133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

243. mál
[14:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Öllum er ljóst að Hvalfjarðargöngin voru mikil samgöngubót og þörf fyrir að breikka þau. Sjálfsagt þarf að fara að huga að því þótt leiðin í samgöngumálum sé ekki að skera stöðugt niður vegáætlun eins og gert hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Ég tek undir þær áherslur hjá hv. fyrirspyrjanda Magnúsi Þór Hafsteinssyni að huga þurfi að þessu. Ég tel líka að huga eigi að því að fella niður gjöld í gegnum þessi göng. Þau eru orðin hluti af almenna samgöngukerfinu og þeir sem nota þessi göng, fyrst og fremst á þessu landsvæði, ættu ekki að vera skattlagðir sérstaklega vegna þeirra. Ég tel tímabært að skoða það.

Hitt vil ég segja við hæstv. samgönguráðherra, varðandi að þetta hafi tekist vel af því að þetta hafi verið einkaframkvæmd og að taka þurfi upp einkaframkvæmdir í vegamálum til þess að hlutirnir gangi, það er kannski vandamál hans sem samgönguráðherra. En hann talar gegn betri vitund (Forseti hringir.) þegar hann heldur því fram að það hafi tekist sérstaklega vel til og það hefði ekki verið ódýrara að fara þar í ríkisframkvæmd. (Forseti hringir.) Nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar segir að það sé svo.

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. ræðumann að virða tímamörk.)