133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:20]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Þetta frumvarp markast að sjálfsögðu að verulegu leyti af því mikla hagvaxtarskeiði sem við höfum lifað á síðustu árum. Í frumvarpinu eru þrjú stór meginmál sem lagður er grundvöllur að. Í fyrsta lagi er það síðasti áfanginn í mesta skattalækkunarferli síðari tíma sem hér hefur verið lagt upp með og felst í því að lækka tekjuskatt um 1% og hækka persónuafslátt um næstu áramót ásamt því að hækka barnabætur. Í öðru lagi er lagt upp með stærsta verkefni síðari ára til að bæta bæði kjör og aðstæður aldraðra. Jafnstórt átak hefur ekki verið lagt upp í áður á þessum vettvangi og því ætti hv. þingheimur að fagna. Í þriðja lagi er lagt upp með það stærsta átak til að lækka matvælaverð hér nokkru sinni (Forseti hringir.) með lækkun virðisaukaskatts.

Frú forseti. Á þessum forsendum og vegna þess að ég treysti mér til að bera ábyrgð á þessu frumvarpi, þó að stjórnarandstaðan treysti sér ekki til að bera ábyrgð á neinu sem hér fer fram, segi ég já.