133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta.

148. mál
[14:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Hlutskipti margra gamalla Íslendinga er nokkuð nöturlegt. Umræðan um málefni eldri borgara hefur verið hávær í samfélaginu núna um nokkurra missira skeið og má segja að sé nú á suðupunkti innan samfélags eldri borgara sjálfra þar sem þung umræða hefur t.d. verið uppi um það að stofna til sjálfstæðs framboðs eldri borgara og annarra slíkra hluta til að þrýsta á stjórnvöld og stjórnmálaflokkana að setja málefni eldri borgara í forgang. Þá er að sjálfsögðu sérstaklega rætt um lífeyriskjör eldri borgara annars vegar og hins vegar aðbúnað og umgjörð á öldrunarstofnunum og þjónustustofnunum fyrir aldraða.

Fyrir nokkrum árum spurði ég hæstv. heilbrigðisráðherra hve margir eldri borgarar, að sambýlisfólki og hjónum frátöldum, væru í sambýli á hjúkrunarheimilum öldrunarstofnana, sem sagt deildu nauðug herbergjum í fjölbýlum eða tvíbýlum. Svarið við því var að yfir 1 þús. aldraðir Íslendingar gerðu það. Víða um land er hálfgert neyðarástand í hjúkrunarheimilismálum. Það er mikill og alvarlegur skortur á hjúkrunarheimilum sums staðar á landinu. Fólk er í fjölbýlum þvert á það sem það vill og það býr við nöturlegt hlutskipti. Það er þörf á nýrri og róttækri stefnu í málefnum aldraðra. Öflug heimaþjónusta og þjónustukjarnar verða að sjálfsögðu að fylgja með ríkulegri uppbyggingu á hjúkrunarrýmum og öldrunarstofnunum en eins og staðan er í dag eru brotin mannréttindi á mörgum öldruðum Íslendingum og virðing okkar fyrir reisn þeirra og sjálfsforræði er oft af skornum skammti. Auðvitað er þetta ekki gert að yfirlögðu ráði. Þróunin hefur verið sú að við höfum ekki byggt upp og haldið í við þá þróun.

Það á að leggja blátt bann við því í lögum að fólk deili herbergjum á öldrunarstofnunum með öðrum en sambýlismanni sínum eða ef um hjón er að ræða. Það er alveg skýrt í mínum huga.

Af þessu tilefni spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra spurninga í fjórum liðum:

1. Hver er áætlaður kostnaður við að mæta þörfinni fyrir hjúkrunarrými á landinu öllu?

2. Hversu mörg rými á landinu öllu er um að ræða?

3. Hve margir aldraðir eru á dvalarheimilum annars vegar og hjúkrunarheimilum hins vegar?

4. Hve margir deila herbergi með öðrum, ef hjón eða sambýlisfólk er frátalið, og hve margir eru í einkaherbergjum?

Það er eitt af stærstu verkefnum samfélagsins í dag að bæta úr aðbúnaði eldri borgara sem búa við nöturlegt hlutskipti og kröpp kjör.