133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:24]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að lýsa vonbrigðum fyrir hönd okkar í þingflokki Frjálslynda flokksins með það að ríkisstjórnarmeirihlutinn skuli ekki hafa haft manndóm í sér til að fara að tillögu okkar um það að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft í þessu landi.

Það er ansi nöturlegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra lýsa því yfir að hér sé minni hluti sem ekki þori að taka ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Ég minni á það að í fyrra flutti minni hlutinn á Alþingi 42 breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. Þær voru allar felldar, allar voru þær felldar. Núna var flutt ein tillaga og hún var líka felld. Nú sitja þeir hér, hv. þingmenn, stjórnarliðar, í salnum og glotta. Verði þeim að góðu. Þeirra er skömmin, þeir sitja uppi með hana, en verði þeim að góðu. (Gripið fram í: Bara einelti.)