133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

243. mál
[14:18]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Frú forseti. Það var þarft að fá fram þessa spurningu. Ég held að menn hafi ekki áttað sig á því að með jarðgangagerðinni jókst umferð meira en reiknað var með. Í annan stað er erfitt, þegar ekið er suður til Reykjavíkur í göngunum, að þá er einföld akrein upp úr göngunum að sunnanverðu sem er náttúrlega þegar farið að valda miklum töfum og vanda.

Ég tek undir með síðasta ræðumanni. Auðvitað styðjum við þær framkvæmdir sem mega verða til þess að bæta umferðina og treysta umferðaröryggi. Margoft hefur verið um það rætt að í jarðgöngum Hvalfjarðarganga væri ekki nógu góð og mikil lýsing. Ég hef oft velt vöngum yfir því: Af hverju eru göngin svona dimm? Af hverju eru göngin ekki hvítmáluð til öryggis?

En fyrst og fremst er nauðsynlegt að tvöfalda (Forseti hringir.) göngin og undir það tek ég heils hugar.