133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

111. mál
[14:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Það vakti athygli mína að hæstv. samgönguráðherra sagði að hönnun hefði verið hætt 2004 að beiðni Reykjavíkurborgar og sömuleiðis að umhverfismati hefði þá verið hætt en að það mat sé nú hafið að nýju. Ég legg áherslu á að hæstv. samgönguráðherra hafi náið samstarf um þessi málefni við borgaryfirvöld og haldi áfram hönnun þessara mannvirkja þannig að henni verði lokið árið 2008 eins og hæstv. ráðherra gat um.

Ég tel líka mikilvægt að halda því til haga og finnst að það eigi að vera einn hluti af nýju umhverfismati að Miklabraut verði lögð í stokk samhliða gerð mislægra gatnamóta á Kringlumýrarbraut og Miklubraut. Það bíða stór verkefni í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef áður tekið hér upp mál sem varða lagningu Sundabrautar, sömuleiðis mál er varðar umferðaröryggi á Kjalarnesi. Það er því ljóst að það þarf ekki að fara út fyrir höfuðborgina til að leita að verkefnum og það verkefnum sem borga sig á sviði samgöngumála.