133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:14]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er verið að leggja til ríflega fjárveitingu, 5 milljarða, til að leysa þann hjúkrunarvanda sem aldraðir og aðrir hjúkrunarsjúklingar standa frammi fyrir í dag. Þúsund aldraðir eru í herbergi með öðrum inni á hjúkrunarheimilum, jafnvel þrír saman. Allt að 600 manns bíða eftir að komast í hjúkrunarvist og tugir aldraðra eru áfram á Landspítalanum eftir að lækningu hefur verið lokið. Helmingur af mörkuðum tekjustofni í Framkvæmdasjóð aldraðra hefur ekki skilað sér til uppbyggingar eins og ætlast var til þegar hann var settur á laggirnar.

Hér ætlum við að leysa þann biðlistavanda sem við stöndum frammi fyrir og ég verð að segja að því miður sýnir atkvæðagreiðslutaflan það að ríkisstjórnin hefur ekki vilja til að leysa þann vanda þrátt fyrir yfirlýsingar gagnvart öldruðum, og hótanir í þeirra garð gagnvart lífeyrisþættinum eins og kom fram í máli aldraðra (Forseti hringir.) á fundi heilbrigðis- og trygginganefndar. Ég segi já við þessari tillögu.