133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:31]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna nokkur atriði. Þau snúa að fjárlögunum við 3. umr. Ég hafði ætlað að taka til máls við 2. umr. en þá var orðið svo langt liðið á kvöld að ég ákvað að geyma þá ræðu til þeirrar 3. umr. sem nú stendur yfir.

Atriðin sem mig langar til að nefna snúa að öldruðum og öryrkjum og tillögum stjórnarandstöðunnar frá því við 2. umr. sem ríkisstjórnarmeirihlutinn felldi við þá afgreiðslu og síðan eru það nýjar tillögur stjórnarandstöðunnar við 3. umr. Ég vil gjarnan koma aðeins að fjárveitingu til Landspítalans og síðan að fötluðum og uppbyggingu á sambýlum fyrir þá. Um það ætlaði ég aðallega að tala við 2. umr. En ég hafði ekki tök á því vegna þess hvað umræðan dróst á langinn.

Eins og komið hefur fram í umræðunni ákvað stjórnarandstaðan að sameinast um fáar en mikilvægar tillögur við afgreiðslu þessara fjárlaga fyrir árið 2007 og lagði til breytingar sem snúa að bættum kjörum ellilífeyrisþega og öryrkja og voru þær í samræmi við þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar um breytta framtíðarskipan lífeyrismála. Þá lögðum við til við 2. umr. og erum reyndar að leggja þessar sömu breytingartillögur fram nú við afgreiðslu frumvarps heilbrigðisráðherra í framhaldi af samkomulagi, eins og þeir kalla það eða yfirlýsingu, aldraðra og ríkisstjórnarinnar frá því 19. júlí í sumar. En tillögurnar sem við lögðum fram við 2. umr. sneru að því að ný tekjutrygging, sem verður lögfest líklega nú fyrir áramótin og tekur gildi um áramót við breytta bótaflokka frá almannatryggingunum, verði hærri en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir, að hún verði fyrir aldraða 85 þús. kr. og fyrir öryrkjana 86 þús. kr. frá 1. janúar sem er allnokkru hærri upphæð en ríkisstjórnin leggur til.

Við lögðum sömuleiðis til og munum leggja til við afgreiðslu frumvarps heilbrigðisráðherra að skerðing á bótum vegna annarra tekna verði minni en ella. Hún er í dag 45%. Við leggjum til að hlutfallið verði 35% frá áramótum. Ríkisstjórnin gengur mun skemur, lækkar þó skerðingarhlutfallið aðeins, mun leggja til nokkra lækkun en þó ekki eins mikla og við.

Við lögðum líka til að frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega yrðu 75 þús. kr. á mánuði. Ekki gat ríkisstjórnarmeirihlutinn fallist á það. Samkvæmt tillögum sem líklega koma fram á næstu dögum frá meiri hlutanum í heilbrigðis- og trygginganefnd verður lagt til 25 þús. kr. frítekjumark og það sjá allir sem vilja að það er mjög lág upphæð. Aldraðir geta lítið unnið eða tekið þátt í atvinnulífinu fyrir þá upphæð á mánuði enda hefur verið gert grín að því í blöðum nú undanfarið hvað ríkisstjórnin leggur fram lága frítekjuupphæð þarna gagnvart skerðingunni á tekjutryggingunni.

Við lögðum einnig til að 75 þús. krónurnar giltu fyrir öryrkjana. Það kæmi mun betur út fyrir þá sem hafa lægstu tekjurnar en sú regla sem gildir nú. Það hefði komið þeim sem hafa úr minnstu að spila mun betur en sú regla sem gildir nú.

Við lögðum einnig fram að ráðstöfunarfé, þ.e. vasapeningar á stofnunum hækkuðu um 50% og það aftur í tímann frá 1. júlí 2006, og sömuleiðis að frítekjumark gagnvart tekjum þeirra sem dvelja á stofnunum verði hækkað úr 50 þús. í 75 þús. sambærilegt við það frítekjumark sem við lögðum til gagnvart atvinnutekjunum. Þessar tillögur okkar voru einnig felldar við 2. umr. En þess ber að geta að við teljum mjög mikilvægt að greiðslufyrirkomulagi á daggjaldastofnunum fyrir aldraða verði breytt þannig að það verði svipað og er fyrir fatlaða á sambýlum þannig að fólk missi ekki fjárhagslegt sjálfstæði sitt við það að lenda inni á hjúkrunarstofnun eða vera lengi inni á stofnun heldur haldi sínum tekjum og greiði síðan fyrir þá þjónustu sem það fær. Einnig þyrfti að vera mun meira val um hvaða þjónusta býðst fólki sem fer inn á hjúkrunarheimili.

Við lögðum einnig til fjárveitingar til þess að unnt væri að afnema að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna til atvinnu- og lífeyristekjur maka og að það gengi í gildi um áramótin. Nú höfum við verið að fjalla einmitt um þessar tillögur í heilbrigðis- og trygginganefnd undanfarna daga og í ljós kemur að það hvernig ríkisstjórnin ætlar að lögfesta þessar breytingar sem koma út úr nefnd forsætisráðherra undir stjórn Ásmundar Stefánssonar gerir það að verkum að enn fleiri gallar koma fram í kerfinu heldur en nokkurn tíma áður og að í rauninni er verið að gera kerfið mun flóknara en lagt var upp með. Markmiðið með öllum þessum breytingum sem nefndin komst að samkomulagi um, eða niðurstaða nefndarinnar varð um, var að einfalda kerfið. En það háttalag sem haft er á með gildistöku og hægt minnkandi tekjuskerðingu vegna tekna maka gerir það að verkum að kerfið verður mun flóknara. Það er furðulegt að ríkisstjórnin geti ekki fallist á það að minnsta kosti að minnka það flækjustig með því að samþykkja þessar tillögur frá okkur í minni hlutanum. Það var sem sagt lagt til við 2. umr. að fá fjármagn til þess að þessar breytingar gætu tekið gildi um áramótin. En við 2. umr. var það fellt.

Við lögðum einnig til að öryrkjar sem misst hafa starfsgetu snemma á ævinni og því ekki geta safnað sér lífeyri í lífeyrissjóðum en hafa fengið örorkuuppbót haldi henni eftir að þeir eru komnir á ellilífeyri. Sú fjárveitingartillaga var einnig felld. Það verður að segjast eins og er að eftir að hafa fylgst með þeirri afgreiðslu við 2. umr. þá sjá allir sem vilja sjá að þessi ríkisstjórn ber ekki hag aldraðra og öryrkja fyrir brjósti.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefndinni hafa lagt fram breytingartillögur við 3. umr. og framhaldsnefndarálit eftir að ríkisstjórnarmeirihlutinn felldi allar tillögurnar sem komu fram við 2. umr. og þar eru teknir fyrir tveir þættir sem snúa að öldruðum og öryrkjum. Þar er sem sagt lagt til að frítekjumarkið verði 70 þús. kr. Það er lækkað um 5 þús. kr. frá þeirri tillögu sem kom fram við 2. umr. Það er sem sagt lagt til að um áramótin verði frítekjumark gagnvart tekjutryggingunni hjá elli- og örorkulífeyrisþegunum 70 þús. kr. á mánuði. En ég minni á að stjórnarmeirihlutinn hefur lagt til þessar smánarlegu 25 þús. kr. sem komu fram — eru ekki í frumvarpinu reyndar — en komu fram hjá ráðherra í umræðu um þessi mál. En samkvæmt yfirlýsingunni við aldraða var gert ráð fyrir að þessar 25 þús. kr. kæmu ekki fyrr en eftir fjögur ár, það frítekjumark. Þetta er því allt mjög smánarlegt í þeim efnum frá ríkisstjórninni.

Hin tillagan frá minni hluta fjárlaganefndar, þ.e. fulltrúum Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Frjálslyndra er síðan um að flýta mjög uppbyggingu á hjúkrunarþjónustu, búsetu og umönnunarmálum aldraðra með því að skila til baka þeim fjármunum sem teknir hafa verið úr Framkvæmdasjóði aldraðra og hafa farið í rekstur eða annað, þ.e. að þeim verði skilað til uppbyggingar þangað til búið verður að leysa þann vanda sem fólk stendur frammi fyrir. Eins og menn vita þá bíða mörg hundruð aldraðir eftir að komast að á hjúkrunarheimilum eða eftir annarri þjónustu. Það vantar tilfinnanlega skammtímavistun og hvíldarinnlagnir eða hvíldarrými fyrir þá sem dveljast heima, þ.e. til að hvíla aðstandendur sem sinna sínum nánustu í heimahúsum. Bara í umræðunni um heilabilaða fyrr í haust kom fram að rúmum fyrir hvíldar- eða skammtímavistun fyrir heilabilaða fækkaði um helming nú á þessu ári. Það voru fjögur pláss en eru aðeins tvö í dag sem eru sérhæfð fyrir heilabilaða. Þau henta í rauninni ekki nema þeim sem eru hvað verst farnir af þessum sjúkdómi. Fyrir þá sem eru minna veikir og þá sem eru yngri hentar þessi skammtímavist alls ekki. Ég vil minna á að við verðum að fara að huga að því að taka við og fá þjónustu fyrir ört stækkandi hóp þeirra sem munu fá þennan sjúkdóm þar sem öldruðum fjölgar mjög í samfélagi okkar. En ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að fjölga hjúkrunarrýmum á næstu fjórum árum um 374 sem dugar alls ekki til til að leysa þennan vanda, alls ekki.

Ég vil líka minna á að um þúsund aldraðir á hjúkrunarheimilum í dag dvelja þar í fjölbýli, annaðhvort tveir eða jafnvel þrír saman í herbergi, mjög þröngt. Það er auðvitað ástand sem við getum ekki boðið fólki upp á sem er orðið veikt og þarf hjúkrunarvist. Þarna er því líka mikill vandi sem þarf leysa. Minni hluti fjárlaganefndar leggur til að 5 milljörðum verði skilað aftur í þessar framkvæmdir þannig að hægt verði að leysa þennan vanda.

Mig langar til að nefna, af því að ég er að ræða þetta atriði sérstaklega, að á stórum fundi sem Aðstandendafélag aldraðra hélt í Háskólabíói í lok nóvember lýsti séra Jóna Hrönn Bolladóttir, í mjög áhrifamiklu erindi, þeim vanda sem margir aldraðir standa frammi fyrir. Hún talaði m.a. um eigin aðstæður og föður sinn sem orðinn er mjög veikur. Hún lýsti því hvernig stór hópur aldraðra sem bíður eftir hjúkrunarþjónustu fær hana aldrei. Hún nefndi dæmi um að þegar röðin væri komin að fólki þá hentaði sú þjónusta því alls ekki. Þetta er vanvirðing við kynslóð sem er í dag farin að missa heilsuna og hefur skilað samfélaginu ævistarfi sínu. Þetta er alger lítilsvirðing við þetta fólk að standa svona að þjónustunni.

Við í stjórnarandstöðunni höfum lagt fram breytingartillögur við fjárlagagerðina að þessu sinni. Nú er að sjá hvort ríkisstjórnarmeirihlutinn er tilbúinn að styðja heldur lægra frítekjumark gagnvart atvinnutekjum hjá elli- og örorkulífeyrisþegum og skila síðan til baka þeim fjármunum sem teknir hafa verið af þeim markaða tekjustofni sem Framkvæmdasjóður aldraðra er og verið settir í annað en uppbyggingu. Því á að skila aftur þannig að hægt sé að eyða biðlistum. Menn hafa tækifæri til þess, þegar atkvæðagreiðslan fer fram um fjárlögin, að snúa við blaðinu og bæta ráð sitt. Gangi það ekki eftir hvet ég fólk, sem fylgist með afgreiðslu fjárlaga og hvernig menn skipta fjármunum sem við leggjum öll í sameiginlega sjóði og deilum út til þjónustu fyrir þá sem þurfa mest á henni að halda, til að kjósa ekki yfir sig fólk sem forgangsraðar á þann hátt, sem skilur út undan þá kynslóð sem skilað hefur dagsverki, ævistarfi sínu til samfélagsins. Margir aldraðir þurfa á hjúkrunarþjónustu að halda en margir hverjir fá hana aldrei, eins og Jóna Hrönn Bolladóttir prestur sagði frá í Háskólabíói á stórum fundi Aðstandendafélags aldraðra.

Tillögur okkar munu þannig koma til atkvæðagreiðslu og ég vil nefna að áður en þing fer heim fyrir jólin munu einnig koma aftur til atkvæða tillögur okkar sem snúa að bættum kjörum aldraðra, þegar frumvarp heilbrigðisráðherra kemur inn í þingið eftir nokkra daga

Virðulegi forseti. Næst langar mig aðeins að gera að umtalsefni uppbyggingu og þjónustu við fatlaða. Í samtali sem ég átti við formann Þroskahjálpar og fleiri fulltrúa hagsmunasamtaka fatlaðra var mér bent á að miðað við fjárlagafrumvarpið eins og það er nú muni biðlistar eftir þjónustu sem snýr að þroskaheftum og þeim sem eru fatlaðir lengjast vegna þess að ekki er gert ráð fyrir að fjölga muni í þeim hópi sem þarf þá þjónustu sem hingað til hefur verið byggð myndarlega upp fyrir fatlaða. Þetta á við um búsetu, stuðning, atvinnutækifæri, endurhæfingu o.s.frv.

Nýverið skilaði hæstv. félagsmálaráðherra glæsilegri skýrslu, vel unninni, um þjónustu við fatlaða. Ég held að hún hafi komið á netið í gær, fyrradag eða nú um helgina. Þar er mjög glæsilegt plagg en því miður virðist fjárlagahlutinn, þ.e. peningarnir sem þarf til að hægt sé að fylgja eftir öllum þeim fínu hugmyndum og tillögum sem fram koma í skýrslunni, ekki gera ráð fyrir úrbótum. Peningarnir fylgja ekki og því verður allt tal um stefnumótun, að það eigi að setja Ísland í fremstu röð eins og fjálglega hefur verið talað um og verið kynnt á blaðamannafundum og í umræðum um stefnumótunina um málefni fatlaðra, bara marklaust og innantómt hjal. Það er orðin tóm ef ekki fylgja fjármunir til að koma því í framkvæmd. Ég verð að segja að ég get tekið undir með fulltrúum þeirra hagsmunasamtaka sem hafa bent á þetta. Ég furða mig á því að ráðherrar með mikinn metnað sem hafa látið fara fram vandaða vinnu í málaflokknum skuli ekki fylgja henni betur eftir en svo að fjármunir til að koma henni í framkvæmd fylgi ekki þegar fjárlög eru afgreidd. Það er ekki beint trúverðugt að standa þannig að málum.

Ég gagnrýni harðlega að ekki skuli veittir fjármunir til að veita þjónustu þeim fötluðu sem bætast við og þurfa þjónustu með sambýlum, stuðningsúrræðum, dagþjónustu o.s.frv. Biðlistar munu lengjast. Það er ámælisvert þegar þannig er staðið að málum gagnvart fötluðum og þeim sem búa við þroskahömlun.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að nefna annað atriði við umræðuna, þ.e. Landspítala – háskólasjúkrahús. Ég tók eftir því að við 2. umr. kom fjárveiting upp á einn milljarð til Landspítalans enda var ljóst að fyrirsjáanlegur halli á þessu ári er 1 milljarður kr. Sömuleiðis stendur Landspítali – háskólasjúkrahús frammi fyrir frekari fjárhagsvanda þar sem uppsafnaður halli í lok síðasta árs, sem spítalinn er látinn dragnast með, hala sem safnar dráttarvöxtum, er tæpar 500 millj. kr. Fjárveitingin dugir því ekki til að veita óbreytta þjónustu áfram.

Við vitum hvers vegna þessi staða er komin upp hjá spítalanum. Það er að mestu leyti vegna óhagstæðrar gengisþróunar en stór hluti útgjalda spítalans er í erlendri mynt. Sömuleiðis er hallinn til kominn vega þenslu á vinnumarkaði og aukins launakostnaðar. En hann er ekki síst vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu spítalans, þ.e. þjónustu sem Landspítali – háskólasjúkrahús verður að sinna. Honum er ekki stætt á að vísa fólki annað því að spítalinn á að taka við öllum. Hann tekur við stórslysum, við þeim sem önnur sjúkrahús geta ekki sinnt. Í fjárlagafrumvarpinu, eins og það kom inn í þingið, var ekkert gert til að taka á þessum vanda. Aðeins var gert ráð fyrir að fjárveitingar til spítalans hækkuðu í samræmi við áætlaða verðlags- og launavísitölu en þess má geta að Landspítalinn hefur verið rekinn með óbreyttum raunfjárframlögum ríkisins frá 1999–2006. Þjónustan hefur aukist jafnt og þétt en samt sem áður gerði ríkisstjórnin ekki ráð fyrir að spítalinn lækkaði áætlaðan rekstrarkostnað sinn árið 2007.

Ég minni á að þegar slys eða alvarlegir sjúkdómar koma upp getur Landspítalinn ekki sagt: Afsakið, því miður. Við erum búnir með fjárveitinguna. Það er ekki í boði. Þeir verða að taka við öllum og er skylt að veita öllum sem þangað leita bestu mögulegu þjónustu. Þangað koma öll erfiðustu tilfellin, inn á Landspítala – háskólasjúkrahús. Ekki nóg með það heldur er Landspítali – háskólasjúkrahús einnig hið almenna sjúkrahús höfuðborgarsvæðisins þar sem íbúum hefur fjölgað um 6,8% á síðustu fimm árum og þeim sem eru yfir sjötugt hefur fjölgað um 11,3%. Þeim sem eru eldri en 80 ára hefur fjölgað um 25,2%. Auðvitað finnur spítalinn það á þjónustu sinni þegar öldruðum fjölgar svo mjög. Þess ber einnig að geta að erlendum ferðamönnum sem þurfa þjónustu hefur líka fjölgað mikið. Þeir koma inn á Landspítalann. Þessi fjölgun kemur fram í aukinni eftirspurn sem spítalinn verður að mæta.

Mig langar að nefna nokkur dæmi úr mjög fróðlegum bæklingi sem Landspítalinn sendi frá sér nú í haust sem heitir Starfsemisupplýsingar LSH. Þar telja þeir upp hversu mjög þjónustan á spítalanum hefur aukist. Ég ætla að nefna nokkur dæmi. Komum á dagdeild Landspítalans fjölgaði t.d. um hátt í 12.000 á árunum 2000–2005. Komum á göngudeildir fjölgaði um 54.500 á þessum tíma. Komum á slysa- og bráðadeildir fjölgaði um 9.000 á árabilinu 2000–2005. Kransæðavíkkunum fjölgaði um 226, hjartaþræðingum um rúmlega þúsund. Ég ætla að minna á að hver kransæðavíkkun kostar frá 770 þús. kr. til 1.330 þús. kr. og hver hjartaþræðing kostar á bilinu 150–375 þús. kr. Síðan koma til ný lyf, ný tækni og annað sem hefur í för með sér viðbótarkostnað. Þetta eru allt upplýsingar úr stórfróðlegum bæklingi, Starfsemisupplýsingum LSH. Þær sýna, svo ekki verður um villst, hvað þjónusta spítalans hefur aukist þrátt fyrir að fjármunir til spítalans hafi ekki hækkað í samræmi við það.

Mig langar að nefna dæmi, vegna þess að það hefur verið nokkuð í umræðunni undanfarið, að stjórnendur spítalans og læknar hans standa frammi fyrir því, aðallega stjórnendur þó, hvort taka eigi í notkun ný krabbameinslyf sem sannað hafa gagnsemi sína og breyta þá notkun annarra lyfja sem verið hafa í notkun fyrir þröngt skilgreinda hópa. En til að geta tekið upp þessi nýju krabbameinslyf sem gagnast ákveðnum hópi betur en þau lyf sem notast er við þá þarf spítalinn a.m.k. 350 millj. kr. til viðbótar. Maður veltir fyrir sér, þegar spítalanum hafa verið svo naumt skammtaðir fjármunir í þetta langan tíma, hvort stjórnvöld séu að leggja það til að forgangsraða á spítalanum eftir því hvaða sjúkdómum fólk er haldið.

Í þessum svokölluðu sólskinsfjárlögum var ekki gert ráð fyrir viðbótarpeningum til þessa stóra spítala, einnar af helstu heilbrigðisstofnunum okkar. Ég minni á að einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem hefur gert sig gildandi í heilbrigðismálum, lagði til að leysa vandann og spara með því að færa þjónustu út af spítalanum. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum að ekkert sýnir fram á að sú starfsemi sem hefur verið færð út af spítalanum hafi reynst hagkvæmari eða betri. Það er ekkert sem sýnir að það spari nokkuð og engar lausnir sjáanlegar.

Ég velti því fyrir mér hvaða skilaboð ríkisstjórnin er að senda stjórnendum spítalans og þeim 5.000 starfsmönnum sem þar starfa með því að gera ekki fjárveitingum til spítalans hærra undir höfði, þ.e. greiða ekki frekar til hans en raun ber vitni. Við vitum að starfsfólkið hefur lagt mjög hart að sér. Ég hitti daglega konur sem starfa á Landspítalanum og þær hafa sagt mér að vinnuumhverfið sé orðið mjög þrúgandi þar vegna stöðugs aðhalds í fjármálum og vinnuálags en eins og ég benti á áðan hafa fjárveitingar til spítalans aðeins hækkað í samræmi við áætlaða verðlags- og launavísitölu.

Einnig ber að hafa í huga að þegar spítalanum er haldið í spennitreyju hvað varðar fjármuni þá er erfitt að ætlast til þess að hægt sé að fjölga sífellt aðgerðum og fylgjast með nýjungum í læknisfræði fyrir sömu fjárframlög. Ég verð að segja að starfsfólk Landspítalans hefur unnið þrekvirki á liðnum árum en það er ekki hægt að ætlast til þess að þannig gangi það endalaust verði fjárframlög áfram skorin við nögl. Ég hef mjög miklar efasemdir um að milljarðurinn sem bættist við við 2. umr. dugi til. En auðvitað ber ríkisstjórnarmeirihlutinn ábyrgð á þeim fjárlögum sem hér er verið að afgreiða. Eins og ég sagði áðan höfum við í minni hlutanum, fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Frjálslyndra, ákveðið að leggja áherslu á fá mál en mikilvæg. Málefni Landspítalans eru auðvitað mikilvæg og ég bendi fulltrúum meiri hlutans í fjárlaganefnd á þessa þætti og vísa allri ábyrgð til þeirra varðandi fjárlögin.

Ég minni enn fremur á að frá okkur í stjórnarandstöðunni eru komnar tillögur við 3. umr. sem snúa að frítekjumarkinu gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum, 70 þúsund kr. á mánuði. Minna má það varla vera en það er hlægilegt að ætlast til að fólk geri sér að góðu þessar 25 þús. kr. sem ríkisstjórnin skammtar þeim og áttu að koma eftir fjögur ár. Menn geta ekki unnið mikið án þess að fara yfir 25 þús. kr. á mánuði. Síðan minni ég á tillögu um að skila til uppbyggingar á hjúkrunarþjónustu, búsetu og umönnunarmálum fyrir þá sem eru hjúkrunar þurfi, 5 milljörðum kr. úr framkvæmdasjóðnum sem hafa verið teknar í annað.

Mig langar, áður en ég lýk máli mínu, af því að ég hef talað mikið um aldraða að minna á að fjöldi yngra fólks er hjúkrunar þurfi. Því fólki hefur líka verið gert erfitt fyrir og margt hvert bíður eftir hjúkrunarplássi við hæfi. Það er erfiðara að sækja um hjúkrunarpláss fyrir þá sem eru undir 67 ára. Það er ekki sama ferlið sem þeir þurfa að ganga í gegnum og þeir sem eru orðnir ellilífeyrisþegar. Það er auðvitað óeðlilegt og á auðvitað að gilda það sama fyrir alla. Ef þú þarft á þjónustunni að halda þá áttu að geta fengið hana, sama á hvaða aldri þú ert. Langveik börn fá þjónustu og það þykir sjálfsagt. Foreldrarnir fá hvíldarinnlagnir en þegar fólk er komið yfir miðjan aldur, búið að missa heilsuna og er jafnvel heima, þá er ekki jafnsjálfsagt að aðstandendur þeirra fái skammtímavist fyrir sjúklinginn sem þeir annast. Það er ekki sami aðgangur að hjúkrunarvist fyrir þann sjúkling og fyrir börnin og þá sem eru orðnir 67 ára. Þetta er þáttur sem við verðum að taka á og breyta þannig að allir eigi greiðan aðgang að þeirri þjónustu í velferðarkerfinu sem þeir þurfa sannarlega á að halda.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns ætla ég ekki að hafa ræðu mína langa heldur aðeins taka á þessum fjórum þáttum sem ég hef farið lauslega yfir, þ.e. tillögur okkar í minni hlutanum, tillögurnar sem stjórnarmeirihlutinn felldi við 2. umr. Ég nefndi stöðuna í málefnum fatlaðra og þjónustu við þá, svo sem sambýli, dagþjónustu, stuðningsúrræði og annað. Biðlistar fyrir þessa þjónustu munu lengjast ef ekki verður breyting á fjárveitingum til málaflokksins. Auk þess nefndi ég stöðuna á Landspítalanum og það sem ég óttast að muni gerast verði engin breyting á hvað hann varðar.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og ætla ekki að hafa ræðu mína lengri en vonast til að stjórnarmeirihlutinn sjái að sér og samþykki breytingartillögur okkar úr stjórnarandstöðunni þegar þær koma til atkvæða við lokaafgreiðslu fjárlaga.