133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta.

148. mál
[14:33]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 7. þm. Suðurk. beinir til mín spurningum um hjúkrunarheimili og öldrunarþjónustu og spyr hver sé áætlaður kostnaður við að mæta þörfinni fyrir hjúkrunarrými á landinu öllu og hve mörg rými sé um að ræða.

Nýlega kynnti ég áætlun mína um uppbyggingu hjúkrunarrýma til næstu fjögurra ára. Samkvæmt þeirri áætlun verða byggð 374 ný rými á næstunni. 200 þeirra verða í Reykjavík þar sem Seltirningar eiga 30 rými, en Reykvíkingar standa að hinum ásamt ríkinu. Hin 174 rýmin verða í Kópavogi, Mosfellsbæ, Garðabæ, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Selfossi og á Ísafirði. Það er mat heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að þegar þessi 374 rými hafa verið byggð sé mjög líklegt að þörf fyrir hjúkrunarrými á landsvísu sé fullnægt. Mat ráðuneytisins byggist á þeim forsendum að heimahjúkrun verði aukin, skammtímaplássum fjölgað, almennum dagvistarrýmum og dagvistarrýmum fyrir heilabilaða fjölgað og vistunarmat bætt. Ég vil sérstaklega draga fram að nú þegar erum við með hærra hlutfall aldraðra á stofnunum hér á landi en í nágrannaríkjunum.

Spurt er um áætlaðan kostnað við að mæta þörf fyrir hjúkrunarrými á landinu öllu. Eins og áður segir eru þetta 374 rými til ársins 2010 og það er áætlað að heildarkostnaður við byggingu þeirra nemi um 7 milljörðum kr. Það er búið að byggja fyrir í kringum 52 milljarða nú þegar og það er þá miðað við að það kosti 15 millj. að byggja rýmið. Reyndar hafa þær tölur hækkað núna, það kostar líklega milli 18 og 19 millj. að byggja hvert rými í dag. Það að reka þau rými sem við höfum í dag kostar um 16 milljarða á ári. Þetta er líklega of lág tala því að þar er reiknað með 5,5 millj. á rými á ári en nú þegar teljum við að sú tala sé komin upp í 6,5 millj. á ári í rekstri.

Þegar ég segi að þörf fyrir hjúkrunarrými verði fullnægt á ég við að framboð rýma verður þá nægt til að vista þá aldraða sem eru í þörf fyrir slík úrræði. Þörfin fyrir hjúkrunarrými ræðst að talsverðu leyti af þeirri þjónustu sem stendur þeim öldruðu sem búa heima til boða. Því meiri stuðning sem aldraðir fá heima, þeim mun seinna þurfa þeir að fara á hjúkrunarheimili. Við verjum um 700 millj. kr. til heimahjúkrunar í dag og munum bæta um 200 millj. kr. á næsta ári þannig að ég tel mjög brýnt að auka þjónustuna heima til að við byggjum ekki um of. Það er fyrirsjáanlegt að á næstunni þurfum við að verja umtalsverðum fjármunum til að endurnýja gömul heimili, þ.e. bæta aðstæður og fækka fjölbýlum þannig að sem flestir verði í einbýli. Það er verulegt átak sem þarf til að hrinda því í framkvæmd.

Hv. þingmaður spyr um fjölda aldraðra í dvalar- og hjúkrunarrýmum og fjölda þeirra sem búa í einbýli og fjölda þeirra sem búa í fjölbýli, að hjónum eða sambýlisfólki frátöldu. Í dvalarrýmum búa samtals 730 einstaklingar — þetta er byggt á tölum frá nóvember 2006 — á stofnunum um allt land. Af þeim eru 620 í einbýli en 16 í fjölbýli, að hjónum og sambýlisfólki frátöldu. Í hjúkrunarrýmum búa samtals 2.360 einstaklingar í nóvember 2006. Af þeim eru 1.440 í einbýli en 845 í fjölbýli, að hjónum eða sambýlisfólki frátöldu. Virðulegi forseti. Það eru 845 sem búa í sambýli í dag sem er æskilegt að búi vonandi bráðlega í einbýli þegar búið verður að endurbæta það húsnæði sem fyrir er.

Ég vil draga fram að mikil umræða hefur verið um biðlista eftir hjúkrunarrýmum og það er alveg ljóst að það þarf að gera verulegar breytingar á því fyrirkomulagi sem við notum við vistunarmat í dag. Það er algjörlega ljóst að biðlistarnir sýna mjög ranga mynd. Yfir helmingurinn sem er á biðlistunum telur sig geta búið heima fái hann betri þjónustu. Það er þá bæði heimahjúkrun en ekki síður félagsleg þjónusta sveitarfélaga og það er mikið áhyggjuefni fyrir þá er hér stendur sem ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála að sjá tölur um það, frekar nýlegar tölur, hjá Ríkisendurskoðun að yfir helmingur sveitarfélaga hefur dregið úr félagsþjónustu fyrir aldraða, minnkað hana. Það er alveg ljóst að sveitarfélögin þurfa að herða sig í þessari þjónustu af því að það eru réttindi þeirra sem eru aldraðir að fá að búa heima sem lengst. Það er alveg ljóst að miðað við þær tölur erum við nú þegar með hærra hlutfall hér á stofnunum, en annars staðar þurfum við að þjónusta heima. Ég sé líka verulegan mun á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu hvað það eru miklu fleiri á stofnunum á landsbyggðinni (Forseti hringir.) en á höfuðborgarsvæðinu.