133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:06]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Formaður fjárlaganefndar sagði áðan að hér væri mikið velferðarfjárlagafrumvarp á leiðinni. Það er auðvitað ljóst að Framsóknarflokkurinn mun reyna að selja sig sem velferðarflokk í vor. Ég veit ekki alveg hvort Sjálfstæðisflokkurinn reynir það, það má vera, en hvaða velferð felst í því að gera fólki ekki kleift að bæta líf sitt og lífsgæði? Hvaða velferð felst í því að koma í veg fyrir að fólk sem m.a. hefur þurft að kljást við örorku vegna slysa eða annars, ungt fólk, geti ekki unnið sér inn tekjur til að bæta lífsgæði sín? Við hvaða kjör miðar þessi stjórn? Í hvaða sambandi er ríkisstjórn Íslands við kjör fólksins í landinu ef hún sér það ekki í hendi sér að það að flytja frítekjumarkið upp í 70 þús. bætir kjör þeirra hópa í landinu sem slakast standa?

Nei, (Forseti hringir.) þetta er nefnilega ekki velferðarríkisstjórn, frú forseti. Ég styð þessa tillögu og segi já.