133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

111. mál
[13:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Á þskj. 111 hef ég lagt fram fyrirspurn til samgönguráðherra um gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Ég lagði fram sömu fyrirspurn í desember 2003 hér á hinu háa Alþingi í tilefni af því að þá voru nýkomin út drög að frumskýrslu vinnuhóps Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar um þessi gatnamót.

Sá vinnuhópur lagði til í frumdrögum sínum þrjár meginlausnir á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Í fyrsta lagi var sagt að gatnamótin gætu verið í plani með fjögurra fasa umferðarljósum og akreinum fjölgað þannig að þrjár yrðu beint áfram og tvær fyrir hverja vinstri beygju.

Önnur meginlausnin sneri að tveggja hæða gatnamótum með Kringlumýrarbraut eða Miklubraut í fríu flæði og vinstri beygjustraumum á ljósum. Þriðja lausnin fjallaði um þriggja hæða gatnamót með bæði Miklubraut og Kringlumýrarbraut í fríu flæði og allir beygjustraumar yrðu efst á hringtorgi.

Það má kannski segja að með breytingum sem gerðar voru á gatnamótunum sumarið 2005 hafi verið farið eftir fyrstu meginlausninni eða a.m.k. í átt að henni. Afkastageta þeirra gatnamóta hefur þar með aukist nokkuð. En því hefur að vísu verið haldið fram að þá hafi flöskuhálsinn færst til og sé nú annars vegar á gatnamótun Lönguhlíðar og Miklubrautar og hins vegar á gatnamótum Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar.

Íbúasamtök á svæðinu, svokölluð íbúasamtök þriðja hverfis, hafa lagt til að Miklabraut verði að hluta lögð í yfirbyggðan stokk frá Grensásvegi og undir Kringlumýrarbraut og allt í gegnum hverfið að Snorrabraut, enda sé það mun vænni framkvæmd fyrir íbúa hverfisins. Því er við það að bæta að eftir því sem ég kemst næst er unnið að þeim málum og að þeirri lausn í borgarkerfinu.

Ég vek athygli á því að ég tel mjög mikilvægt að hugað verði að vilja íbúa í þessu sambandi en níu af hverjum tíu íbúum munu vera á móti mislægum gatnamótum á þessu svæði þannig að ég tel mjög brýnt að sátt náist við íbúa og aðra um framkvæmdina.

Þess vegna spyr ég hæstv. samgönguráðherra: Hvað líður gerð mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík?