133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:27]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni er Frjálslyndi flokkurinn orðinn einelti flokkurinn. Hv. þingmenn Frjálslynda flokksins elta hver annan á röndum og leggja hver annan í einelti. (SigurjÞ: Nei, nei.) Framkvæmdastjóri þingflokksins leggur framkvæmdastjóra flokksins í einelti, eða formann flokksins. Þessar fáu hræður sem enn eru í Frjálslynda flokknum leggja hver aðra í einelti og því miður er þessi eineltisumræða orðin svo áberandi hjá hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins að þeir eru farnir að bera hana inn í sali Alþingis. Þetta er sorglegt, hæstv. forseti, þegar við erum að ræða við 3. umr. frumvarp til fjárlaga næsta árs og hv. þingmaður beinir í andsvari sínu til mín fyrirspurnum um meint einelti forseta á hendur hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins. Þetta er algerlega furðulegt, hæstv. forseti.

Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forseti geti svarað því aftur jafn vel og forseti svaraði í gær að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins hafi ekki orðið fyrir neinu einelti hér. En því miður er paranojan orðin slík í herbúðum Frjálslynda flokksins að menn eru farnir að halda að þeir verði fyrir einelti vegna atbeina hæstv. forseta Alþingis. Ég hef skömm á þessum málflutningi, hæstv. forseti.