133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:33]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum komin í 3. umr. fjárlaga fyrir árið 2007. Í morgun var gerð grein fyrir nefndaráliti minni hlutans í fjárlaganefnd og þeim tillögum sem minni hlutinn hefur flutt núna við lokaafgreiðslu fjárlaga ársins 2007.

Umræðan um fjárlögin og fjáraukalögin nú í haust hefur að mörgu leyti verið nokkuð sérstök. Hún hefur einkennst m.a. af því að við í stjórnarandstöðunni höfum verið sökuð um ábyrgðarleysi, sökuð um að hafa ekki flutt margar breytingartillögur eins og við höfum gert á undanförnum árum við hina ýmsu liði fjárlagagerðarinnar.

Því hefur meira að segja verið haldið fram, hæstv. forseti, og leyfi ég mér þá að vitna í andsvar hv. framsögumanns meiri hluta fjárlaganefndar, Birkis Jóns Jónssonar, þar sem hv. þingmaður sagði svo, með leyfi forseta:

„Ég kalla eftir því að stjórnarandstaðan skýri það út í þessari umræðu hvernig margar ríkisstofnanir geti búið við óbreyttar fjárheimildir …“ — Ég held að ég verði að endurtaka þetta, hæstv. forseti.

„Ég kalla eftir því að stjórnarandstaðan skýri það út í þessari umræðu hvernig margar ríkisstofnanir geti búið við óbreyttar fjárheimildir að teknu tilliti til þeirra tillagna sem við í meiri hlutanum höfum lagt fram.“ — Þ.e. ríkisstjórnarmeirihlutinn.

Hæstv. forseti. Við afgreiðslu fjárlaga á síðastliðnu hausti, þ.e. fyrir fjárlög þessa árs, 2006, lagði meiri hlutinn fram margar tillögur í mörgum liðum til að lagfæra ýmislegt sem okkur þótti á skorta í fjárlagagerðinni. Það voru samtals 42 tillögur, hæstv. forseti, sem stjórnarandstaðan lagði fram fyrir ári síðan til lagfæringar á fjárlögunum fyrir þetta ár.

Þær tillögur voru allar felldar, kolfelldar, hæstv. forseti. Ef mig brestur ekki minni, sem ég held að geri ekki, var sú tillögugerð af stjórnarliðum á síðastliðnu hausti kölluð ábyrgðarlaus. Ábyrgðarlausar tillögur. Núna hins vegar kallar hv. formaður fjárlaganefndar eftir því að stjórnarandstaðan komi og skýri út í umræðu um fjárlögin hvort þær ríkisstofnanir sem fjallað er um geti búið við óbreyttar fjárheimildir.

Það er nú svo, hæstv. forseti, að það hefur nánast verið skemmtiatriði ríkisstjórnarþingmanna í þessum þingsal á undanförnum árum, ef marka má þá umræðu sem hér hefur farið fram í haust um fjárlög og fjáraukalög, að fella hverja eina og einustu tillögu stjórnarandstöðunnar. Stjórnarandstaðan gerði skilmerkilega grein fyrir þeim á síðastliðnu hausti.

Síðan kemur formaður fjárlaganefndar í pontu og auglýsir sérstaklega eftir tillögum frá stjórnarandstöðunni til að lagfæra stöðu stofnana við afgreiðslu þessara fjárlaga, eins og kom fram í þeirri ræðu, hæstv. forseti, sem ég vitnaði til áðan, þar sem beinlínis var mælst til þess að stjórnarandstaðan kæmi með tillögur til að lagfæra stöðu einstakra stofnana. Þetta var formaður fjárlaganefndar sem mælti fyrir meirihlutaálitinu og sá til þess að fella hverja einustu tillögu af 42 tillögum stjórnarandstöðunnar á síðasta hausti.

Ríkisstjórnarmeirihlutinn kom síðan með tillögur í fjáraukalagafrumvarpi þessa árs til að lagfæra stöðu sömu stofnana og við lögðum til á síðastliðnu hausti að væru lagfærðar í fjárlögunum. Það sem var fyrirsjáanlegt við afgreiðsluna á síðastliðnu hausti varðandi ýmsar stofnanir, var kolfellt, af því að stjórnarandstaðan flutti þær tillögur. En síðan máttu náttúrlega þingmenn ríkisstjórnarinnar í fjárlaganefnd að gjöra svo vel og koma með sömu tillögur, nánast upp á sömu upphæðir. Nánast upp á sömu upphæðir, hæstv. forseti.

Tillögur upp á 250 milljónir fyrir framhaldsskólana til að lagfæra stöðu þeirra. Tillögur varðandi Háskólann á Akureyri o.s.frv. Þær tillögur sem voru kallaðar ábyrgðarlausar á síðasta hausti og allar kolfelldar hafa síðan gengið aftur í höndum ríkisstjórnarmeirihlutans við afgreiðslu fjáraukalaga. Og að hluta til munu þær ganga inn í fjárlög næsta árs, því það var ekki einu sinni gert í fjáraukalögunum að taka á þeim vanda sem þó var til staðar og menn sáu. Það er ekki hlutverk fjáraukalagagerðarinnar endilega að taka á því sem menn eiga að geta séð fyrir með nokkurri vissu, að tilteknar upphæðir og tillögur þurfi að vera í fjárlögum hvers árs.

Þess vegna er það svolítið skondið, hæstv. forseti, þegar maður vitnar til þeirra orða sem ég vitnaði til áðan, að hv. formaður fjárlaganefndar skuli nú á þessu hausti auglýsa sérstaklega eftir því að hann sakni tillagna frá stjórnarandstöðunni um að lagfæra ýmislegt sem vantar í fjárlögin fyrir næsta ár, árið 2007, að því er varðar ýmsar ríkisstofnanir, og ræði um hvernig þær geti ekki búið við óbreyttar fjárheimildir. Þetta er nú einhver hin furðulegasta uppákoma umræðunnar í haust, hæstv. forseti, sem ég man bara eftir lengi.

Það var hins vegar þannig, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan valdi það á þessu hausti, ekki af neinni tilviljun, heldur vegna þess að við vildum forgangsraða verkefnum og einnig vegna þess að við fórum yfir afgreiðslu mála af hendi meiri hlutans í hv. Alþingi, ríkisstjórnarmeirihlutans, um það hvernig tillögur okkar á undanförnum árum hefðu verið afgreiddar. Sú skoðun sýndi að allar tillögur okkar, margar um tiltölulega litlar lagfæringar en þó til þess að lagfæra fjárlögin, voru allar kolfelldar, eins og ég nefndi áðan.

Ég fór mjög skilmerkilega yfir þetta, hæstv. forseti, í umræðu um daginn þar sem ég fór nákvæmlega yfir það hvernig þessar 42 tillögur á síðastliðnu hausti voru allar kolfelldar af ríkisstjórnarflokkunum, þó sumar þeirra gengju svo aftur í fjáraukalögum næsta árs. Ekki var nú fyrirhyggjan meiri við vinnslu fjárlaganna en þetta. Síðan kemur hv. formaður nefndarinnar og auglýsir eftir sérstökum tillögum okkar.

Þær sérstöku tillögur sem stjórnarandstaðan kaus hins vegar að flytja nú við fjárlagagerðina sneru að einum málaflokki, sneru að því að bæta afkomu aldraðra og öryrkja og taka á þeim málum sem tengjast tekjutengingum hjá Tryggingastofnun, lagfæra það í áföngum og leggja til að sérstök úttekt verði gerð til að einfalda tryggingakerfið og draga úr skerðingaráhrifum tekna og auka þar af leiðandi möguleika lífeyrisþega til að bæta kjör sín.

Komið yrði á til framtíðar afkomutryggingu sem tryggi viðunandi lífeyri fólks. Þar með var stjórnarandstaðan að svara ákaflega merkilegri spurningu: Á velferðarþjóðfélag eins og Ísland að tryggja það að þeir sem hafa sér ekki annað til framfærslu en örorkubætur eða ellilífeyri eigi að geta komist af í þjóðfélaginu? Að fólk hafi mannsæmandi kjör ef menn eiga ekki annan rétt til tekna eða hafa ekki möguleika á að afla sér annarra tekna en þeirra sem oft hafa verið nefndar einu nafni, sameiginlegar lágmarksbætur frá Tryggingastofnun ríkisins?

Þessu svaraði stjórnarandstaðan sameiginlega með tillöguflutningi sínum í haust í sérstakri þingsályktunartillögu um nýja framtíðarskipan lífeyrismála. Við höfum svarað því játandi, allir stjórnarandstöðuflokkarnir, með tillöguflutningi okkar, að við viljum sjá framtíðina þannig þegar upp er staðið eftir breytingar á tryggingakerfinu og endurskoðun á tekjutryggingum og skerðingarreglum og öðru slíku, með samspili til skattkerfisins, að fólk geti komist af á rauntekjum sínum eftir skatta.

Því það er auðvitað þannig, hæstv. forseti, að ekki er nóg að setja krónutöluna upp í bótum frá Tryggingastofnun ef skattkerfið er síðan þannig að það tekur stóran hluta af þeim tekjum sem ætlaðar eru fólki til lágmarksframfærslu. En þannig hefur það einmitt þróast í tíð núverandi ríkisstjórnar sem hér hefur setið við völd undanfarinn áratug.

Það hefur þróast þannig, hæstv. forseti, að fólk borgar núna hlutfallslega lægri skatta af tekjum sínum en það gerði fyrir nokkrum árum, sé tekið tillit til þróunar kaupgjalds og verðlags. Skattleysismörk hafa ekki tekið mið af því að fólki sé ætlað að komast af á lágmarksbótum.

Hinar svokölluðu samsettu lágmarksbætur Tryggingastofnunar eru ekki skattlausar. Þær voru að kröfu ASÍ hækkaðar á síðastliðnu sumri um 15 þús. kr. fyrir þá innan við 400 lífeyrisþega sem ekkert annað hafa sér til framfærslu en lágmarksbætur. Skattleysismörkin hafa ekki fylgt þróuninni. Þar af leiðandi borgar fólk tekjuskatt af lágmarkstekjum. Fram á þetta hefur verið sýnt af mörgum aðilum í þjóðfélaginu.

Eldri borgarar hafa með dæmum sýnt fram á að skerðingarreglur Tryggingastofnunar skera tekjurnar niður ef fólk reynir að bjarga sér. Síðan kemur tekjuskatturinn þar til viðbótar. Það sem fólk heldur eftir af tekjum úr lífeyrissjóði, hvort sem við erum að tala um hinn almenna lífeyrissjóð með samtryggingarheimildunum eða séreignarsparnaðinn. Tekjur úr lífeyrissjóðakerfinu valda skerðingum hjá Tryggingastofnun ríkisins og af þeim er síðan borgaður fullur skattur, svo fremi sem fólk hefur fullnýtt persónuafsláttinn sinn annars staðar, sem það hefur væntanlega gert. Hann er ekki hærri en svo því að skattleysismörkin hafa verið í kringum 78 þús. kr. en munu væntanlega fara í 90 þús. kr. eftir næstu áramót að kröfu ASÍ. Alþýðusamband Íslands knúði fram að ríkisstjórnin breytti skattastefnu sinni, þ.e. að lækka tekjuskattinn um 2% flatt um næstu áramót, í að færa 1% yfir í persónuafsláttinn. Það þýðir að persónuafslátturinn dugir eftir næstu áramót til að skattleysismörkin færist upp í rétt rúmar 90 þús. kr.

Það er einkennilegt, hæstv. forseti, að það skuli nánast alltaf þurfa að pína ríkisstjórnina til að stíga skref sem geta bætt stöðu aldraðra og öryrkja í þessu þjóðfélagi, eða lágtekjufólksins. ASÍ þurfti að þrýsta á aðgerðir. Menn hafa þurft að sækja rétt sinn fyrir dómstólum gagnvart ríkinu, t.d. í öryrkjamálinu. Eldri borgarar hafa lýst því yfir að þeir hafi nánast verið nauðugir látnir skrifa undir samkomulag sem gert var með eldri borgurum og ríkisstjórninni seinni hluta þessa hausts. (GÓJ: Ekki trúir þingmaðurinn því?) Það er þannig, hæstv. forseti, að ég hef mjög sjaldan reynt eldra fólk að lygum. Það er fátítt ef eldra fólk ber fyrir sig lygi. Þannig að ég verð að segja það, hæstv. forseti, vegna frammíkalls hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar að ég met það svo að eldri borgarar hafi sagt sannleikann þegar þeir sögðu frá því að þeir hefðu verið settir upp að vegg með að fá pakka í velferðarmálum varðandi hjúkrunarheimili og betri aðstoð fyrir eldri borgara, að þeir hefðu keypt það því verði að skrifa undir þessa yfirlýsingu. Þeir lýstu því þó jafnframt yfir, eins og allir muna, að baráttu þeirra væri ekki lokið og þeir mundu halda henni áfram. Þeir hafa gert það með sóma. Þeir hafa haldið því fram að þeir hafi kosið að tryggja þennan velferðarpakka, betri aðbúnað og hjúkrunarheimili.

Samtök eldri borgara hafa með sérstöku plaggi tekið undir nánast allt sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til varðandi stefnumótun sem við hefðum viljað að tækju gildi um næstu áramót, þ.e. að frítekjumark eldri borgara og öryrkja væri 75 þús. kr. og þar af leiðandi um 900 þús. kr. á ári en ekki 25 þús. kr., eða um 300 þús. kr. á ári eins og varð niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna. Þeir hafa tekið undir það að lækka eigi skerðingarregluna úr 45% niður í 35%. Þeir hafa tekið undir að hækka vasapeninga fólks á stofnunum. Þeir hafa tekið undir að taka tekjutengingu milli maka úr sambandi þegar um næstu áramót. Þeir hafa tekið undir það að til framtíðar þurfi að endurskoða alla tryggingalöggjöfina til einföldunar en það eigi ekki að verða til að tefja nauðsynlegar lagfæringar sem stjórnarandstaðan hefur lagt til í ýmsum málum er snúa að öldruðum og öryrkjum. Þeir hafa tekið undir að hækka tekjutryggingu aldraðra upp í 85 þús. og fyrir öryrkja upp í 86 þús. 1. janúar næstkomandi. Það var tillaga stjórnarandstöðunnar sem var felld við 2. umr. um fjárlögin. Samtök eldri borgara hafa skýra afstöðu til þess sem þeir telja til bóta og hvaða skref ætti að stíga í því.

Hæstv. forseti. Í nefndum þingsins, m.a. á fundum í efnahags- og viðskiptanefnd, hefur komið fram að við breytingar ríkisstjórnarinnar, í dæmi þar sem 10 þús. kr. koma til viðbótar við tekjur eldri borgara, er skerðingin í dag, miðað við skerðingu upp á 45% og skattgreiðslur, allt að 77% þeirrar upphæðar sem menn fá til viðbótar við lágmarkslífeyrinn. Eftir breytinguna sem ríkisstjórnin ætlar að ráðast í þá mun þetta hlutfall fara niður í 68% á árinu 2009. Skerðingin verður þrátt fyrir allt 68% fyrir hverjar 10 þús. kr. sem eldri borgari vinnur sér inn eða fær úr lífeyrissjóði. Það veldur skerðingum og með skattgreiðslum standa aðeins eftir 3.200 kr., 68% skerðing eftir allar lagfæringarnar.

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að skoðað verði hvað fólk þarf sér til framfærslu á Íslandi. Hvað þurfa eldri borgarar til framfærslu? Hvað þurfa hjón? Hvað þurfa öryrkjar o.s.frv.? Það þarf að gera könnun á því hvað þessir hópar þurfa sér til framfærslu að lágmarki. Í framhaldi af því yrði komið á viðunandi afkomutryggingu.

Þá vík ég aftur að því, hæstv. forseti, að það er ekki nóg að krónutalan fari upp. Það þarf að horfa á endastöðina í málinu, þ.e. rauntekjurnar eftir skerðingar og skatta. Hverjar eru þær? Allir í þjóðfélaginu eiga að komast af með sómasamlegum hætti. Það á ekki að vera þannig að verulegur hluti fólks, sem hefur ekkert annað en Tryggingastofnun til að treysta á, þurfi að leita til félagsþjónustu sveitarfélaga til að fá viðbót til að geta lifað af eða leita til vina og ættingja til að fá viðbótarfé svo það geti lifað af. Eiga menn að hafa nóg til að komast af? Velferðarþjóðfélag hlýtur að svara þeirri spurningu með jái. Stjórnarandstaðan hefur tekið afstöðu til þess og sagt: Ef við náum markmiðum okkar munum við vinna að því í markvissum áföngum á næsta kjörtímabili að tryggja að fólk komist af á lágmarksbótum. Þá er eðlilega átt við rauntekjur. Þetta er samspil uppbóta og greiðslna, skerðinga og skatta og síðan kemur lokaspurningin: Hvað hefur fólk í rauntekjur til að komast af? Á þá tölu verðum við að líta. Það er auðvitað framtíðarverkefnið að endurskoða reglur Tryggingastofnunar og reyna að einfalda þær eins og frekast er kostur.

Bótaflokkar Tryggingastofnunar hafa jafnan verið fjórir á undanförnum árum, þ.e. grunnlífeyrir um 24 þús. kr., tekjutrygging um 45 þús. kr., tekjutryggingaraukinn um 23 þús. kr., heimilisuppbótin 18.800 kr. og í sumar var bætt við fimmta flokknum, uppbót sem ASÍ knúði fram, þ.e. viðbótargreiðslu sem væntanlega fellur um næstu áramót inn í það sem verður ný tekjutrygging. Um næstu áramót einfaldast tryggingakerfið nokkuð. Það er til bóta og verður samansett úr grunnlífeyrinum, gamla ellilífeyrinum, úr svokallaðri nýrri tekjutryggingu sem felur í sér tekjutenginguna, tekjutryggingaraukann og þá viðbótargreiðslu sem kom í sumar upp á 15.000 kr. Varðandi eldri borgara verður þetta a.m.k. einfaldara, þ.e. bótaflokkarnir eru færri. En skerðingarreglurnar eru eftir sem áður flóknar, tengjast bæði tekjum og upphæðum og eins búsetu fólks og búskaparháttum. Er það í sambúð? Er það gift o.s.frv.? Hvernig virka tekjur maka á milli hjóna? Þannig mætti lengi telja.

Það er margt sem fást þarf við, hæstv. forseti, ef við í stjórnarandstöðunni ætlum að ná fram þeirri breytingu að eldra fólk í þessu landi, öryrkjar og láglaunafólk, komist af á lágmarkstekjum. Til þess viljum við horfa. Við köllum þetta velferðarstefnu og velferðarpakka og höfum lagt það fram sameiginlega sem fyrsta mál á þessu þingi.

Til viðbótar því sem ég hef sagt vil ég taka það sérstaklega fram að ríkisstjórnin felldi tillögu okkar um 75 þús. kr. frítekjumark við 2. umr. fjárlaganna. Núna fá fulltrúa ríkisstjórnarinnar á Alþingi tækifæri á ný til að taka afstöðu til tillagna okkar. Við höfum lækkað upphæðina í 70 þús. kr. og enn á ný gefst ríkisstjórninni tækifæri til að bæta ráð sitt og laga stöðu eldri borgara að verulegu leyti varðandi frítekjumarkið.

Það er engin tilviljun að við skyldum tala um 75 þús. kr. í frítekjumark. Við gáfum okkur að fólk gæti a.m.k. verið í hálfu starfi, og þar væri ekki um hálaunastarf að ræða, án þess að bætur þess frá Tryggingastofnun yrðu skertar. Þess vegna settu menn þessa upphæð í 75 þús kr. Hún hefði vissulega getað verið einhver önnur, 80 þús. eða 85 þús. kr. Við höfum hins vegar valið að lækka hana niður í 70 þús. og berum fram tillögu um að það verði á fjárlögum og gert ráð fyrir því við 3. umr. fjárlaga. Menn fá annað tækifæri í ríkisstjórnarflokkunum til að bæta ráð sitt, hæstv. forseti.

Til viðbótar höfum við lagt fram tillögu um að inni í Framkvæmdasjóð aldraðra verði skilað þeim 5 milljörðum kr. sem þaðan hafa verið teknir frá árinu 1992 til 2007, þeir verði merktir úr ríkissjóði inn í sjóðinn og verði þar þannig að gera megi markvissar áætlanir um uppbyggingu á íbúðum fyrir aldraða, öryrkja og önnur þau búsetuúrræði sem nauðsynleg eru til að sátt náist um þau mál.

Ég minni á að á fjölmennum fundi í Háskólabíói nýverið lagði Aðstandendafélag aldraðra áherslu á þetta, að ná til baka þeim 5 milljörðum kr. inn í Framkvæmdasjóði aldraðra sem farið hefðu í rekstur á undanförnum árum en ekki verið varið til nýbygginga og endurbóta á hjúkrunar- og dvalarheimilum, sem er þó verkefni Framkvæmdasjóðs aldraðra.

Með því að þessir peningar færu af fjárlögum næsta árs inn í sjóðinn gætu menn búið til áætlanir um hvernig eigi að standa að þeim málum, sem Framkvæmdasjóði aldraðra er ætlað að vinna að, á næstu árum og gert um það skynsamlegar tillögur. Peningarnir væru til staðar. Menn þyrftu auðvitað ekki að framkvæma fyrir þá alla fyrsta árið en hægt væri að gera skynsamlegar tillögur um hvernig megi standa að áföngum í þá veru. Um þessa tillögu verða greidd atkvæði við 3. umr. fjárlaganna. Þá reynir á hvort ríkisstjórnarmeirihlutinn vill fara þá vegferð sem við leggjum til, að skila því fé til baka í Framkvæmdasjóð aldraðra svo gera megi skynsamlegar tillögur um hvernig að málunum eigi að standa.

Þegar atkvæði hafa verið greidd um þessa tillögu tel ég fullreynt, hæstv. forseti, gagnvart ríkisstjórninni hvort menn vilja gera breytingar og lagfæringar sem um munar eða hvort menn standa frammi fyrir því að nánast allar tillögur sem við höfum lagt til verði eina ferðina enn, sem eru þó ekki margar við þessa fjárlagagerð, felldar. Þær voru 42 á síðasta hausti og allar felldar með miklum ánægjuhrópum, að því að mér skildist við 2. umr. Sé ég nú að sumir gleðjast og rétta upp hendur, hæstv. forseti, í tilefni þess að þeir hafa sennilega verið að koma úr líkamsþjálfun. Það fer vel á að þingmenn haldi sér hraustum. En það færi líka vel á að þingmenn ríkisstjórnarinnar styddu tillögur um að tryggja velferð og eðlilegt líf fólks sem komið er á efri ár og hefur skilað okkur því þjóðfélagi sem við búum við í dag.

Hæstv. forseti. Þetta vildi ég gera að aðalumræðuefni. Ég tel það skipta mjög miklu máli að stefnumótun stjórnarandstöðunnar nái fram að ganga. Þess vegna eru þessar tillögur fluttar enn á ný. Enn á ný er stjórnarliðum gefið tækifæri til að taka jákvæða afstöðu til þeirra. Hins vegar verðum við að hryggja stjórnarliða með því að þetta voru tiltölulega mjög fáar tillögur. Það vantar sennilega 40 tillögur á að þær nái því sem við lögðum fram í fyrra. Þess vegna verður skemmtiatriðið við að fella þær ekki nálægt því hið sama og á síðasta hausti. Ég vænti hins vegar þess, af því að tillögurnar eru svona fáar, að menn geti tekið málefnalegri afstöðu til þeirra en gert hefur verið á undanförnum árum.

Hæstv. forseti. Ég hygg að nóg sé sagt um þennan þátt málsins í bili. Það er auðvitað tilefni til að ræða fleira við þessa umræðu og getur verið að ég geri það. Ég á kost á að flytja aðra ræðu. Ef umræðurnar þróast við 3. umr. fjárlaga eins og þær þróuðust við 2. umr. er mjög líklegt að maður eigi eftir að lenda aftur í stólnum og halda tölu yfir stjórnarliðum um hvernig staðið hefur verið að verkefnum á undanförnum árum.

Ég vænti þess hins vegar — vegna þess að ég hygg, hæstv. forseti, að þingmenn stjórnarliða vilji gera vel — að þeir hafi fengið nægan tíma frá afgreiðslunni við 2. umr. og geti mætt með bros á vör og sagt við eldri borgara og öryrkja: Við ætlum að fallast á að framtíð ykkar verði betri eftir næstu áramót en verið hefur. Við erum tilbúin að stíga það skref með stjórnarandstöðunni eftir að hafa athugað okkar gang. Ég vænti þess. En það eru auðvitað bara væntingar mínar. Niðurstaðan kemur í ljós í atkvæðagreiðslunni, hæstv. forseti.