133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

243. mál
[14:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Ég hefði þó viljað heyra að menn væru búnir að gera meira en bara að hittast og ræða aðeins saman þótt orð séu að sjálfsögðu ávallt til alls fyrst. Það liggur fyrir að ef farið verður í þessa framkvæmd, að gera ný göng við hliðina á þeim göngum sem eru núna, mun það mannvirki verða miklu ódýrara en göngin sem fyrir eru. Þá var náttúrlega innt af hendi öll forvinna varðandi jarðfræði og þess háttar.

Hins vegar held ég að tími sé til þess kominn fyrir yfirvöld að huga að því að búa í haginn fyrir þessa mannvirkjagerð, til að mynda að ræða við jarðeigendur. Ég reikna með að ná þurfi einhverjum samningum við þá, kaupa land og ná samningum við jarðeigendur um þetta nýja mannvirki. Eflaust þarf að fara í einhverja hönnun, ekki bara á sjálfum göngunum heldur vegum til og frá þeim göngum. Það eru mörg verkefni sem bíða og ég held að óhætt sé að byrja að huga að þeim sem allra fyrst því að þróunin er öll í eina átt.

Varðandi gjaldtökuna og annað þessa háttar þá held ég að skuggagjaldsleiðin, ef þetta yrði gert í einkaframkvæmd, væri langskynsamlegust. Vegtollurinn á göngunum er afskaplega óvinsæll og leikur enginn vafi á því að vegtollurinn skekkir samkeppnisstöðu byggða norðan Hvalfjarðar við aðrar byggðir umhverfis höfuðborgarsvæðið. Ég tel að á því leiki enginn vafi. (Forseti hringir.) Gjaldtökunni í Hvalfjarðargöngum þarf að sjálfsögðu að linna sem allra fyrst.