133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:57]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er gerð lokatilraun til að ná fram ásættanlegu frítekjumarki sem skerði ekki greiðslur almannatrygginga, þ.e. 70 þús. kr. á mánuði eða 840 þús. kr. ár ári. Það er hrein lítilsvirðing við lífeyrisþega að ætla þeim aðeins 25 þús. kr. frítekjumark á mánuði, sem stjórnarflokkarnir voru knúnir til að flytja fram um þrjú ár við 2. umr. fjárlaga.

Svo lágt frítekjumark er ekki boðlegt, eða einungis fimmtungur af lágmarkslaunum í landinu. Nú hafa stjórnarliðar tækifæri til að snúa af braut skammsýni í þessu máli og tryggja lífeyrisþegum 70 þús. kr. frítekjumark á mánuði í stað þeirrar smánar sem bjóða á öldruðum upp á.

Ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, en að stjórnarliðar séu með óbragð í munninum þegar þeir greiða atkvæði gegn þessari tillögu og alveg örugglega slæma samvisku. Ég segi já.