133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:01]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Ég sé að hæstv. forseti hlakkar til að heyra þessa atkvæðaskýringu sérstaklega.

Virðulegi forseti. Við erum með þessum tillöguflutningi að gefa hv. stjórnarliðum annað tækifæri til að stórbæta kjör aldraðra og einnig öryrkja, gefa þeim þá tækifæri hér og nú til að standa við stóru orðin sem voru viðhöfð í nýliðnum prófkjörum af mörgum hv. þingmönnum sem sitja í þessum þingsal.

Við leggjum til að bæði ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar fái 70 þús. kr. frítekjumark á mánuði og ég hef þær væntingar til hv. stjórnarliða sem öllu lofuðu í prófkjörum að þeir komi með okkur í það að bæta kjör þessara hópa.

Hv. þm. Ásta Möller lofaði t.d. öryrkjum að hún skyldi taka þátt í að losa þá úr fátæktargildru og því skora ég hér og nú á hv. þingmann að taka þátt í því með okkur hér að losa öryrkja úr fátæktargildrum, og einnig eldri borgara, með því að hækka frítekjumark á tekjum þeirra.

Virðulegi forseti. Þetta þing hefur samþykkt íþyngjandi lagasetningu á þessa hópa. Við skuldum þeim leiðréttingu. Við skulum greiða þessu atkvæði. (Forseti hringir.) Ég segi já.