133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:48]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég greiði atkvæði gegn þeirri breytingartillögu sem hér er sett fram. Hún snýst um að bæta einstaklingum í hóp þeirra listamanna sem njóta heiðurslauna.

Þetta hefur ekkert með þá einstaklinga að gera sem um ræðir eða þá sem á listunum eru heldur er það skoðun mín að það sé tímaskekkja að Alþingi veiti heiðurslaun með þessum hætti.

Þeir einstaklingar sem komnir eru á listann munu njóta heiðurslauna meðan þeir lifa en ég sé ekki rökin fyrir því að við tökum út eina stétt manna og veitum þeim heiðurslaun frá Alþingi, heiðurslaun sem menntamálanefnd ákvarðar, eftir samninga milli nefndarmanna, hverjir njóta eigi og hverjir ekki.

Við gætum alveg eins tekið aðrar stéttir eins og listasmiði sem reist hafa hús sem við lítum á sem menningararf og veitt þeim heiðurslaun. Þetta er tímaskekkja, frú forseti, og ég tel að kominn sé tími til að við sláum striki yfir þessa venju sem menn töldu kannski nauðsynlega fyrr á tímum.