133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta er í samræmi við þá stefnumörkun sem stjórnarandstöðuflokkarnir, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn, lögðu upp með í haust, að elli- og örorkulífeyrisþegar skuli nú njóta verulegs forgangs í ráðstöfun á fjármunum ríkisins. Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður sem sérstakur stuðningsaðili að byggingu elli- og hjúkrunarheimila. Nefskattur var lagður á fólk, alla skattskylda íbúa þessa lands, sem rann í Framkvæmdasjóð aldraðra. Fjármagnið hefur samt ekki skilað sér til þeirra verkefna sem sjóðnum eru ætluð. Hann skortir 5 milljarða. 5 milljarðar hafa verið teknir af þessu fé í annan almennan rekstur sem ríkissjóður ber ábyrgð á. Við leggjum til að staðið verði við það (Forseti hringir.) að Framkvæmdasjóður aldraðra fái þessa peninga, 5 milljarða kr. sem hafa safnast upp í skuld, (Forseti hringir.) til þeirra verkefna sem honum voru ætluð í upphafi.