133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

heilsugæsla í Grafarholti.

322. mál
[14:54]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er brýnt að ræða hér heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Ég minni á að áratugum saman var Voga- og Heimahverfi án heilsugæslu. Það er tiltölulega stutt síðan að íbúar þar fengu sína sérstöku heilsugæslu. Nú á að leysa vanda 5.000 manns í Grafarholti og Norðlingaholti og auglýsa eftir húsnæði fyrir nýja heilsugæslustöð.

Mig langar í tilefni af því að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga: Hversu margir Reykvíkingar eru án heimilis- eða heilsugæslulæknis? Telur ráðherra, úr því að fara á að auglýsa eftir húsnæði fyrir þessa heilsugæslustöð, viðunandi að heilbrigðisþjónusta eins og heilsugæsla sé staðsett í verslunarmiðstöðvum eins og þróunin hefur verið undanfarið?

Ég vil minna á þá þjónustu sem var í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg sem komin er inn í verslunarmiðstöð og fleiri heilsugæslustöðvar sem hafa ratað inn í slíkt. En það hefur verið gagnrýnt harðlega af þeim sem veita þjónustuna að þetta sé ekki húsnæði sem henti fólki sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda. Margir sjúklingar þola illa þann eril sem er í verslunarmiðstöðvum.