionsklúbbar og félagasamtök á svæðinu hafa gefið þangað tæki til að styrkja stöðu þess og nú er verið að safna fyrir sneiðmyndatæki sem sjúkrahúsið fær á næstunni. Þegar við ræddum þetta í fjárlaganefnd með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins, hvort ekki væri gott að fá svona tæki, mátti helst skilja á þeim að það væri ekki svo gott því að það mundi bara auka rekstrarkostnaðinn. Af því spryttu fleiri verkefni sem mundu kosta rekstur, meðan sjúkrahúsið og íbúarnir töldu sig styrkja stöðu þjónustunnar á svæðinu. Fólkið þyrfti ekki að fara suður til að kaupa slíka greiningu, sjúkrahúsið gæti gert hana á sjúklingum sem væru þegar komnir á sjúkrahúsið. Þetta væri til hagræðingar og til að styrkja starfsemina á svæðinu en þó var helst að skilja að þetta þýddi bara aukin útgjöld og aukinn rekstrarvanda sem heilbrigðisráðuneytið væri ekki reiðubúið að mæta, að sú þjónusta ætti ekki að vera á þessum stað.

Þetta er svolítið öfugsnúið. Ég hef líka nefnt sjúkrahúsið á Hvammstanga sem var á sama hátt skorið niður í fyrra og hittiðfyrra og sá niðurskurður látinn ganga áfram fram á næsta ár, niðurskurður upp á 6 millj. kr. frá árinu 2005 gengur áfram óbættur fram á árið 2007. Hið sama má segja um sjúkrahúsið á Blönduósi, það var skorið niður um 12 millj. kr. árið 2005. Það var reyndar bætt að hluta árið 2005 en þessar 12 millj. kr. munu ganga óbættar á niðurskurðarárinu 2007. Þar var þó tekin í notkun fyrir nokkru síðan ný endurhæfingaraðstaða sem átti að bæta þjónustuna en auðvitað kostar bætt þjónusta pening. Þar þótti ríkisvaldinu ástæða til að skera niður.

Þetta er keðjuverkandi. Þegar starfsemin er skert eða þrengt að henni á einu sviði innan sjúkrastofnunar hefur það áhrif á öll önnur svið. Þannig er þjónustan kerfisbundið hrakin út af þessum sjúkrahúsum. Það hefur þær afleiðingar að fólkið sem býr á viðkomandi svæði býr við meira óöryggi, þarf að sækja meiri þjónustu langt að með kostnaði, fyrirhöfn og óþægindum. Auk þessa eru slíkar stofnanir mikilvægir vinnustaðir í sínum heimabyggðum og er einnig skylt að horfa til þess. Það þarf að vinna verkin og sinna þjónustunni hvort sem þau eru öll flutt burt úr héraðinu eða ekki. Því ekki frekar að styrkja þessar heilbrigðis- og sjúkrastofnanir úti um land í staðinn fyrir að kvelja þær stöðugt niður?

Hið sama gildir til dæmis um Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Þar ræður niðurskurður, kyrkingarstefna ferð.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson sagði í ræðu áðan að ekki hefðu komið fram tillögur frá stjórnarandstöðunni. Það er ekki rétt. Ég hef gert hér grein fyrir tillögum sem lúta að öldruðum og öryrkjum. En við afgreiðslu fjárlaganna í fjárlaganefnd mótmælti ég því að þessar sjúkrastofnanir væru skildar eftir í uppnámi með ónógt rekstrarfé og yrðu að óbreyttu að skera niður verkefni á næsta ári. Ég spurði og flutti um það tillögur í nefndinni að þessar stofnanir fengju viðbót í rekstur sinn á næsta ári sem þyrfti til að halda óbreyttri starfsemi. Meiri hlutinn varð ekki við þessum beiðnum. Hann felldi þær. Hvaða þýðingu hefur það að bera aftur hingað inn í þingið tillögur sem meiri hlutinn, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru búnir að fella í fjárlaganefnd? Ég mótmælti þessum vinnubrögðum meiri hlutans, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, í fjárlaganefnd og taldi að hjúkrunar- og sjúkrastofnanir úti á landi væru það síðasta sem menn ættu að ráðast á við hagræðingu og niðurskurð. Ég hef hér lista, frú forseti, yfir það að flestar þessar stofnanir draga líka á eftir sér óuppgerðan skuldahala frá fyrri árum. Það var ekki einu sinni svo að hann væri allur uppgerður fyrir árið.

Hérna gengur hv. þm. Halldór Blöndal. Ég er ekkert viss um að hv. þingmaður sé neitt hress yfir meðferð flokksmanna sinna á sjúkrahússtofnunum á landsbyggðinni. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur lengst af verið baráttumaður fyrir (Gripið fram í.) góðri stöðu og öruggri heilbrigðisþjónustu úti um land. En nú er þetta ekki það mál sem er efst á baugi hjá þessum ríkisstjórnarflokkum.

Frú forseti. Ég hef vikið að sjúkrahúsunum á landsbyggðinni sem fá ekki fjármagn til starfsemi sinnar. Ég hef nefnt Akranes, Patreksfjörð, Hvammstanga, Blönduós, Húsavík og Heilbrigðisstofnun Austurlands svo að nokkur dæmi séu tekin. Hið sama gildir um öldrunarheimilin sem eru víða úti á landi. Það munar nefnilega svo miklu þar hvort þrengt sé að rekstrinum. Þetta eru litlar stofnanir, mikilvægar í sínu samfélagi og eru því afar viðkvæmar fyrir því þegar rekstur þeirra er skertur. Þegar litið er á afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins gagnvart þessum málaflokki verð ég að segja, herra forseti, að heilbrigðisstofnanirnar á landsbyggðinni bera hér illilega skarðan hlut frá borði.

Annar málaflokkur sem mig langar til að taka hér fyrir, forseti, er tónlistarfræðslan. Ég gerði hana reyndar aðeins að umtalsefni í umræðu um fjáraukalögin. Það er svo að tónlistarnám er meðal annars hluti af framhaldsskólanámi. Við erum með tónlistarbrautir, tónlistaráfanga í framhaldsskólum og lengst af var þetta viðurkennt sem hluti náms sem ríkisvaldið bæri ábyrgð á. Hins vegar bar svo við árið 2005 að fjárstuðningur til tónlistarnáms í framhaldsskólum var felldur niður. Staðan er nú sú að allt þetta ár, árið 2006, hafa nemendur eða foreldrar þeirra orðið að bera allan kostnað vegna tónlistarnáms nemenda í framhaldsskólum landsins þar sem viðkomandi sveitarfélög gera það ekki. Þetta er nám á ábyrgð ríkisins eins og annað framhaldsskólanám. Þetta er mjög óréttlátt gagnvart fólki, ég tala nú ekki um fólki af landsbyggðinni sem verður að senda unga fólkið sitt frá sér í framhaldsskóla og greiða þar ærinn kostnað, dvalarkostnað og annan skólakostnað sem ekki þyrfti að gera ef skólinn væri í heimabyggð þeirra. Ofan á þetta bætist síðan þetta óréttlæti með tónlistarnámið.

Árið 2005 var síðasta árið þegar gert var sérstakt viðaukasamkomulag um að ríkið kæmi að greiðslu kostnaðar við tónlistarnám í framhaldsskólum. Mig minnir að það hafi þá verið svona 50 millj. kr., eitthvað svoleiðis. Þetta eru ekki háar upphæðir. En síðan árið 2006 hefur ekkert gerst í þessu máli. Þetta er bara fullkomlega óviðunandi. Þetta er hneisa, skömm og óréttlæti gagnvart því fólki sem hér á í hlut og líka gagnvart þessum námsgreinum. Hvers eiga námsgreinar í tónlist að gjalda, viðurkenndar af námskrá? En ríkið stendur ekki með sama hætti straum af kostnaði vegna þeirra og kostnaði við annað nám. Þegar fólk verður að senda börn sín í framhaldsskóla, hvort sem það er af byggðum Norðurlands til Akureyrar eða til Reykjavíkur þar sem möguleiki er á slíku tónlistarnámi þá lendir það á fólkinu sjálfu að greiða. Ég spyr nú bara hér af því að hv. formaður fjárlaganefndar er í salnum og heyrir mál mitt og honum er vafalaust kunnugt um að þetta er eitt þeirra mála sem við þingmenn fáum hvað flest bréf út af, þ.e. þessu margs konar óréttlæti varðandi tónlistarnámið. Hverju sætir það að ríkið skuli ekki axla ábyrgð sína, að meiri hluti Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á Alþingi skuli ekki axla ábyrgð sína varðandi tónlistarnámið? Enn er þetta látið vera eitthvert þrátefli á milli ríkis og sveitarfélaga um tónlistarkennsluna almennt. Það er jú líka stórmál en þó önnur hlið. Það er óumdeilt að tónlistarnám í framhaldsskólunum samkvæmt námskrá er hluti af lögboðinni námskrá framhaldsskóla og að ríkisvaldið eigi að greiða það. Hvers vegna er það ekki gert? Hvers vegna eru þessar 50–60 millj. kr., eða ég veit ekki hvað þarf til að koma til móts við tónlistarnámið, ekki á fjárlögunum? Þetta er því eitt atriðið enn sem er sniðgengið við fjárlagagerðina og, eins og ég sagði áðan, nokkuð sem bitnar aftur og aftur á fólki úti um hinar dreifðu byggðir landsins.

Frú forseti. Það ekki verður hjá því komist að tala um vegamálin. Nú þessa dagana sem aldrei fyrr er í umræðunni lögð gríðarleg áhersla á auknar og bættar vegaframkvæmdir. Það er alveg hárrétt áhersla. En hvernig hefur þetta verið á undanförnum árum? Jú, það var samþykkt metnaðarfull samgönguáætlun og vegáætlun árið 2003 til fjögurra ára og átti þá að gera alveg stórátak í samgöngumálum. Hver hefur niðurstaðan orðið? Jú, strax fyrsta árið var það skorið niður þannig að ef litið er til síðustu þriggja, fjögurra ára sem þessi vegáætlun hefur verið í gildi þá telst mér til að búið sé að skera hana niður um nærri 6,5 milljarða kr. Þetta eru efndirnar á síðustu árum í vegaframkvæmdum sem var búið að búa til væntingar fyrir, sem voru komnar inn á vegáætlun, hvort sem það voru vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, norðausturlandi, á Suðurlandi, innan Reykjavíkur, milli Reykjavíkur og út frá Reykjavík til nágrannabyggðanna. Allt þetta var inni á áætlun fyrir tæpum fjórum árum. Fólk hafði eðlilega væntingar um að staðið yrði við þessa áætlun. En hún hefur verið skorin niður, fyrsta árið um í kringum 1.700 millj. kr. og síðan næstu ár á eftir um 2 milljarða ár hvert þannig að samtals er niðurskurður búinn að vera á sjöunda milljarð kr. á þessu tæplega fjögurra ára tímabili. Þetta eru nú framkvæmdirnar og við sjáum núna árið 2006 minnstu framkvæmdir í vegamálum í mörg ár. Svo koma sömu aðilar hingað og tala um að gera þurfi stórátak í vegamálum. Þetta eru þeir ríkisstjórnarflokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. Ráðherrar þeirra fara nú um allar grundir og taka undir kröfu íbúanna um stórátak í vegamálum. En reyndin sýnir niðurskurð á síðustu árum um á sjöunda milljarð kr. Það eru efndirnar.

Eðlilega skapar svona vinnulag mikla spennu í samfélaginu. Vegaframkvæmdum sem fólk er búið að horfa til í mörg ár er frestað. Þær eru skornar niður. Þeim er frestað ár eftir ár og það skapar spennu og ósátt. Síðustu mánuði tel ég okkur upplifa meiri ósátt um vegaframkvæmdir en nokkru sinni fyrr vegna þessara svika, vegna þess að vegáætlun hefur verið svikin á undanförnum árum. Hér liggur líka fyrir frumvarp um að fresta því að nýta svokallaðan hluta af söluandvirði Símans sem menn montuðu sig af á sínum tíma þegar Síminn var seldur, við það óhappaverk sem var unnið í mikilli andstöðu við þjóðina. Síminn var seldur og þá átti að verja hluta af söluandvirðinu til vegabóta. Hvað er verið að gera núna? Jú, hér liggur fyrir frumvarp um að fresta að nýta þetta fjármagn í að minnsta kosti eitt ár, fresta á þriðja milljarði kr. sem var ætlað að taka af söluandvirði Símans til vegaframkvæmda en er nú lagt til að verði frestað. Og hver voru rök hæstv. forsætisráðherrans þegar hann mælti fyrir þessu frumvarpi fyrir líklega þremur dögum? Jú, rökin voru þau að það væri svo mikil þensla í samfélaginu og yrði á næsta ári að þess vegna yrði að fresta. Man ekki hæstv. forseti eftir því að hæstv. forsætisráðherra sagði einmitt þetta hér, að þessu þyrfti að fresta vegna þenslu? Jahá, hvernig var það í sumar þegar átti að grípa til sérstakra aðgerða til að slá á þenslu? Jú, þá var gripið til þess að fresta vegaframkvæmdum, reyndar aðallega á Vestfjörðum og Austfjörðum, upp á rúmlega 1 milljarð kr. Það var höfðinglegt. Gripið var til þess að fresta vegaframkvæmdum til að slá á ímyndaða þenslu sem var komin út af allt öðru. Var þessi aðgerð eitthvað í samræmi við það sem sagt er nú og er krafist þessa dagana um stórátak í vegamálum? Samtök verslunar og þjónustu ályktuðu að stórátaks í vegamálum væri brýn þörf. Við höfum nú hér undirskriftalista, bréf og áskoranir frá heilu landshlutunum, af Suðurlandi nýverið, um átak í vegamálum. Jú, jú og ráðherrarnir hlaupa út um allar koppagrundir og taka undir það eðlilega. Eðlilega, segi ég, því að í raun, í verki skera þeir niður vegaframkvæmdir.

Það er verið að skapa um þetta fullkomna ósátt. Hvers er þá gripið til? Þá er gripið til þess að segja: Við þurfum að taka vegaframkvæmdirnar í einkaframkvæmd. — Hefur það engin áhrif á þensluna ef það á að gera alla vegi í einkaframkvæmd?

Ég er hér með yfirlýsingu frá fjármálaráðherra sem ég sé ekki að sé komin inn í fjárlög. Hann segir í viðtali við Suðurlandsfréttir þann 8. nóvember að í raun ætti að taka ákvörðun um útboð á veginum, þ.e. tvöföldun þjóðvegarins á milli Selfoss og Reykjavíkur fyrir jól og það eigi að gera í einkaframkvæmd. (Gripið fram í: Sem er ódýrast.) Sem er nefnilega ekki ódýrast, það er hin mikla blekking Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eins og kemur fram í skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem gerði úttekt á hagkvæmni einkaframkvæmdar í vegamálum. Ég ætla að fara yfir þessa skýrslu á eftir, sem sýnir fram á að þetta er mikil blekking, einkaframkvæmdir í vegamálum eru miklu dýrari og óhagkvæmari en almennar framkvæmdir sem Vegagerðin stendur að. Og hvað með rökin fyrir því að það þurfi að fara í einkaframkvæmd, það muni ekki hafa áhrif á þensluna að vera í einkaframkvæmd?

Ég held að þetta sé ein versta blekking sem ráðherrar ríkisstjórnarflokkanna … (HBl: …Gunnar Birgisson um einkaframkvæmdir í vegagerð.) Gunnar Birgisson er nefnilega miklu skynsamari en margir aðrir sjálfstæðismenn, hann lagðist einmitt gegn einkaframkvæmdum í almannakerfinu, hv. þm. Halldór Blöndal.

Frú forseti. Ég ætla einmitt að koma að þessu með rök forsætisráðherra fyrir því að nauðsynlegt sé að skera niður vegaframkvæmdir vegna þenslunnar og að jafnframt sé einkaframkvæmd eina lausnin. Hér er skýrsla frá Ríkisendurskoðun sem kom út í júní 2006 sem lýtur að kostum og göllum einkaframkvæmda í vegamálum. Í inngangi skýrslunnar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun hefur að beiðni samgönguráðuneytisins lagt mat á gerð Hvalfjarðarganga, annars vegar miðað við þá leið sem farin var, þ.e. einkaframkvæmd, hins vegar miðað við að ríkið hefði kostað og rekið göngin með sama hætti og tíðkast um aðrar samgönguframkvæmdir. Ástæða beiðninnar eru fyrirætlanir um síðari áfanga Sundabrautar en til greina hefur komið að ráðast í hann sem einkaframkvæmd.“

Ríkisendurskoðun gerði þessa úttekt einnig vegna stöðugra umræðna um einkaframkvæmdir í vegakerfinu.

Ég vil leggja áherslu á að það er afar brýnt að ráðast í auknar vegaframkvæmdir og samgöngubætur. Þær samgöngubætur eiga að vera í opinberri forsjá, þjóðin á að eiga vegina. Það er engin framtíð fyrir okkur sem þjóð að ætla að fara að einkavæða þjóðvegi landsins og reka þá síðan sem eins konar fyrirtæki. Ég held að það sé það hættulegasta sem við gætum gert en er mikið talað um þessa dagana vegna svika ríkisstjórnarflokkanna í samgöngumálum. Ef ríkisstjórnarflokkarnir hefðu staðið við vegáætlunina á undanförnum þremur og fjórum árum þá væri ekki þessi ósátt, þá væri nú búið að koma mun meiru í verk í vegaframkvæmdum en raunin er. Nú þegar við stöndum frammi fyrir því að skera á niður vegaframkvæmdir á næsta ári um 3,5 milljarða kr., miðað við það fé sem ætlað var á vegáætlun að ráðstafa til vegaframkvæmda á síðastliðnum árum og á næsta ári en það er niðurskurður upp á 3,5 milljarða kr., þá á maður erfitt með að skilja orðræðu margra ráðherra þegar þeir segja að þeir skuli leysa þetta í einkaframkvæmd.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir einmitt um þessa einkaframkvæmd, með leyfi forseta:

„Einkaframkvæmd er talin geta verið hagkvæmur kostur fyrir ríkið við ákveðnar kringumstæður og er þar einkum horft til eftirtalinna atriða:

Í fyrsta lagi ef framkvæmd er háð verulegri áhættu sem einkaaðili er frekar tilbúinn að taka á sig. Almennt gildir samt að áhættan kemur fram í verði þjónustunnar sem hækkar eftir því sem áhættan er meiri.“

Ef við förum út í einkaframkvæmdir á vegum þá eru tekin hærri gjöld.

„Í öðru lagi ef einkaaðili býr yfir meiri færni en ríkið á því sviði sem einkaframkvæmdin er á. Í því felst t.d. að einkaaðili komi með nýjar og hagkvæmari lausnir en opinberir aðilar réðu yfir.

Í þriðja lagi ef einkaaðili getur náð meiri hagkvæmni við framkvæmdina …“ þ.e. nýtt tæki sín og búnað.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er síðan rakið að ekkert af þessu er til staðar í vegaframkvæmdum. Það er vitað að enginn hefur meiri tækni og þekkingu á vegaframkvæmdum en Vegagerðin í gegnum áralanga reynslu sína, það er því ekki verið að sækja aukna reynslu eða aukna hagkvæmni með því að einkavæða vegaframkvæmdir.

Enda segir áfram í skýrslunni:

„Einkaframkvæmd getur hins vegar verið óhagkvæmari kostur fyrir ríkið af eftirtöldum ástæðum:

Í fyrsta lagi er fjármagnskostnaður einkaaðila að jafnaði hærri en ríkisins. Kostnaður ríkisins við lántöku er minni vegna minni áhættu lánveitenda og eins gera opinberir aðilar oft lægri ávöxtunarkröfu til eigin fjár …

Í öðru lagi er fjárhagslegt bolmagn einkaaðila oft minna en ríkisins sem getur þýtt að ekki náist eins hagstæðir samningar við verktaka þar sem einkaaðilinn getur ekki boðið fram jafngóðar verktryggingar.

Í þriðja lagi kunna bindandi ákvæði í samningi um einkaframkvæmd að torvelda að hægt sé að bregðast fljótt við nýjum og breyttum aðstæðum.“

Ríkisendurskoðun leggst því eindregið gegn því eða varar við því að beitt sé einkaframkvæmd við vegagerð. Mun ódýrara og mun öruggara sé að Vegagerðin sjái um framkvæmdir.

Í skýrslunni er m.a. rakið að gerð var sérstök úttekt á Hvalfjarðargöngunum og Ríkisendurskoðun telur að gerð Hvalfjarðarganga hefði jafnvel orðið mun ódýrari ef ríkið hefði sjálft staðið að gerð ganganna. Það hefði getað fjármagnað göngin ódýrar, það hefði getað átt möguleika á ódýrari fjármögnun, ódýrari lánum til þess að fjármagna göngin og þau þannig orðið ódýrari. Þannig að meira að segja við gerð Hvalfjarðarganganna, sem margir hafa gumað af sem góðri reynslu í einkaframkvæmd, þá telur Ríkisendurskoðun það alls ekki endilega hafa verið svo. Og telur reyndar líka að vegna óhagstæðra lána sem tekin voru vegna Hvalfjarðarganganna sé nú örðugra að fella niður eða hætta gjaldtökunni miðað við þá ákvörðun að göngin borguðu sig upp. Ég tel reyndar að það sé löngu kominn tími til þess að gjöld í Hvalfjarðargöngin verði felld niður, þetta er orðinn hluti af hinu almenna samgöngukerfi landsmanna og á ekki að láta íbúa sem þurfa að nota þessi göng greiða sérstakan skatt umfram aðra svona mörgum árum eftir að framkvæmdum er lokið. Þetta er hluti af þjóðvegakerfi landsins sem allir eiga að hafa greiðan aðgang um án gjalds.

Í umræðum og niðurstöðum í umræddri skýrslu segir varðandi Hvalfjarðargöngin, með leyfi forseta:

„Hvalfjarðargöngin hafa stundum verið tekin sem dæmi um vel heppnaða einkaframkvæmd og eru þau jafnvel talin geta rutt veginn fyrir að ráðast með sama hætti í fleiri verkefni í samgöngumálum. Þó getur gerð og rekstur Hvalfjarðarganga varla talist hrein einkaframkvæmd í hefðbundnum skilningi þess orðs enda stóðu opinberir aðilar að baki hlutafélaginu Speli.“

Og síðan segir:

„Þá er vart hægt að staðhæfa með gildum rökum að kostnaður við Hvalfjarðargöng hefði orðið meiri þótt ríkið hefði sjálft staðið fyrir framkvæmdinni.“ Það er að segja í stað þess að fela hlutafélagi að annast um hana. „Þannig hefði hönnun ganganna sjálfsagt orðið mjög áþekk og sjálf gangagerðin verið boðin út og hagstæðasta tilboði tekið …“ — en ríkið hefði getað sótt ódýrara fjármagn.

Síðan þegar rökin fyrir því eru leidd áfram, hvort ráðist skuli í einkaframkvæmdir, þá mælir Ríkisendurskoðun gegn því, segir að ríkið eigi að hafa allar forsendur til þess að gera framkvæmdirnar ódýrari og öruggari en einkaaðilar. Rökin fyrir því að fara í einkaframkvæmd í vegamálum sé því röng. Hitt er svo annað mál að ef ríkið ætlar stöðugt að draga lappirnar og skera niður í vegaframkvæmdum, eins og það hefur gert á undanförnum árum þá kallar það á svona hörð viðbrögð eins og við upplifum þessa dagana. Kannski er það ætlun ríkisins að pína samfélagið til einkavæðingar á vegum landsins með því að halda þeim í slíkri úlfakreppu hvað varðar fjármagn.

Ég vil ítreka það í lok ræðu minnar um vegaframkvæmdir að rök hæstv. forsætisráðherra um að það yrði að fresta vegaframkvæmdum á næsta ári og skera niður opinbert fjármagn til vegaframkvæmda til þess að slá á þenslu eru honum ekki bjóðandi. Sú ákvörðun að fresta vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og Norðausturlandi í sumar til þess að slá á þenslu voru ríkisstjórnarflokkunum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum til skammar. Og nú á aftur að fara að bjóða upp á einkavæðingarumræðu og halda því fram að einkavæðing í vegakerfinu hafi ekki nein áhrif á þenslu í samfélaginu, bara ef ríkið standi fyrir henni. Hvers konar hugsunarháttur, hvers konar röksemdafærsla er hjá mönnum, hjá ráðherrum sem bera slíkt á borð?

Við eigum að gera stórátak í vegamálum, ekkert að vera að draga það, og ríkið á að sjá um það. Ríkið getur tekið lán á hagkvæmustu kjörum ef þörf er á til þess að ráðast í nauðsynlegar vegaframkvæmdir og það á að gera það en ekkert að vera að væflast undan með orðræðu um að einhverjir aðrir eigi að gera hluti sem það á að gera sjálft.

Herra forseti. Verður gert matarhlé nú?

(Forseti (BÁ): Forseti vill grennslast fyrir um hversu mikið hv. þingmaður á eftir af ræðu sinni.)

Ég á heilan kafla eftir sem ég gæti reyndar frestað til seinni ræðu. Ég held að ég ljúki hér fyrri ræðu minni, herra forseti, um vegaframkvæmdirnar og hvernig enn á ný, aftur á fjárlögum næsta árs er niðurskurður á lofuðu fjármagni til vegamála, upp á að mig minnir um 3,5 milljarða kr. Það sýnir í raun hvernig ríkisstjórnin hagar sér. Það er búið að fresta og skera niður vegaframkvæmdir um 6,5 milljarða á síðastliðnum rúmum þremur árum og síðan tala menn á hátíðastundum um stórátak í vegamálum. Ég held að það væri nær fyrir menn að tala minna og gera meira í vegamálum og láta vegáætlun standa og verja til þess myndarlegum fjárveitingum, eins og þörf er á.