133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við þessa atkvæðagreiðslu kristallast grundvallarágreiningur á milli ríkisstjórnarflokkanna annars vegar og stjórnarandstöðunnar hins vegar. Þingmenn stjórnarandstöðunnar lögðu fram breytingartillögur við fjárlög við 2. umr. um bætt kjör öryrkjum og lífeyrisþegum til handa. Þær tillögur stjórnarandstöðuþingmanna byggðu á sameiginlegri stefnumótun stjórnarandstöðunnar sem setur það í forgang að draga úr kjaramisrétti á Íslandi. Hér höfum við tekið undir með Öryrkjabandalagi Íslands og Landssambandi eldri borgara. Einn grundvallarþátturinn þar er að hækka frítekjumark þannig að fólk geti aflað tekna án þess að greiðslur almannatrygginga skerðist. Við vildum að þetta mark yrði 900 þús. kr. á ári. Þær tillögur voru felldar af stjórnarmeirihlutanum. Nú teygjum við okkur til samkomulags. Við leggjum til að þetta mark verði 840 þús. kr. á mánuði. Ríkisstjórnin og ráðherrar (Forseti hringir.) segja að of mikið sé í lagt til aldraðra og öryrkja á Íslandi. Við teljum svo ekki vera. (Forseti hringir.) Ég segi já.