133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:23]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta fjárlagafrumvarp sem kemur nú til lokaafgreiðslu, frumvarp hæstv. ríkisstjórnar, er vonandi og nokkuð örugglega hennar síðasta. Það ber nokkur merki þess að kosningar eru á næsta ári. Ríkisstjórnin reynir með ýmsum hætti að kaupa sér vinsældir og lægja óánægjuöldur sem risið hafa hátt í samfélaginu undanfarin ár.

Almennt launafólk hefur axlað auknar skattbyrðar í gegnum skert skattleysismörk á sama tíma og hátekjufólk og stóreignamenn hafa fengið skattalækkanir. Aldraðir og öryrkjar una illa við sinn hlut og mikilvægir málaflokkar á undirsviði velferðarþjónustu í heilbrigðis- og menntamálum eru sannanlega fjársveltir. Upp úr stendur þó hið alvarlega ójafnvægi í efnahagsmálum landsins, gríðarlegur viðskiptahalli, svimandi háir vextir og verðbólga langt yfir viðmiðunarmörkum. Gagnvart þessum alvarlegu málum gerir ríkisstjórnin ekki nokkurn skapaðan hlut. Hún hefur gefist upp og flýtur sofandi að feigðarósi með sín mál.