133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[23:14]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum komin undir lok 3. umr. um fjárlög fyrir komandi ár og ætla ég ekki að hafa langt mál um það efni. Talsmaður okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, hv. þm. Jón Bjarnason, hefur gert rækilega grein fyrir afstöðu okkar til fjárlaganna en í frumvarpinu og þeim þingmálum sem fram hafa komið í tengslum við það kristallast mismunandi pólitískar áherslur innan þingsins. Annars vegar er sú stefna sem þjóðin hefur fengið að kynnast á undanförnum árum, allar götur frá árinu 1995 þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gengu í eina sæng, og hins vegar þær áherslur sem koma frá stjórnarandstöðunni og birtust m.a. í sameiginlegri tillögugerð Frjálslynda flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að gera nú átak til að draga úr misskiptingunni í landinu.

Við vildum, og viljum, byrja á því að rétta kjör þeirra hópa sem lakast standa. Við beinum sjónum okkar til öryrkja, til þeirra hópa aldraðra sem búa við lökust kjörin. Í samræmi við þetta lögðum við fram ítarlegt þingmál í upphafi þings sem gengur í grófum dráttum út á að draga úr skerðingaráhrifum tekna og auka möguleika lífeyrisþega til að bæta kjör sín. Í þingmáli stjórnarandstöðunnar er gert ráð fyrir hækkunum á ýmsum grunngreiðslum til lífeyrisþega og öryrkja og má nefna að við viljum að ráðstöfunarfé við dvöl á stofnun hækki um 50% og fleira mætti telja til.

Ég segi: Við vildum, og viljum enn. Þessar tillögur stjórnarandstöðunnar hafa ekki náð fram að ganga í þinginu en við gerðum tillögur um breytingu á fjárlagafrumvarpinu og voru þær felldar við nafnakall eftir 2. umr. um fjárlögin. Ég hef áður gert grein fyrir þessum tillögum okkar, og margir þingmenn stjórnarandstöðunnar, og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þær að sinni.

Venju samkvæmt hefur þessi umræða um fjárlögin verið blanda af almennri efnahagsumræðu og umræðu um einstaka liði fjárlaganna. Frumvarpið kom til umsagnar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þar sem ég á sæti og sendi nefndin álit sitt til fjárlaganefndar áður en 2. umr. hófst. Álit efnahags- og viðskiptanefndar kom fram í þríþættu formi, frá stjórnarmeirihlutanum, frá Samfylkingu og svo frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði en að því áliti stóð ég. Áherslur mínar í umsögn til fjárlaganefndar lutu fyrst og fremst að forsendum fjárlaganna.

Hv. þm. Jón Bjarnason gerði grein fyrir því að þegar við stóðum hér fyrir ári var gert ráð fyrir því að við mundum búa við halla á þessu ári sem næmi um 110 milljörðum kr., viðskiptahalla þjóðarinnar. Hann verður að öllum líkindum 220 milljarðar, helmingi meiri en ráð hafði verið fyrir gert. Það segir sig sjálft að slík grundvallarbreyting hefur síðan áhrif inn í alla efnahagsstarfsemina og þar með á fjárlög ríkisins.

Við höfum reynt að benda á hið stóra samhengi hlutanna á meðan þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa að okkar mati haldið sig við yfirborðið. Þeir hafa sagt sem svo að hér hafi kaupmáttur farið vaxandi, hér hafi verið hagvöxtur en að sönnu hafi verðbólgan verið mikil á undangengnu ári. Verðbólgan nam um 7% á 12 mánuðum sem er mjög hátt og mun hærra en þekkst hefur á svo löngum tíma, frá árinu 1989, en þá fór verðbólgan í um 30%. Það var í undanfara þjóðarsáttarsamninganna svonefndu sem miðuðu fyrst og fremst að því að keyra verðbólguna niður. Þrátt fyrir þetta segir stjórnarmeirihlutinn að hér sé allt í lukkunnar velstandi og einblínir á þann árangur sem hefur náðst í því að ná skuldum ríkissjóðs niður. Það er rétt, þar hefur náðst ákveðinn árangur. Á meðan höfum við viljað skoða allt dæmið, horfa ekki einvörðungu til ríkissjóðs heldur einnig til stöðu sveitarfélaganna en hún hefur versnað hjá þeim sumum, reyndar er ekki hægt að alhæfa um sveitarfélögin í þeim efnum, auk þess sem við viljum horfa á þjóðarbúið í heild sinni, heimilin og fyrirtækin í landinu. Þegar það dæmi er skoðað er myndin ekki eins björt, enda hafa greiningarfyrirtæki sem starfa á alþjóðavísu, eins og greiningarfyrirtækið Fitch, ítrekað sent frá sér viðvaranir. Eftir skýrslu sem ég held að hafi komið fram í febrúar var það ítrekað nýlega að við værum skuldsettasta þjóð sem fyrirtækið væri yfirleitt með í athugun.

Þannig hljóta ábyrgir stjórnmálamenn og ábyrgir stjórnmálaflokkar að sjálfsögðu að horfa á málið, horfa á það í heild sinni á sama hátt og við mundum gera ef um væri að ræða bókhald okkar á heimilinu. Við mundum ekki stæra okkur af fínu bílunum sem við værum að kaupa og utanlandsferðum og sumarbústaðnum ef við fjármögnuðum ár eftir ár slíka neyslu með aukinni skuldsetningu. Sá er því miður veruleikinn með okkur og hefur verið á undanförnum árum. Það er mjög mikilvægt að horfa á þessi mál í heild sinni og að við förum að með fullri gát.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta að sinni. Þó get ég ekki horfið frá því án þess að fara aðeins út í þá umsögn sem ég sendi til fjárlaganefndar og sem áður segir snerist fyrst og fremst um forsendur fjárlaganna. Þá horfði ég á væntanlegar stóriðjuframkvæmdir og benti á að nú væri í bígerð undirbúningur að stækkun álversins í Straumsvík sem færi úr 200 þús. tonnum í 460 þús. tonn, þ.e. stækkun um 260 þús. tonn, en á teikniborðinu væri einnig álver í Helguvík upp á 250 þús. tonn og nýtt álver við Bakka á Húsavík upp á 250 þús. tonn.

Það var athyglisvert að fulltrúar greiningardeilda bankanna sem komu á okkar fund — reyndar komu einnig fulltrúar Seðlabankans — fulltrúar viðskiptabankanna, KB-banka, Landsbanka og Glitnis, rýndu að sjálfsögðu í þessar tölur þó að áherslur þeirra væru misákveðnar. Ég vil vísa af þessu tilefni í athugasemdir sem bárust frá KB-banka, reyndar í tengslum við ráðstefnu sem bankinn efndi til í byrjun októbermánaðar. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Stóriðjuframkvæmdirnar munu halda gengi krónunnar hærra en gert er ráð fyrir í gengisspá greiningardeildar án stóriðjuframkvæmda. Stóriðjuframkvæmdir munu verka sem mikill stuðningur við bak krónunnar. Gert er ráð fyrir að krónan muni byrja að styrkjast fljótlega á næsta ári vegna yfirlýsingar um álver á Reykjanesi,“ — og takið eftir þessu, áður en hafist er handa um framkvæmdir mun yfirlýsing um að hafist verði handa síðar hafa þessi áhrif.

Ég endurtek af því að ég lauk ekki við setninguna sem ég ætlaði að vitna í, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að krónan muni byrja að styrkjast fljótlega á næsta ári vegna yfirlýsingar um álver á Reykjanesi, í Straumsvík eða Helguvík, enda lítur út fyrir að til verði orka fyrir eitt 250 þúsund tonna álver á Reykjanesskaganum.“

Þarna er aftur ástæða til að horfa á samhengi hlutann. Ef þessar framkvæmdir verða til þess að styrkja krónuna hefur það afleiddar afleiðingar í för með sér. Erlendir fjárfestar hafa flutt peninga inn til Íslands til að hagnast á þeim mikla vaxtamun sem er hér á landi. Vaxtamunur er meiri en gerist víðast hvar í samanburðarlöndum okkar og þá eru fluttir inn peningar, þeir látnir standa hér á rentu og síðan er hagnaðurinn fluttur úr landi. Slíkir fjárfestar taka eina áhættu og hún er krónan, ef hún veikist getur peningurinn sem þeir hafa flutt til Íslands rýrnað sem því nemur.

Hér segir áfram í sömu skýrslu frá KB-banka sem ég vitnaði í, með leyfi forseta:

„Það er mikill misskilningur — sem oft hefur komið fram í opinberri umræðu — að erlend verðbréfaútgáfa í krónum sé eitthvert fyrirbæri sem sé ótengt stóriðjuframkvæmdunum. Þessi útgáfa stafar af háum vaxtamun við útlönd þar sem útlendingar hagnýta sér háa íslenska vexti. Vextir er aftur á móti háir vegna þenslu hér innan lands sem að einhverju leyti má rekja til framangreindra framkvæmda. Af þeim sökum má — a.m.k. að hluta til — líta á erlendu verðbréfaútgáfuna í íslenskum krónum sem afleiðingu af mjög hraðri uppbyggingu stóriðju hérlendis.“

Það er þetta sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt áherslu á. Skoðum málin í víðu samhengi.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir flutti hér ágæta ræðu í dag og ætla ég að víkja örfáum orðum að einum efnisþætti hennar síðar. Hún talaði um nauðsyn þess að við íhuguðum í alvöru að taka upp evruna, væntanlega með því að ganga í Evrópusambandið, því að ákveðið öryggi fælist í því að vera hluti af sama gjaldmiðli og aðrar þjóðir innan Evrópu. Ég tek alveg undir að vitaskuld fylgdi því stöðugleiki, en þá þarf að skoða ókostina við slíkt. Í efnahagskerfinu eru ákveðnar breytur sem geta rokkað til. Ein breytan er vextirnir, önnur er verðið á gjaldmiðlinum sem getur veikst eða styrkst eftir atvikum og þriðja breytan er atvinnustigið. Það getur farið upp og niður, og spurning á hvað við viljum leggja ríkasta áherslu, að halda hér stöðugleika í verðlagi eða stöðugleika í atvinnu. Um það hefur verið sátt á Íslandi að stefna að því að halda hér sem mestum stöðugleika í atvinnu.

Hæstv. forseti. Þetta voru atriði sem ég vildi nefna í hinu breiða samhengi. Ég hef við 2. umr. farið dýpra í þessi mál en í örstuttu máli vil ég staðnæmast við þætti sem hér voru nefndir og ég staðnæmist við ræðu hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur þar sem hún vék sérstaklega að Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi. Það er nokkuð sem hv. þm. Jón Bjarnason hefur einnig hamrað á, með tilliti til Landspítala – háskólasjúkrahúss og sjúkrastofnana á landinu í heild sinni. Þetta er umræðuefni sem ég er heldur ekki ókunnur sjálfur, hef vakið athygli á þeim vanda sem sjúkrahúsin hafa búið við en staðreyndin er sú að Landspítali – háskólasjúkrahús, svo að það dæmi sé tekið, hefur haft frá hinu opinbera, úr okkar sameiginlegu skatthirslum, sömu fjármuni að raungildi og hann hefur haft allar götur frá aldamótum.

Hvað er það sem hefur hins vegar breyst? Það sem hefur breyst er að álagið á þessa stofnun hefur stóraukist á þeim árum sem liðin eru. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir vitnaði í bækling sem kom út í lok október sl. um starfsemisupplýsingar — er það víst orðað — um starfsemi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og þar kemur m.a. fram að komum á dagdeildir sjúkrahússins fjölgaði um hátt í 12 þús. á árunum 2000–2005, komum á göngudeildir fjölgaði um 54.500, komum á slysa- og bráðadeildir um 9 þús., kransæðavíkkunum fjölgaði um 226 og hjartaþræðingum um rúmlega þúsund. Hver kransæðavíkkun kostar frá 770 þús. kr. til 1.130 þús., það kemur fram í skýrslunni, og hver hjartaþræðing frá 150–375 þús. kr. Þessi mikla aukning verður en sjúkrahúsið fær sömu fjármuni að raungildi.

Síðan hafa átt sér stað stórstígar og gleðilegar framfarir á ýmsum sviðum innan sjúkrahússins. Ég nefni t.d. nýrnalækningar sem eru hluti lækninga sem fram fór erlendis en er kominn hingað heim. Þar eru unnin mikil afrek sem að sjálfsögðu kosta þá einnig peninga. Greiðslur sem fóru fram í gegnum almannatryggingakerfið fara nú fram hjá sjúkrahúsinu og það setur auknar fjárhagslegar byrðar á sjúkrahúsið. Að sjálfsögðu. Síðan er allt skorið við nögl, neitað að hækka framlög til sjúkrahússins til að mæta þessari þörf og menn kóróna allt með því að tala um halla og óábyrga stjórn á þessu sjúkrahúsi eins og ríkisstjórnin hefur gert og fulltrúar hennar. Ég efast ekkert um að það er sitthvað sem má til betri vegar færa en þegar á heildina er litið er þetta mergurinn málsins. Hinir óábyrgu eru þeir stjórnmálamenn sem búa hallann til, ekki hinir sem eru að sinna sjúklingum, gera það prýðilega og sífellt betur og betur. Þetta er fráleitt orðalag úr fyrirtækjarekstri, að nota það um sjúkrahús eins og Landspítala – háskólasjúkrahús. Þetta var eitt atriði sem ég vildi nefna.

Annað sem ég staðnæmist við er það sem fram kom hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur þar sem hún vék að Fæðingarorlofssjóðnum og talaði um nauðsyn þess að skoða að nýju þær forsendur sem hann er rekinn á með það að leiðarljósi að bæta stöðu barnafólks. Undir þetta tek ég. Ég tel að við eigum að stefna að því að lengja fæðingarorlofið og við eigum að endurskoða þær ákvarðanir sem teknar voru á sínum tíma um að skerða greiðslur úr þessum sjóði en það var gert með því að lengja viðmiðunartímabilið þar sem reiknað er hvað hverjum og einum ber. Í stað þess að horfa til eins árs var tíminn lengdur um tvö ár og á verðbólgutímum er það svo að því lengra sem menn hafa tímabilið, því lengra sem menn horfa aftur í tímann, því lægri verður viðmiðunarupphæðin. Þetta hefur líka alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir aðra sjóði og nefni ég þar fjölskyldu- og styrktarsjóði opinberra starfsmanna sem hafa tekið sér það hlutverk að jafna muninn sem er á milli greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og kjara sem konur hjá hinu opinbera bjuggu við áður en lögunum var breytt. Þar var sú viðmiðun uppi að konum yrðu tryggð full laun fyrstu þrjá mánuði í fæðingarorlofi og viðmið við föst laun næstu þrjá mánuði þar á eftir. Eftir því sem greiðslurnar úr Fæðingarorlofssjóðnum eru lægri, þeim mun meiri verður þessi mismunur og er núna að koma þeim sjóði mjög í koll.

Að lokum, hæstv. forseti, langar mig til að vekja máls á því háttalagi sem við verðum núna eina ferðina enn vitni að í aðdraganda kosninga. Það er mjög óábyrg framkoma ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra til að reyna að kaupa sér vinsældir. Það er ekki hægt að nefna það neinu öðru nafni. Við erum með ríkisstjórn og búum við þau afarkjör að þurfa að sæta stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem eiga eftir að sitja við stjórnvölinn í rúma fimm mánuði. Það er ekki nóg með að þeir setji núna hin makalausu einkavæðingarlög, ráðstöfun Landssímapeninganna sem nær fram til 2012, fram á næstu kjörtímabil, heldur eru menn núna byrjaðir að lofa vegaframkvæmdum fram í tímann. Hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson lofar breikkun vega og einkaframkvæmd, lofar núna einhverjum fyrirtækjum að fá peninga frá skattborgaranum í framkvæmdir á næstu fjórum, fimm árum. Þetta á að vera í einkaframkvæmd. Á sama tíma fáum við skýrslur frá Ríkisendurskoðun sem sýna okkur fram á að þetta er dýrara, þetta er óskynsamleg lausn fyrir skattgreiðandann. Hún er dýrari. Engu að síður lofar hæstv. ráðherra fyrirtækjum í landinu að þau eigi að fá aðgang að skatthirslum almennings með þessum hætti. Þetta er fullkomlega óábyrg afstaða.

Framsóknarflokkurinn hefur sérhæft sig í því alltaf fyrir kosningar að fara hér um með skæri og klippa á borða, opna eina stofnun hér og stækka aðra þar. Sjálfstæðisflokkurinn gerir þetta líka og horfi ég þá fyrst og fremst til loforða í vegamálunum. Það eru allir sammála um að það eigi að bæta vegaframkvæmdir í landinu en við eigum að standa að verki á ábyrgan hátt. Þessar ákvarðanir á að taka eftir yfirvegaða og faglega umræðu í þinginu í samráði við okkar bestu sérfræðinga hjá Vegagerðinni. Ég vil minna á það þegar menn tala um hið opinbera og fyrirtækin og samspil þeirra á milli að á Íslandi er Vegagerðin framkvæmdaraðili aðeins að litlum hluta til. Það er leitað til fyrirtækja og það er framkvæmt á grundvelli útboða, aðskiljanlegar framkvæmdir. Það er fyrirkomulag sem hefur verið þróað en hitt er af allt öðrum toga, að fela fyrirtækjum framkvæmdina og lofa þeim hlutdeild í sköttum um ókominn tíma, oft áratugi fram í tímann. Það er allt annar handleggur. Þetta er eins og gamla nýlenduverslunin þegar hún var sem verst og einstaklingar eða fyrirtæki fengu landsvæði, heil lönd jafnvel, til að ráðskast með. Það er þetta sem verið er að gera, það er verið að fara inn á þessar brautir. Og ég minni á að það er ekki samstaða um þetta, ekki einu sinni innan Sjálfstæðisflokksins. Ég er búinn að lesa greinar eftir hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra Halldór Blöndal. Hann er þessu algerlega andvígur.

Hvað þykir Framsóknarflokknum um þetta? Er þetta samkvæmt ákvörðun í ríkisstjórn? Hefur hæstv. samgönguráðherra umboð ríkisstjórnarinnar til að tala á þennan hátt, bjóða upp á einkaframkvæmd í samgöngumálum á næstu árum? Er þetta rætt í ríkisstjórn? Ég held að við þurfum að fá upplýsingar um þetta áður en þinghlé hefst núna fyrir jólin.

Hæstv. forseti. Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að hafa langt mál við 3. umr. fjárlaga. Ég hef áður gert grein fyrir sjónarmiðum mínum við 1. og ekki síður 2. umr. fjárlaganna og vísa enn fremur í aðra þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa gert grein fyrir afstöðu okkar og þá að sjálfsögðu fyrst og fremst fulltrúa okkar í fjárlaganefnd, hv. þm. Jón Bjarnason.