133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins.

170. mál
[13:40]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Virðulegi forseti. Við sem höfum kynnst starfsemi Greiningarstöðvarinnar þekkjum að þar er unnið mjög gott starf og í raun frábært starf.

Ég vil ítreka það sem kom fram áðan, að starfsemi Greiningarstöðvarinnar hefur styrkst mjög mikið með auknum fjárveitingum á síðustu þremur árum og verður efld frekar með fjárheimildum í fjárlögum ársins 2007. Árið 2003 voru stöðugildin 33 en verða 43 með fjárlögum næsta árs og gert er ráð fyrir frekari eflingu á árinu 2008, eins og ég nefndi áðan.

Síðan vil ég nefna að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur veitt eitt stöðugildi í tvö ár til starfseminnar sem er nýtt til sérstaks átaks gagnvart þeim sem lengst hafa beðið.

Vinnulagi á Greiningarstöðinni hefur verið breytt á þann veg að nú eru niðurstöður samstarfsaðila nýttar betur. Í hluta tilvika getur Greiningarstöðin verið leiðbeinandi strax og frumgreining hefur átt sér stað. Þannig er ýmislegt í gangi í þessu máli þótt auðvitað sé það ekki gott ef börn bíða eftir þjónustu. Ég tek undir það.

En af því sem ég hef sagt er ljóst að unnið er að þessum málum, að efla starfsemina á Greiningarstöðinni til að mæta þeirri þörf sem fyrir liggur. Ég veit það að þeir aðilar sem koma að þessu máli munu vinna að því eins og ég hef sagt, vinna að því að þjónustan nái betur utan um þau börn sem þurfa á þjónustunni að halda. Það hlýtur að vera okkar sameiginlega markmið. Ég geri ráð fyrir því að það muni nást eins og ég hef farið yfir.